Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:48:58 (3106)

2003-12-10 21:48:58# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:48]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið fyrr í umræðunni er hér um möguleika að ræða. Það fer eftir því hvernig þeir verða nýttir hvaða áhrif þeir hafa á einstök byggðarlög. Þess vegna er mjög erfitt að reikna það út fyrir hvert byggðarlag fyrir sig. Byggðapottarnir eru hins vegar ekki lagðir niður í einu vetfangi heldur í áföngum til að aðilar geti lagað sig að nýjum aðstæðum. Auðvitað verður að minna á það í leiðinni að það verða möguleikar í 9. gr. til að veita byggðakvóta. Því er alls ekkert verið að leggja byggðakvóta niður með þessu frv.

Hins vegar hefur það alltaf verið svo, með þá potta sem um er að ræða, að þeir hafa verið heimildir til ráðherra. Þeim hefur alltaf, enda beinlínis ætlast til þess í fiskveiðistjórnarlögunum, verið ráðstafað í upphafi fiskveiðiárs en ekki þegar líður á árið.

Hv. þm. nefndi kapphlaup. Hann hafði áhyggjur af kapphlaupi og ólympískum veiðum í sóknarkerfi. Það er auðvitað rétt hjá honum að það er sá vankantur sem þessum kerfum fylgir. Hins vegar tel ég skynsamlegri leið að setja þak á þennan hátt fremur en hafa ívilnunina algjörlega opna. Ég tel að það sé ábyrgari fiskveiðistjórn að gera þetta þannig. Vonandi bera menn gæfu til að ganga skikkanlega um þessa heimild og þennan möguleika öllum til hagsbóta.