Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 14:49:08 (3177)

2003-12-11 14:49:08# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Flm. HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Flm. (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef áður sagt liggur tryggingafræðilegt mat ekki fyrir og ekki liggur heldur fyrir hvort einhver hæstv. ráðherra kjósi að segja af sér eins og nú standa sakir þannig að erfitt er að giska á það hvort einhver réttur geti kviknað að þessu leyti, en það hef ég ekki metið.

Ég vil á hinn bóginn segja við hv. þingmann að ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að alþingismenn eigi sjálfir að ákveða laun sín og kjör með lögum, eins og var hér áður fyrr þegar ég settist á Alþingi í fyrsta skipti, en skjóta þeirri ábyrgð ekki til Kjaradóms. Nú hafa verið í gildi lög um laun hæstaréttardómara, forseta, alþingismanna og ráðherra. Þau eru ákveðin af Kjaradómi en hins vegar hafa eftirlaunin verið ákveðin með lögum svo að það er óhjákvæmilegt fyrir Alþingi að taka á því máli. Ég tel rétt að Alþingi setji um þetta lög og það er af þeim sökum sem ég flyt frv.