Ársreikningar

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 23:04:32 (3137)

2003-12-10 23:04:32# 130. lþ. 47.3 fundur 427. mál: #A ársreikningar# (matsreglur, EES-reglur) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[23:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

Um haustið 2000 var hafist handa á vegum fjármálaráðuneytisins að endurskoða lög nr. 144/1994 með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á vettvangi Evrópusambandsins. Frv. sem hér er flutt er liður í þeirri endurskoðunarvinnu.

Með þessu frv. er lagt til að félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/65/EB frá 27. september 2001 um breytingu á fjórðu og sjöundu félagatilskipun og bankatilskipuninni að því er varðar matsreglur vegna ársreikninga og samstæðureikninga félaga með takmarkaða ábyrgð eigenda, sem og banka og annarra fjármálastofnana, verði innleidd. Tilskipunin sem þetta frv. byggir á felur í sér að vikið er frá kröfu 32. gr. fjórðu tilskipunar nr. 78/660/EBE um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð, þ.e. félaga með takmarkaðri ábyrgð, um að liðir ársreiknings séu metnir á grundvelli meginreglunnar um innkaupsverð eða kostnaðarverð. Undanþágu frá þessari reglu er þó að finna í 33. gr. tilskipunarinnar er heimilar endurmat eigna með tilliti til áhrifa verðbólgu á þá liði sem sýndir eru í ársreikningi og verðbólgureikningsskil á Íslandi byggðust á meðan þau voru við lýði. Samkvæmt tilskipuninni er þess krafist að aðildarríkin taki upp kerfi gangverðsreikningsskila, sem á ensku er kallað ,,fair value accounting``, fyrir tiltekna fjármálagerninga til að fjármálaupplýsingar fyrirtækja í aðildarríkjum ESB séu samanburðarhæfar. Aðildarríkin skulu heimila öllum félögum eða flokkum félaga sem starfa samkvæmt fyrrnefndum tilskipunum að taka upp þetta kerfi, bæði fyrir ársreikninga og samstæðureikninga, svo og samstæðureikninga eingöngu.

Vegna aðildar Íslands að EES-samningnum er skylt að innleiða þessa tilskipun í ársreikningalög. Þessi tilskipun er liður í vinnu Evrópusambandsins við að koma á samræmi milli alþjóðlegra reikningsskilastaðla og tilskipana ESB um reikningsskil og er jafnframt liður í þeirri vinnu að innleiða alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Ég legg að svo mæltu til, herra forseti, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.