Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:35:34 (3159)

2003-12-11 11:35:34# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson gefur mér fullt tilefni til þess að andmæla málflutningi hans. Ég ætla að ítreka það að hefði hv. þm. lagt eyrun betur við kosningaloforðum okkar framsóknarmanna þá sögðu allir frambjóðendur flokksins og líka frambjóðendur hins stjórnarflokksins í kosningabaráttunni í vor að ætlunin væri samkvæmt samkomulaginu að tvöfalda allt að því örorkulífeyri yngstu öryrkjanna og verja til þess 1 milljarði kr. --- allt að því tvöfalda örorkulífeyri yngstu öryrkjanna og verja til þess 1 milljarði kr. Tilvísun hv. þm. í Morgunblaðsfrétt um 400 kr. milli aldursstiga eru ekki upplýsingar sem komu frá hæstv. heilbr.- og trmrh. Það má ætla helst, fyrst þær eru ekki þaðan, að þær upplýsingar séu frá formanni Öryrkjabandalagsins. Það lá ekki fyrir á þeim tímapunkti þegar formaður Öryrkjabandalagsins útfærir þessa hugsun sína, að þetta séu 400 kr. á aldursbil, hver kostnaðurinn við þá útfærslu er. Hefði hv. þm. Ögmundur Jónasson setið fund í heilbr.- og trn. þegar fjallað var um málið í vikunni þá hefði það líka komið í ljós og þá vissi hann það núna og væri ekki að fara með þetta svona staðlaust að útreikningurinn sem nam 1,5 milljörðum kr. var gerður af Tryggingastofnun ríkisins löngu eftir að þetta samkomulag var gert að beiðni ákveðins embættismanns sem sat í nefndinni. Þetta var gert í byrjun apríl en nefndin kom aldrei til fundar fyrr en í septembermánuði á þessu ári. Þetta var ekki einu sinni útreikningur sem var beðið um af hálfu nefndarinnar.

Þegar talað er um 400 kr., þegar verið var að ganga frá samkomulaginu, þá lá enginn útreikningur fyrir hvað sú útfærsla á milli aldursstiga mundi kosta. Loforðið og samkomulagið gengur út á 1 milljarð kr.