Breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 23:08:14 (3138)

2003-12-10 23:08:14# 130. lþ. 47.4 fundur 359. mál: #A breyting á XXII. viðauka við EES-samninginn# (alþjóðlegir reikningsskilastaðlar) þál., 360. mál: #A breyting á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn# (fjarsala á fjármálaþjónustu) þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[23:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með fyrri þáltill. sem hæstv. forseti hefur gert grein fyrir, þ.e. um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og að fella inn í samninginn reglugerð um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla er gerð grein fyrir efni þessarar ákvörðunar í tillögunni. Það kemur fram á fylgiskjali með henni. En hvað varðar efnisatriði þessa máls nægir að nefna það að hér er fjallað um að taka skuli upp alþjóðlega staðla á sviði reikningsskila á innri markaði Evrópusambandsins með það fyrir augum að samræma fjárhagslegt uppgjör og upplýsingar um fjárhagslega stöðu fyrirtækja á hlutabréfamarkaði. Samræmd reikningsskil stuðla að auknu gagnsæi og auðvelda samanburð á milli ársreikninga fyrirtækja í öllum löndum og afar mikilvægt er að það sé gert með samræmdum hætti.

Fjmrn. vinnur nú að gerð frv. um innleiðingu þessara reglna og þýðingarmiðstöð utanrrn. vinnur að þýðingu þessara reikningsskilastaðla, en þeir eru miklir að vexti og mikil vinna samfara þýðingu þeirra.

Seinni þáltill. fjallar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn tilskipun um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur. Það er með sama hætti gerð grein fyrir efni þeirrar ákvörðunar í tillögunni og kemur fram á fylgiskjali með henni.

Hvað varðar efnisatriði þá fjallar þessi tilskipun um neytendavernd við fjarsölu á fjármálaþjónustu. Er þessari tilskipun ætlað að styrkja réttarstöðu neytenda við fjarsölu á fjármálaþjónustu, m.a. með því að kveða á um rétt neytenda til að falla frá fjarsölusamningi um kaup á fjármálaþjónustu.

Iðn.- og viðskrn. er að vinna að gerð frv. um innleiðingu þessara reglna og munu frv. um þessi mál bæði verða lögð fram á Alþingi þegar þau eru tilbúin. Skapast hefur sú venja að þessi mál fara til utanrmn. til umfjöllunar til þess að Alþingi geti fylgst sem best með því sem þarna er að gerast.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessum tillögum báðum vísað til hv. utanrmn.