Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:51:09 (3132)

2003-12-10 22:51:09# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:51]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði áðan hvort menn þyrftu svar við því hvort sólin komi upp á morgun og var þá að vísa í stefnu Samfylkingarinnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnast þetta eiginlega vera ummæli kvöldsins.

Ég hef gert það að leik mínum að fylgjast með ræðumönnum Samfylkingarinnar fjalla um þetta frv. og ef við förum svona örlítið yfir línuna, hvað hafa þeir sagt? Þegar menn hafa reynt að greina skoðanir hv. þm. Jóhanns Ársælssonar á þessu frv. þá hafa þeir helst komist að þeirri niðurstöðu að hann styðji ekki þetta frv. vegna þess að hann vilji minni línuívilnun á ýsu og steinbít. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir hér hreint og klárt og er afskaplega hreinskilinn í því að ef Vestfirðingar hagnist á þessu frv. þá sé hann á móti því. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson hvort hann sé sammála samflokksmanni sínum í þessu. Því samflokksmaður hans sagði hvað eftir annað að ef Vestfirðingar högnuðust á þessu frv. þá væri hann á móti því, og ég vil fá að vita hvort hv. þm. Jóhann Ársælsson er sammála því.

Höldum áfram. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson, hvað segir hann? Hann segir að hér sé verið að bæta frumstæðasta útgerðarflokkinn, þ.e. smábátasjómenn. Hv. þm. Kristján Möller talaði um áðan ... (Gripið fram í.) Ég tók ágætlega eftir þessu og skrifaði niður, hv. þm. Mörður Árnason. Hann sagði hér og upplýsti okkur að aflamarkskerfið hafi kosti, eins og maðurinn væri að segja einhverjar fréttir, en hann talaði ekkert um frv. í sínum ræðum, ekki neitt, og hljóp svo undan þjóðnýtingarstefnu Samfylkingarinnar, þessari svokölluðu fyrningarleið sem hv. þm. Mörður Árnason gekkst þó við í ræðu, en notaði tækifærið og kallaði frv. sem hér er drullumall, svo ég vitni beint í hans orð. Og hann talaði um það sem einn helsta gallann ef fyrirtæki gætu keypt hvert af öðru. Hver var hans lausn? Jú, uppboðskerfið.