Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 11:41:55 (3163)

2003-12-11 11:41:55# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, MF
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[11:41]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum vikum hefur verið dálítið sérstakt að fylgjast með umræðunni um það samkomulag sem hæstv. heilbrrh. gerði við Öryrkjabandalagið 25. mars á þessu ári, ekki síst vegna þess að upplýsingarnar sem koma frá Alþingi og koma frá félagssamtökum eru misvísandi og ekki síst vegna þess að hér hafa verið höfð mjög stór orð uppi, bæði af hálfu þeirra sem verja útfærslu hæstv. ríkisstjórnar á samkomulaginu en einnig frá hinum aðilunum.

Því verður ekki á móti mælt að það samkomulag sem gert var 25. mars er eitthvert stærsta framfaraspor sem stigið hefur verið í kjaramálum öryrkja. Því verður ekki á móti mælt. Ég býst við að ég hafi ekki verið ein um það að fagna því sérstaklega að svona ætti að standa að málum, að eftir áralanga baráttu Öryrkjabandalagsins væri loksins að nást niðurstaða um þennan þátt í kjarabaráttu þeirra. Það fór ekkert á milli mála að ætlunin var þá að þetta samkomulag yrði að fullu framkvæmt 1. janúar nk. og menn lögðu þá fram þá tölu að kostnaðurinn næmi hugsanlega rúmum milljarði. Það kemur hins vegar í ljós þegar farið er að skoða samkomulagið, útfæra það nánar, að kostnaðurinn er meiri. Hæstv. ráðherra hefur sjálfur sagt að hann treysti sér ekki eða hafi ekki heimildir til að efna nema tvo þriðju þessa samkomulags á næsta ári. Hann hefur ekki heimildir ríkisstjórnarinnar og þingmeirihlutans til þess að efna samkomulagið að fullu. En hæstv. ráðherra sagði eftir að samkomulagið var gert, með leyfi forseta:

,,Ég hef tröllatrú á því að hver sem ríkisstjórnin verður sem tekur við að loknum kosningum, að þeir standi við þetta samkomulag. Ég hef enga trú á því að hver sem ríkisstjórnin verður, að þeir vilji hefja styrjöld við Öryrkjabandalagið.``

Þetta voru orð hæstv. ráðherra og ég er sannfærð um að hann sagði þetta í þeirri góðu trú að hann héldi að sú ríkisstjórn sem við tæki stæði við samkomulagið að fullu. En það má virða hæstv. ráðherra það til vorkunnar að hann þekkir ekki sitt heimafólk. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að þetta sé eingöngu Framsfl. Það er langt í frá. Að vísu voru það ráðherrar Framsfl. sem komu að langstærstum hluta að því að móta þetta samkomulag. Á Evrópuári fatlaðra er það þannig að málin eru að stærstum hluta í höndum félmrh. En það æxlaðist hins vegar þannig að heilbrrh. var sá sem gekk til samninga sem skiptu sköpum fyrir öryrkja þessa lands. Um það hljóta allir að vera sammála að þar var stigið heillaskref þennan dag. En ekki hafði nokkrum manni síðan dottið í hug varðandi þá ríkisstjórn sem sat á þeim tíma að hæstv. ráðherra hefði ekki bakhjarla í þeirri ríkisstjórn eins og síðar kemur á daginn. Hæstv. ráðherra á ekki bakhjarla, hugsanlega ekki í sínum flokki en alls ekki í Sjálfstfl. virðist vera. Meira að segja er það svo að einn hv. þm. og fulltrúi í heilbr.- og trn. kemur hér í andsvar við hv. formann heilbr.- og trn. til þess að draga í efa að þeir sem hafi útfært þetta frv. séu hæfir til þess að gera það.

