Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:41:00 (3148)

2003-12-11 10:41:00# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Vegna orða hv. þingmanns og vegna nál. minni hluta heilbrn. þar sem kemur fram að öryrkjar sem eru á aldursbilinu 16--17 ára séu 170, 100 piltar og 70 stúlkur, vildi ég gjarnan koma að leiðréttingu um þetta. Þessu var slegið fram af embættismanni ráðuneytisins á fundi með heilbr.- og trn. en hins vegar barst okkur í nefndinni staðfesting frá Tryggingastofnun á því að þessir einstaklingar eru ekki nema 64. Það eru ekki nema 64 einstaklingar á aldursbilinu 16--17 ára.

Í nál. minni hlutans segir að það verði ekki séð af frv. að foreldrar og börn geti valið þessa leið, hvort þeir velja örorkulífeyrinn eða umönnunarbætur eftir því hvort kemur betur út. Þá vil ég fá að vekja athygli, herra forseti, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar á því að frv. nær ekki til þeirra sem eru á aldursbilinu 16--17 ára. Það nær eingöngu til þeirra einstaklinga sem eru orðnir lögráða þannig að það er ekki um val þar að ræða. Þeir geta ekki valið umönnunarbætur, herra forseti.