Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:55:20 (3134)

2003-12-10 22:55:20# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:55]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. einnar spurningar og hver var sú spurning? Ég spurði hvort hann væri sammála samflokksmanni sínum í því að ef Vestfirðingar hagnast á þessu frv. að þá sé hann á móti. Ég vil gjarnan fá svar við því.

Varðandi þjóðnýtingarstefnuna þá snýst málið um það að Samfylkingin ætlar að taka veiðiréttindi af fyrirtækjum, af einstaklingum sem hafa keypt þau dýrum dómum. Rökin eru þau sem hér hafa komið fram að það sé verið að ná í einhvern svokallaðan gjafakvóta sem stenst enga skoðun, en gefum okkur umræðunnar vegna að það væri rétt að hér væri um gjafakvóta að ræða, þá eru flestir þeir sem fengu slíka úthlutun fyrir löngu farnir úr greininni. Og það var athyglisvert í ferð sjútvn. þegar ég og hv. þm. Jóhann Ársælsson ásamt öðrum komum í sjávarútvegsfyrirtæki og þeir aðilar sem standa í þessum rekstri reyndu að útskýra fyrir viðkomandi þingmönnum að ef farið yrði í það að taka þær aflaheimildir sem þeir væru búnir að fjárfesta í dýrum dómum, þá væri vonlaust að reka þessi fyrirtæki og þá væri ansi illa komið fyrir þeim byggðarlögum sem byggja afkomu sína á þessum fyrirtækjum. Þetta er ekkert annað en gamaldags sósíalismi og skelfilegt að slíkt sé uppi í stefnu stjórnmálaflokka.

Hins vegar er hv. þm. Jóhann Ársælsson gamall alþýðubandalagsmaður og ég veit að það hljómar vel að taka hluti til ríkisins og útdeila þeim aftur með einhverjum hætti. En spurning mín er þessi, og ég veit að það fór í taugarnar á hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að ég skyldi leyfa mér að vitna í þingmenn Samfylkingarinnar, ég leyfði mér að vitna í orð þeirra í ræðum hér í kvöld, en ég spyr hv. þm. aftur í lok míns andsvars: Er hann sammála hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni þegar hann segir að hann sé á móti frv. ef Vestfirðingar muni hagnast á því?