[11:45]

Það hefur hingað til eða fram á þennan dag verið eina framlag Sjálfstfl. í þessa umræðu að þeir sem stóðu að því að útfæra frv. kynnu bara ekkert til verka. (DrH: ... í umræðunni á laugardaginn.) Í dag er þetta eina framlag Sjálfstfl., hv. þm. Drífa Hjartardóttir. Í dag er það þannig. Og þetta frv. er til umræðu í dag, niðurstaða heilbr.- og trn., og þar kemur einn fulltrúi Sjálfstfl. úr heilbr.- og trn. í andsvar við formann heilbr.- og trn. Í raun og veru finnst mér öll umræðan um málið hafa einkennst dálítið af því að þeir sem þurfa að standa í forsvari fyrir það, sem er auðvitað hæstv. heilbr.- og trmrh. og nú formaður heilbr.- og trn., standi bara pínulítið einir. Ég er alveg sannfærð um það miðað við öll þau viðtöl, sem fara má yfir í nefndaráliti minni hlutans, sem tekin voru við hæstv. heilbr.- og trmrh. að það var ætlun hans að standa að fullu við samkomulagið. Og hann hefur lýst því yfir að það eigi eftir að uppfylla 1/3 af því samkomulagi sem gert var. Og það hefur komið fram hjá formanni Öryrkjabandalagsins að það sé enginn ágreiningur milli hæstv. heilbr.- og trmrh. og hans um hvað þetta samkomulag kosti. En alla vega stöndum við frammi fyrir því að niðurstaða meiri hluta Alþingis er að standa ekki við samkomulagið sem má horfa á sem kjarasamning. Það samkomulag sem gert var 25. mars er kjarasamningur, er hluti af kjarasamningi Öryrkjabandalagsins. Það er niðurstaðan að standa ekki að fullu við hann þrátt fyrir að hér hafi gefist tækifæri til þess af því að hér hafa verið fluttar tillögur um að standa við samkomulagið að fullu og þær upphæðir sem það felur í sér.

Í raun og veru stendur ágreiningurinn bara um það. Hann stendur ekki um það að þarna er um mikið framfaraspor að ræða. Ég held að það sé þverpólitísk samstaða um það sem samkomulagið fól í sér á sínum tíma. Ágreiningurinn er fyrst og fremst um það að stjórnarandstaðan telur að standa eigi að fullu við samkomulagið og það hefði átt, ef ekki hefði verið hægt að breyta forgangsröðuninni í fjárlögum, að taka af þeim tekjuafgangi sem fjárlög næsta árs sýna til þess að standa við gefin loforð, og við tökum í raun og veru undir áskorun Öryrkjabandalagsins um það að orð skuli standa.

Það er hins vegar eitt atriði í frv. sem hér hefur aðeins verið rætt og það eru kjör öryrkja sem eru 16 og 17 ára vegna þess að í lögum um almannatryggingar er talað um lífeyri til þeirra öryrkja sem eru á aldursbilinu 16--67 ára. Breytingar hafa ekki verið gerðar á almannatryggingalöggjöfinni í samræmi við breytingar á sjálfræðisaldri sem gerðar voru fyrir nokkrum árum og framfærsluskylda foreldra er nú á börnum upp að 18 ára aldri en var 16 ára áður. Það eru auðvitað fleiri lög sem þarf að taka í gegn og breyta í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á sjálfræðisaldrinum. En þeir öryrkjar, 16 og 17 ára, fá ekki samkvæmt frv. þá hækkun sem lögð er til. Hins vegar er það alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm., formanni heilbr.- og trn., að foreldrar eða framfærendur þeirra barna, þeir sem hafa framfærsluskyldu gagnvart einstaklingi 16 og 17 ára, það eru 64 einstaklingar sem eru á þessum aldri sem eru öryrkjar, hafa val hvort þeir taka umönnunarlaun eða örorkulífeyri. Örorkulífeyririnn er rétt rúm 20 þúsund og hann mun ekki hækka nema það sem áður er kveðið á um í lögum. Hann mun ekki taka þessa hækkun sem 18 ára öryrkjar fá og hins vegar eru umönnunarlaunin. Ég hefði talið eðlilegt að í tengslum við þetta frv. hefði verið gerð lagabreyting á almannatryggingalöggjöfinni þar sem kjör þessara einstaklinga, 16 og 17 ára, væru sérstaklega tekin fyrir og það væri þá fellt út alfarið, það væri bara um þessi umönnunarlaun að ræða og að teknu tilliti til, eins og Ingibjörg Georgsdóttir, sérfræðingur Tryggingastofnunar, hefur ítrekað bent á, framfærsluskyldu, heimilisaðstæðna eða félagslegra aðstæðna en ekki eingöngu sjúkdóms eða fötlunar þannig að umönnunarlaunin væru hækkuð í samræmi við það og þá auðvitað að teknu tilliti til náms til að mynda í framhaldsskóla. Það er því töluverð vinna eftir hjá heilbr.- og trn., tel ég vera, að fara í endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni sérstaklega gagnvart þeim öryrkjum sem eru 16 og 17 ára gamlir.

