Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:58:05 (3153)

2003-12-11 10:58:05# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða breytingu á lögum um almannatryggingar. Málið er komið til 2. umr. og langar mig aðeins til að koma inn á nokkur atriði sem ég nefndi við 1. umr. málsins. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson fór mjög ítarlega yfir málið þegar hann fylgdi úr hlaði áliti frá minni hluta heilbr.- og trn. sem þingmenn Samf. standa að. Það álit sýnir mjög glögglega hvernig þetta mál hefur þróast, hverju var lofað í upphafi, hverju var lofað fyrir kosningar, og síðan hverjar efndir þeirra loforða eru nú þegar við stöndum frammi fyrir því að þetta frv. er komið inn í þingið. Ég ætla, herra forseti, ekki að rekja það í smáatriðum, enda var farið mjög rækilega yfir það í framsögunni hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni og þeir sem vilja kynna sér hvernig þessum málum var háttað geta þá farið yfir nál.

[11:00]

Hér erum við vissulega að viðurkenna sérstöðu öryrkja. Mjög margir þeirra, sérstaklega þeir sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, eiga aldrei kost á því að vinna sér inn neitt í lífeyrissjóð og hafa margir hverjir engin tök á því að auka tekjur sínar umfram þær greiðslur sem þeir fá úr almannatryggingunum. Það er fullkomlega eðlilegt að líta til þess í greiðslum frá velferðarkerfinu og vissulega voru flestir flokkar með þetta á stefnuskrá sinni fyrir kosningar. Samf. barðist fyrir því að koma á þessu fyrirkomulagi sem Öryrkjabandalagið hafði barist fyrir og kynnt mjög rækilega og það átti ekki að hafa farið fram hjá neinum hvað fólst í þessari leið Öryrkjabandalagsins, enda er alveg ljóst að það fór ekki fram hjá Framsfl. fyrir kosningar, a.m.k. eru skýrar útlistanir frétta frá því fyrir kosningar á því hvað þetta samkomulag við heilbrrh. fæli í sér. Það eru ítarlegar útskýringar í blöðum, í sjónvarpi, í fréttatímum um hvað þetta þýddi en núna, þegar við stöndum frammi fyrir þessu stjórnarfrv., er alls ekki verið að fara þá leið sem stjórnarliðar kynntu fyrir kosningar. Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi verið hluti af verðlaunaverkefninu fyrir hina snilldarlegu kosningaherferð Framsfl., þessi leið sem fyrst er kynnt á þennan hátt og síðan efnd með hinum hættinum, þ.e. vanefnd sem er réttara orð.

Herra forseti. Ég gerði að umtalsefni við 1. umr. um málið hlut 16--18 ára öryrkja. Vissulega eru foreldrar framfærsluskyldir til 18 ára aldurs barns. Hér segir að fram hafi komið í nefndinni að öryrki sem er 16--18 ára og foreldrar hans geti valið hvort greiddar séu umönnunarbætur til foreldra eða hvort örorkubætur eru greiddar öryrkjanum. Í umræðunni áðan kom fram að það eru 64 öryrkjar, 16--18 ára, sem fá greiðslur.

Ég spyr, herra forseti, þá sem sátu í nefndinni og fjölluðu um þetta mál: Var athugað hvort kæmi betur út, umönnunarbæturnar eða örorkugreiðslurnar, miðað við sömu hækkun og 18 ára? Ég spyr þá sem sátu í nefndinni vegna þess að ég sit ekki í henni sjálf. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það hvort kannað hafi verið í nefndinni og það skoðað hvort kæmi betur út, umönnunargreiðslur til foreldra eða örorkugreiðslur, miðað við hækkunina sem kemur til þeirra 18 ára, þannig að menn hefðu þá a.m.k. kost á því að taka hærri greiðslurnar. Ef örorkugreiðslur koma betur út en umönnunargreiðslur, þ.e. 18 ára greiðslurnar ef þær væru heimilaðar til þessara 64 sem eru undir 18 ára aldri og eru öryrkjar, ættu þeir að geta valið þær. Það væri fróðlegt að fá að heyra um það.

