Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:56:04 (3096)

2003-12-10 20:56:04# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að þetta væri sáralítið frv. og skildi ekki í öllum þessum hávaða og látum í stórútgerðinni og öðrum aðilum. Það skyldi ekki vera svo að þetta sé bara leikrit því hvað skyldi einkenna þetta frv.? Það er niðurskurður á byggðakvóta. Hverjir hafa verið á móti byggðakvótanum? Stórútgerðin. Í frv. er niðurskurður á afla krókaaflamarksbáta. Hver hefur verið á móti krókaaflamarksbátum? Stórútgerðin. Í kjölfarið kemur útrýming smábátaflotans, niðurskurður á dögum niður í 18 á tímabilinu. Þar bætist upp þessi tonnafjöldi sem hugsanlega kemur í línuívilnunina. Hver hefur verið á móti þessum flota? Einmitt, stórútgerðin. Hvaða skip eru það sem helst geta sölsað undir sig þessa línuívilnun? Það eru einmitt millistór skip, stærri skip, sem geta farið á línu og sölsað það undir sig.

Hefur ekki hvarflað að þingmönnum að líklega er þetta allt leikrit eins og venjulega, frumvarpið kokkað af stórútgerðinni og síðan er sett á svið þetta leikrit sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson leikur hlutverk í?