Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:02:41 (3115)

2003-12-10 22:02:41# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:02]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var nú ekki svo margt sem kom fram sem eingöngu var beint til mín, en ég gerði að umtalsefni og gerði athugasemdir við það sóknarkerfi sem við erum að taka hér upp að hluta.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég tók auðvitað eftir því í kosningabaráttunni að fulltrúum Frjálsl. var tíðrætt um sóknarkerfi Færeyinga, að það hafi gefið góða raun. Miðað við það sem ég hef kynnt mér um fiskveiðistjórnarkerfið í Færeyjum og lesið mér til um og aflað mér upplýsinga um þá er ég ekki svo viss um, virðulegi forseti, að Færeyingar geti byggt upp á sóknarkerfi mjög lengi í viðbót. Ég held einfaldlega að þegar þeir fóru að stýra sínum veiðum eftir hið mikla hrun sem þar var þá hafi verið mjög lítið af skipum í Færeyjum miðað við það sem áður var. Og ég held að á færeysku miðunum hafi líka verið mikil náttúruleg uppsveifla í fiskstofnum. Þess vegna hafi þetta gengið svo vel þar sem raun ber vitni. En ég óttast það að Færeyingar þurfi að svissa frá sínu kerfi yfir í aflamarkskerfi eða einhverja aðra útfærslu. Vonandi hafa þeir þá til hliðsjónar þá vankanta sem við ræðum hér um í okkar kerfi. En ég óttast það, virðulegi forseti, að Færeyingar muni ekki geta byggt upp á sínu sóknarkerfi lengi.