Hér hafa stjórnarliðar hreykt sér af því hvað þeir hafa gert til að bæta stöðu öryrkja á undanförnum árum. Eitt af því sem menn nefna er minnkunin á skerðingunni á tekjutryggingaraukanum. Það var eitt af því sem við gagnrýndum harðlega en tekjutryggingaraukinn kom inn í lögin eftir öryrkjadóminn, og skerðingarákvæðið þar var hærra en nokkurs staðar annars staðar í almannatryggingalögunum, 67% skerðing. Það var alls ekki óeðlilegt að breyta því, enda var samkomulag í nefndinni um að breyta því niður í 45% á síðasta vetri. Þetta þóttu óheyrilega há skerðingarmörk, 67% af tekjutryggingaraukanum, og ástæðulaust að hreykja sér af því þegar menn eru síðan að vanefna loforð við öryrkja frá því fyrir kosningar.

Hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið iðinn við það að ræða um þennan hóp sem verður út undan, þ.e. þá sem eru metnir 49% öryrkjar og eru ekki með neinar kjarabætur. Hv. þm. Pétur Blöndal er ekki í salnum þannig að ég á kannski ekki að vera að gagnrýna það sem hann hefur sagt hér en ég get ekki orða bundist. Ég furða mig á því þegar stjórnarþingmaður eins og Pétur Blöndal sem hefur öll tök á því að koma breytingum sínum á framfæri og jafnvel vinna þeim fylgi innan sinna raða skuli þá ekki hafa komið með brtt. inn í þingið um þennan hóp öryrkja, 49% öryrkja sem ekki fá neina kjarabót. Hv. þm. er ekki hér til svara en það væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá honum hvers vegna hann kemur þá ekki með þessa lagabreytingu inn í þingið.

Það hefur komið fram í umræðunni að það kostar innan við milljarð að standa að fullu við samkomulagið við öryrkja, þ.e. raunkostnaður ríkissjóðs er lægri en milljarður, miðað við það að 38,54% af þessari greiðslu koma aftur inn í ríkissjóð. Þetta er allt saman skattlagt. Skattar eru lagðir á öryrkja, þeir fóru að borga skatta í tíð stjórnarsamstarfs Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir borguðu ekki skatta áður vegna þess að þá voru greiðslurnar undir skattleysismörkum en skattleysismörkin hafa ekki fylgt þessum greiðslum. Raunkostnaður ríkissjóðs af því að standa að fullu við samkomulagið, miðað við það að stór hluti fjárins kemur aftur til ríkissjóðs, er ekki nema 939.109 þús. kr. Það er hálfnöturlegt, svona rétt fyrir jólin, að ekki skuli hafa verið hægt að standa við þetta samkomulag að fullu þegar raunkostnaðurinn er undir milljarði.

Auðvitað eigum við að standa þannig að velferðarkerfinu að vel sé gert við þá sem geta ekki sannanlega framfleytt sér eða bætt við tekjur sínar á nokkurn hátt, eins og þeir sem hafa orðið öryrkjar ungir standa margir hverjir frammi fyrir.

Nú er komin yfirlýsing, kom í fréttum í gærkvöldi og í bréfi frá Öryrkjabandalaginu, að það ætli að leita réttar síns í gegnum dómstóla. Það er ekki í fyrsta sinn sem öryrkjar fara þá leið. Það hefur verið svo með Öryrkjabandalagið og núv. ríkisstjórn að það hefur þurft að leita réttar síns oftar en einu sinni fyrir dómstólum og jafnvel ekki fengið leiðréttingu nema með hótunum um að fara dómstólaleiðina. Ég minni á málsóknina sem þurfti að hóta vegna reglunnar um að öryrki sem bjó með börnum sínum fengi ekki heimilisuppbót vegna þess að hann var talinn hafa hag af því að búa með börnum sínum. Það er náttúrlega fáránleg túlkun og var síðan leiðrétt hér.

