Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:02:40 (3183)

2003-12-11 15:02:40# 130. lþ. 48.7 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Frú forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal hefur gert góða grein fyrir máli þessu af hálfu flm. og mun ég ekki rekja einstök atriði í málinu.

Við höfum stundum heyrt þegar mál snúa að þinginu, þingmönnum eða ráðherrum eða öðrum slíkum, að menn segja sín á milli: Jú, það er margt gott í þessu máli og margt sanngjarnt en þetta er ekki rétti tíminn til að færa málið fram.

Nú höfum við heyrt í fréttum að jafnvel ýmsir forsvarsmenn á vinnumarkaði hafa sagt sem svo að þetta frv. sé þess eðlis að það geti raskað horfum í kjarasamningum. Ef menn telja að þetta frv. geti haft áhrif á slíka hluti, eins og almenna kjarasamninga, verð ég að segja að þetta mál núna hlýtur að koma fram á algjörlega hárréttum tíma. Það væri a.m.k. miklu óeðlilegra ef mál er þannig vaxið eins og menn eru að lýsa því --- kannski að lítt skoðuðu máli --- að það kæmi eftir lok kjarasamninga, þegar kjarasamningar hefðu verið undirritaðir, frágengnir og um þá greidd atkvæði. Nú liggur þetta mál á borðinu fyrir fram áður en til kjarasamninga kemur. Og ég hygg að þegar menn munu skoða málið betur og hafa haft tíma til að fara í gegnum það komi á daginn að hér er ekki um mál að ræða sem snertir almenna kjarasamninga í landinu. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að gera almennar launabreytingar í þágu þingmanna. Launabreytingar af því tagi gerir Kjaradómur, ekki þingmenn sjálfir. Hér hafa ýmis viðhorf verið uppi í þeim efnum eins og komu til að mynda fram hjá síðasta hv. ræðumanni, Ögmundi Jónassyni, um að réttast væri að þingmenn gerðu þetta sjálfir. Þingmenn gerðu þetta áður. Það endaði í sprengingum og kröfum um að þingmenn væru ekki að skammta sér sjálfir úr hnefa, heldur að til þess kæmu hlutlausir, óháðir aðilar. Sú varð niðurstaðan eftir mikið uppþot í tengslum við kjaramál þingmanna. Sá tími er löngu liðinn og þess vegna horfa menn kannski til baka og segja sem svo: Ja, það er rétt að þingmenn geri þetta sjálfir, og eru þá búnir að loka þessum hring.

Af hverju segi ég að það sé engin ástæða til að líta svo á að þetta mál snerti almennt kjarasamninga í landinu? Ég er ekki að segja verkalýðshreyfingunni fyrir verkum nema síður sé. Hún á auðvitað að horfa á málið og taka sínar ákvarðanir í þeim efnum.

Ég nefndi þetta með hina almennu reglu um Kjaradóm sem ákveður almennar launabreytingar þingmanna. Ef við skoðum hins vegar þetta mál og kostnaðarsetjum það til næsta árs mun almennur kostnaður af því vera, ef frá er talin þessi aukning á 15% og 20% álaginu, sem ég hef ekki nákvæmlega útreiknaða, vera í kringum 6 millj. kr. á ári, útgjaldaaukningin. Hugsanlega er hinn þátturinn sem ég nefndi annað eins þannig að um er að ræða frv. sem hefur í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð á næsta ári upp á 10--12 millj. kr. ef allt er talið. Það er umfang málsins gagnvart ríkissjóði í fyrstunni. Þegar það er skoðað hygg ég að menn fari að velta fyrir sér hvort geti verið að mál af því tagi eigi að velta öllum kjarasamningum í landinu. Er það virkilega svo að það eigi að velta öllum kjarasamningum í landinu?

Stór orð hafa verið látin falla um að sérstaklega sé verið að hygla leiðtogum stjórnarandstöðu og þá eru nöfn þeirra manna sem tengjast þeim stöðum dregin fram í dagsljósið. Það er algjörlega röng framsetning. Slík breyting hefur ekkert með nöfn þessara manna að gera. Forustumenn í stjórnarandstöðu eru yfirleitt kosnir af flokkum sínum til tveggja ára í senn eða svo, ekki lengur, og ekki er algengt að menn sitji mjög lengi í þeim störfum, eins og kunnugt er, því að þau eru erfið og umdeild í öllum flokkum.

En hvað er þá hér um að ræða, hvað eru menn að gera hér? Menn eru að svara sjónarmiðum sem uppi hafa verið um langa hríð, að það væri í raun lýðræðisleg sanngirniskrafa að það væri minni munur á forustumönnum stjórnarliða, 12 ráðherrum, en tveimur eða þremur leiðtogum stjórnarandstöðu, almennt talað. Það gildir um alla þá flokka sem eru staddir í slíkum stöðum, og eins og við þekkjum úr íslenskri sögu skiptast menn á setu í stjórn og stjórnarandstöðu.

Til lengri tíma horft hljóta menn að segja og samþykkja að með þessari breytingu séu menn að fallast á sanngjarna, lýðræðislega kröfu um að minnka aðstöðumun stjórnar og stjórnarandstöðu. Það hefur ekkert að gera með þau nöfn sem skipa þau embætti á hverjum tíma. Auðvitað er freistandi að setja nöfn í ramma, þau auðvitað skýra mynd.

