Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:46:53 (3152)

2003-12-11 10:46:53# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur gert mjög vel grein fyrir nál. minni hluta heilbr.- og trn. hvað varðar það mál sem við fjöllum um, þ.e. breytingar á almannatryggingum vegna aldurstengdrar örorkuuppbótar. Hefur þó nokkuð verið fjallað um málið og þá sérstaklega fram að þessu í tengslum við afgreiðslu fjárlaga því að þar var tekist á um þær upphæðir sem fram koma í skerðingartöflu sem við erum enn að takast á um við afgreiðslu þessa máls. Það er rétt að taka fram að ég lýsi ánægju yfir þeirri kerfisbreytingu sem komið er á með þessu frv., þ.e. að hækka bætur til þeirra sem yngstir verða öryrkjar. Þetta er réttlætismál og því ánægjulegt að af þessari kerfisbreytingu hafi orðið og það á ári fatlaðra. Fjármagnið sem við höfum til úthlutunar á fjárlögum er takmarkað en það er forgangsröðunin sem skiptir máli og þá er mikilvægt að horfa til þess hóps sem öryrkjar fylla og fær lífeyri úr ríkissjóði, þ.e. frá Tryggingastofnun ríkisins, eins og verið er að gera núna. Það er samt ekki allt þegar litið er til framtíðar því að vissulega þarf að hækka raunbætur til öryrkja til að bæta kjör þeirra almennt en það er fyrir utan það frv. sem við fjöllum um í dag.

Þegar farið er yfir þetta mál má segja að orð standi gegn orði. Hér er fjallað um pólitískan heiður heilbrrh. því að eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fór yfir áðan hafa yfirlýsingar, fréttatilkynningar, fréttir í blöðum og ljósvökum undirstrikað og staðfest skilning forustumanna Öryrkjabandalagsins á því hvað Öryrkjabandalagið taldi sig vera að handsala með samkomulaginu í Þjóðmenningarhúsinu þann 25. mars 2003. Þar var ekki bara fjallað um tvöföldun á greiðslu til yngstu öryrkjanna og að sú upphæð félli út við 67 ára aldur, heldur var þar verið að handsala ákveðna kjarabót sem var byggð að ég tel með mjög sanngjörnum hætti, þ.e. línulaga skerðingu í prósentum og með ákveðinni krónutölu, þ.e. 421 kr., sem átti að lækka við hvert aldursár frá yngstu öryrkjunum til 67 ára. Hér fór ekkert á milli mála. Fjölmiðlarnir tóku þetta beint upp af fundinum í Þjóðmenningarhúsinu. Þessum fréttum var ekki mótmælt og síðan var það ljóst í umræðu um fjárlögin að hæstv. heilbrrh. hafði verið þessarar skoðunar en taldi að þar sem hann fengi ekki frekara framlag inn í fjárlögin til þessa málaflokks yrði að tvískipta greiðslunum. Það eru ekki margir dagar síðan þessi yfirlýsing kom fram.

Því miður, herra forseti, samkvæmt því frv. sem hér liggur frammi vantar hálfan milljarð upp á að standa við þetta samkomulag og það tekur til 18 ára og eldri en ekki 16 ára eins og gert var ráð fyrir. Á bak við þessa breytingu liggja ákveðin rök, að það sé rétt að miða aldurstengingar við þann aldur sem unglingar verða sjálfráða, 18 ára aldur, en það stangast eins og bent hefur verið á á við lög um almannatryggingar. Örorkubætur má samkvæmt lögunum greiða frá 16 ára aldri. Þetta var með upphæðina.

Eins voru mikil vonbrigði að ekki skyldi koma fram í frv. að þar sem ekki væri hægt að uppfylla samkomulagið að fullu yrði tekið tillit til 1/3 hluta af samkomulaginu og stefnt að því að greiða þá upphæð fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2005. Sú afdráttarlausa yfirlýsing er ekki gefin í frv., heldur á að endurskoða vel hvernig þessar bætur koma út til öryrkja og eins eru uppi hugmyndir um að skoða það sérstaklega með tilliti til þess hvort yngstu öryrkjarnir fái bætur úr lífeyrissjóði, hvort þá eigi að taka tillit til þess og hugsanlega að skerða þær bætur sem hér er verið að lögfesta. Það á eftir að koma í ljós hvað kemur út úr endurskoðuninni en þessi ferill allur er mér og Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, Öryrkjabandalaginu og fleirum mikil vonbrigði. Það sem átti að verða ánægjulegur atburður hefur snúist upp í þá kjarabaráttu fyrir öryrkja sem raun ber vitni og ég sé ekki annað en að málin hafi þróast þannig að Framsfl. hafi hreinlega ekki staðið í ístaðinu, hafi ekki staðið vaktina frá því í mars sl., og ekki fylgt því eftir af nægri hörku að 1,5 milljarðar kæmu fram í frv. og yrðu afgreiddir á fjárlögum þessa árs. Það er ekki nóg að vera með pólitískar yfirlýsingar og áherslur, gefa fyrirheit og loforð ef því er svo ekki fylgt eftir við samstarfsflokkinn og séð til þess að það skili sér inn í fjárlögin.

Við erum alltaf og stöðugt að forgangsraða við afgreiðslu fjárlaga og ég er ekki í neinum vafa um að vel hefði verið hægt að koma á aldurstengdri örorkuuppbót eins og lofað hafði verið, ég tala nú ekki um þegar búið er að sýna með útreikningum hversu há upphæð hefði skilað sér aftur til ríkissjóðs miðað við þá reglu sem nú er í gildi hvað varðar skattlagningu örorkulífeyris. Rúmur hálfur milljarður hefði skilað sér aftur í ríkissjóð. Þegar upp er staðið og allt til tekið hefðu þetta ekki verið útlát fyrir ríkissjóð nema upp á tæpan milljarð þótt 1,5 milljarðar hefðu verið settir í þetta. Þetta er spurning um pólitískan vilja og vilja til að standa við gefin loforð. Því höfum við sameinast um það í minni hluta heilbr.- og trn. og stjórnarandstöðunni að flytja brtt. sem er samhljóða því samkomulagi sem nefnt var við handsal samkomulagsins. Við leggjum til að staðið verði við samkomulagið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Það væri hægt að fara yfir ýmsa þætti og rekja yfirlýsingar og staðfesta enn frekar stöðu og málflutning Öryrkjabandalagsins en ég tel að flestallt hafi komið fram, bæði í máli hv. þm. sem hér greindi frá nál. minni hlutans og eins við umræðu um fjárlögin fyrir skömmu.