Hæstv. ráðherra talaði um það í fjölmiðlum, áður en þetta mál kom hér inn, og viðurkenndi að þetta samkomulag sem hann var búinn að lýsa yfir að hann mundi styðja að fullu kostaði meira en hann gat fengið út úr ríkissjóði til að efna loforðið, og þá talaði hann um að það yrði efnt í áföngum. Nú spyr ég, herra forseti, þá sem sátu í nefndinni: Hvar eru áfangarnir? Eru þeir í þessu frv., áfangarnir sem hæstv. ráðherra hefur rætt um í fjölmiðlum og hefur verið talað um hér? Hvernig stendur á því að þessir áfangar eru ekki í frv. ef menn ætla að standa við þetta loforð í áföngum? Hvers vegna kemur þá ekki inn í frv. hvernig menn ætla að standa við loforðið, og hvenær? Er ekkert að marka það sem er sagt, það sem ráðamenn ríkisstjórnarinnar segja opinberlega um málið?

Hæstv. ráðherra talaði um að það yrði staðið við síðari áfangann af loforðinu á næsta ári. Ég sé ekki nein merki um það í frv.

Hv. þm. Samf. í heilbr.- og trn. hafa lagt fram brtt. þar sem lagt er til að staðið verði við loforðið eins og það var upprunalega og töflunni í 2. gr. breytt til samræmis við útreikninga Öryrkjabandalagsins og loforðið sem hæstv. ráðherra gaf því fyrir kosningar. Enn hafa stjórnarliðar tök á því að samþykkja þetta loforð, standa við loforðið sem þeir gáfu. Hér er aðeins verið að standa við tvo þriðju samkomulagsins í frv. en menn hafa enn tök á að standa við það að fullu ef þeir samþykkja brtt. þingmanna Samf. um þetta mál.

Í umræðunni kom fram að það ætti að endurskoða frv. í vor. Hvers vegna þarf endurskoðun í vor? Hvers vegna er ekki staðið við þetta núna strax? Ég spyr, herra forseti. Og ég spyr líka: Hvenær ætla menn að fara í að endurskoða almannatryggingalögin í heild? Lög eiga að vera skýr og almannatryggingalögin eru alls ekki skýr, þau eru mjög ruglingsleg og þvælukennd. Með öllum þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þeim er oft erfitt að skilja margar greinar þeirra. Ég nefni t.d. 17. gr. um tekjutrygginguna. Hún er nánast óskiljanleg, hún er svo þvælukennd.

Það er rétt sem sagt hefur verið hér, það á að standa við gerða samninga og sérstaklega ef menn gera svona samninga fyrir kosningar og fá þá sem eiga að heyra undir þessa samninga, plata þá, til þess að styðja sig, og svíkja þá svo þegar þeir koma aftur til þings eftir kosningar. Það er náttúrlega ekki nokkur framkoma.

Það kom líka fram áðan í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að útgjöld okkar til öryrkja eru minnst af öllum Norðurlandaþjóðunum miðað við PPP-útreikninga og við greiðum hér þriðjungi minna til öryrkja en Danir. Við, þessi ríka þjóð, gerum ekki betur við okkar fólk en þetta. Við erum eftirbátar allra Norðurlandaþjóðanna hvað þetta varðar. Það er eitthvað sem við eigum ekki að láta vera viðvarandi þannig að ég tel að við eigum að standa við þessa samninga, það kostar ekki meira en milljarð í raun að standa við loforðið frá því í vor. Ég hvet svo stjórnvöld til að fara í þá vinnu sem þarf að fara í við að endurskoða almannatryggingalögin í heild sinni. Mörgum sinnum hefur verið ráðist í þá vinnu en hún hefur aldrei skilað neinu, alveg frá 1971, en frá þeim tíma eru þessi lög að grunni til. Þau hafa ekki verið skoðuð í heild síðan þá. Þó að hér hafi verið farið í einhverjar smáskammtasnyrtingar dugar það ekki til, við þurfum að horfa á allan pakkann.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en vonast til þess að ég fái svör við þeim fyrirspurnum sem ég lagði fram til nefndarmanna í heilbr.- og trn.