Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:00:43 (3182)

2003-12-11 15:00:43# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt skal vera rétt. Ef það er staðreynd að ráðherrakjörin séu ákvörðuð af Kjaradómi leiðrétti ég þau ummæli mín. Hins vegar er hitt rétt, og það stenst, að aðrar greiðslur hafa verið ákveðnar í þessum sal. Ég nefndi 40 þús. kr. alræmdu. Ég nefni líka kjörin sem nefndarformönnum og þingflokksformönnum eru búin og ég nefni þær ákvarðanir sem hér er verið að taka um laun formanna stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu. Ef eitt á að gilda um ákvörðun ráðherralauna, hvers vegna er hið sama ekki látið gilda þá um allan hópinn?

Ég legg áherslu á að ég tel óeðlilegt að auka á launamisréttið og kjaramisréttið innan þingsins. Það er mjög persónubundið hvernig menn vinna og þeir sem rækja starf sitt vel eru að öllum stundum hvort sem þeir hafa fengið einhverjar vegtyllur til að sinna á vegum þingsins eður ei án þess að ég ætli að gera lítið úr þeim verkefnum. En ég tel þetta óeðlilegt.

Upp úr stendur, og við skulum ekki gleyma því, að hér erum við með til umfjöllunar þingmál sem á að festa í sessi sérréttindi alþingismanna í lífeyrismálum í stað þess að fara með Alþingi inn í framtíðina á sambærilegum lífeyriskjörum og landsmönnum almennt eru búin.