Hér hefur verið talað um forsrh. sérstaklega og það er eðlilegt og sjálfsagt. Sú regla hins vegar sem nú er tekin upp er miðuð við það fyrirkomulag sem gildir um forseta Íslands, að vísu með launagrundvöll sem er um helmingi lægri eða svo gott sem. Ég hygg að sú breyting hafi verið tekin upp þá Kristján Eldjárn lét af forsetaembætti. Það væri algjörlega fráleitt af okkur að segja: Hér er verið að taka upp Kristjáns Eldjárns regluna. Það hafði ekkert með persónu hans að gera þó að tíminn væri sá. Verið er að taka upp almennar reglur sem gilda um forseta landsins til frambúðar og þannig hljóta menn að horfa til þessara þátta.

Hér er ákveðið að iðgjöld þingmanna skuli hækka um 25%, greiðslan, úr 4% í 5%. Þó á sér ekki stað nein almenn launabreyting til hækkunar fyrir þingmenn, engin. Makalífeyrir þingmanna er skertur og að því leyti til færður í átt til sömu aðferðar og gildir í hinu almenna lífeyrissjóðakerfi.

Í dag getur þingmaður sem verður sextugur hætt samkvæmt 95-ára-reglunni og þó að hann sé í öðru starfi, vel launuðu öðru starfi, fær hann fullar þingmannsgreiðslur frá 60 ára aldri. Með frv. er þessu breytt. Greiðslur vegna lífeyris viðkomandi alþingismanns eru reiknaðar niður um tiltekna prósentu á hverju ári fyrir þann árafjölda sem vantar upp á það að þingmaður sé orðinn 65 ára. Þarna er um skerðingu að ræða þó að kannski menn horfi ekki til þess. Þetta er sú regla sem gildir í hinu almenna lífeyriskerfi, það er verið að færa þennan þátt til samræmis við þann þátt.

Þegar menn horfa á umfang þessa máls og skoða það og horfa til þátta af sanngirni, líta til embætta, ekki manna, horfa til frambúðar og horfa til þess að hér er um opna, gagnsæja og lýðræðislega ákvörðun að ræða hygg ég að viðbrögðin verði önnur en kunna að verða í fljótheitum. Ég er ekkert undrandi á viðbrögðum forustumanna verkalýðshreyfingarinnar og ég gagnrýni hana ekki. Fyrst þegar maður ber þetta frv. augum slær það mann með þessum hætti en þegar menn skoða frv. betur, skoða kosti þess, þær breytingar sem um er að ræða, hygg ég að flestum muni þykja að þarna gildi sanngirnisþættir en ekki aðrir þættir.

Auðvitað kunna menn einnig að fara í að reikna með tryggingafræðilegum hætti lífeyrisgreiðslur og -réttindi manna. Það eru sjálfsagt til formúlur um það en þær lúta reyndar sjaldnast að stjórnmálamönnum af einhverjum ástæðum. Ég var nú bara hér við borðið að skrifa hjá mér um menn sem hefði sjálfsagt verið hægt að reikna hátt til eftirlaunagreiðslna. Ólafur Thors forsrh. naut eftirlauna í eitt ár, Bjarni Benediktsson forsrh. naut engra eftirlauna, Ólafur Jóhannesson forsrh. naut engra eftirlauna, Geir Hallgrímsson forsrh. naut engra eftirlauna, Gunnar Thoroddsen forsrh. naut engra eftirlauna. Þetta kemur bara upp í huga minn. Það er vegna þess að þessir menn endast ekkert mjög vel. Þetta er slítandi starf, þannig er það. Ef menn hefðu til að mynda í þessum efnum áhyggjur af þeim sem hér stendur get ég þeim til huggunar sagt að báðir afar hans dóu fyrir sextugt og faðir hans dó 63ja þannig að menn geta bara borið góðar vonir í brjósti um að hann verði ekki mjög þungur baggi á framtíðinni. Ég segi þetta frekar til gamans en annars, þó að það væri ekki neitt gamanmál reyndar hvað þessir nánu forfeður mínir lifðu stutt.

En svona er þetta, reglur af þessu tagi segja ekki alla sögu. Við erum hér með óvenjuslítandi störf. Það sjáum við meira og meira og ég hef reyndar haft vissar áhyggjur af því hvað menn hverfa héðan úr þingsalnum, reyndir stjórnmálamenn. Reyndir, hæfir og sterkir stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að hverfa héðan úr þingsalnum fljótt með alla sína góðu reynslu að baki sem kemur mönnum til góða, hvort sem þeir starfa í stjórn eða stjórnarandstöðu. Með vissum hætti eru menn að skapa hér líkari skilyrði gagnvart slíkum aðilum og gilda í öðrum löndum þannig að þar er einnig um samræmingarþátt að ræða.

Þetta mál er ekki afgreitt í skjóli nætur. Þessu máli er ekki hraðað á einum, tveimur klukkutímum í gegnum þingið. Það er ekki gert og stóð ekki til. Þetta mál, þegar menn hafa kynnt sér það, liggur fyrir eins og opin bók. Það eru engin leynd réttindi í þessu máli, engin. Það hlýtur að hafa heilmikla þýðingu fyrir menn sem horfa á afgreiðslu málsins.