Ég er hér með greiðsluseðil sem er útborgun til 17 ára einstaklings 1. desember 2003. Hann er öryrki, algerlega blindur, og fær í örorkulífeyri 20.630 kr. Þessi lífeyrir mun hækka hjá honum í apríl þegar hann nær 18 ára aldri. Tekjutryggingin er 39.493, tekjutryggingarauki er 15.089. Síðan kemur desemberuppbótin. Hún er upp á 11.848 og desemberuppbót tekjutryggingarauka er 4.527. Þetta gera 91.587 kr. En af þessu eru hins vegar dregnir skattar upp á rúmlega 8.400 kr. Útborguð laun eru 83.106 kr. og frá áramótum eru það 907.957 kr. Það eru tekjur þessa einstaklings allt þetta ár og þar með taldar tekjurnar 1. desember. Þessi einstaklingur mun fá hækkun og sú hækkun er vissulega til bóta en þeir sem verða í hans sporum, sem sagt 16 og 17 ára gamlir, eftir 1. janúar munu verða með þær tekjur sem hér eru gefnar upp sé þessi leið valin en ekki umönnunarlaunin. Þetta þarf sannarlega að taka til endurskoðunar. Af þessum tekjum eru greiddar 28 þús. kr. í húsaleigu fyrir 40 fermetra húsnæði. Síðan á þessi 17 ára einstaklingur náttúrlega eftir að nota peninga í fæði og klæði og það sem ungt fólk á hans aldri vill gjarnan njóta og ég tala nú ekki um ósköpin ef honum dytti í hug að fara í framhaldsskóla og borga þann kostnað, þannig að það er alveg ljóst að tekjur þessa hóps einstaklinga, þ.e. öryrkja sem eru 16--17 ára, verður að taka sérstaklega til endurskoðunar. Og það hefði þurft að gera núna um leið og frv. var lagt fram. Ég átti ekki sæti í heilbr.- og trn. þann tíma sem frv. var til umfjöllunar. Það tók tiltölulega stuttan tíma. Reyndar hefur umræðan svo sem farið fram áður við afgreiðslu fjárlaga. Ég tek hins vegar undir hvert orð sem í nál. minni hluta heilbrn. stendur og þakka hv. þm. sem mælti fyrir því áliti fyrir skörulegan málflutning.

Ég vil aðeins að lokum segja þetta. Það hefur komið fram og það man hver einasti þingmaður og sjálfsagt býsna margir kjósendur líka að í baráttu sinni á síðustu tveimur árum fjallaði Öryrkjabandalagið mikið um það að ástæða væri til þess að öryrkjar og eldri borgarar færu í framboð til þess að framfylgja sínum kjörum inni á Alþingi vegna þess að stjórnvöld hefðu ekki staðið í stykkinu.

Samkomulagið sem gert var 25. mars og menn ætluðu að stæði varð til þess, eftir því sem formaður Öryrkjabandalagsins hefur margítrekað sagt, að þeir ákváðu að halda sig til hlés í kosningabaráttunni. Þeir fögnuðu því sérstaklega sem stærsta framfaramáli í kjarabaráttu öryrkja á undanförnum árum og að lengra hefðu aðrir ekki komist hjá grannþjóðunum, sem við berum okkur gjarnan saman við, með baráttumál sín á ári fatlaðra. Það er því eins og köld vatnsgusa að ekki skuli vera staðið við það samkomulag sem gert var og það skuli jafnvel vera gert með ákveðinni forherðingu, þ.e. að neita því þegar útreikningar samkomulagsins liggja fyrir að þeir séu réttir. Það gerir þó hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki. Hann hefur ítrekað sagt: Það er verið að efna 2/3 þessa samkomulags, 1/3 er eftir, en því miður hefur hann ekki getað sagt að það verði efnt um þar næstu áramót heldur að hann geri sér vonir um það. Við styðjum þá kerfisbreytingu sem gerð var en við getum ekki stutt þá útfærslu sem er á henni einfaldlega vegna þess að hún er röng, hún er ekki í samræmi við það samkomulag sem gert var.