Alþjóðleg viðskiptafélög

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:27:01 (3204)

2003-12-11 17:27:01# 130. lþ. 48.9 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv. 133/2003, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég var fjarstaddur afgreiðslu málsins en hef margoft tekið þátt í umfjöllun um alþjóðleg viðskiptafélög, bæði í þinginu þegar sett voru í lög ákvæði sem heimiluðu þau á sínum tíma, sömuleiðis tók ég virkan þátt í umræðu um málið í hv. efh.- og viðskn.

Á sínum tíma var því haldið fram að með því að búa til sérstaka skattaglufu í formi alþjóðlegra viðskiptafélaga væri hægt að laða hingað til lands fjölmörg erlend fyrirtæki. Talið var að ekki væri óvarlegt að gera ráð fyrir að tilvist laga um slík félög mundi seiða hingað til lands 50--200 fyrirtæki. Menn áætluðu að velta þessara fyrirtækja yrði 25--100 milljarðar á ári. Þeir sem voru helstu talsmenn þeirra laga ætluðu að tekjur ríkisins af þessu yrðu 12--100 millj. kr. á ári, beinar tekjur en óbeinar á bilinu 150--1.500 millj. kr.

Frú forseti. Nú er ég ekki alveg klár á því hversu mikinn hagnað íslenska ríkið hefur haft af þessum félögum í skatttekjur. Hitt veit ég að það hefur haft ærinn kostnað. Hæstv. viðskrh. á þeim tíma, Finnur Ingólfsson, lagði til það sérkennilega fyrirkomulag að ríkið mundi styrkja Verslunarráð Íslands sérstaklega til þess að kynna hin alþjóðlegu viðskiptafélög. Verslunarráði var fengin í hendur töluvert há upphæð á hverju ári til að kynna starfsemi þessara félaga og reyna að fá hingað til lands fyrirtæki sem ættu að notfæra sér umrædda glufu. Það sem þarna var að gerast í reynd, frú forseti, var að Verslunarráði Íslands var falið að auglýsa á alþjóðlega vísu sérstaka skattaglufu sem búin var til hérna.

Ein af ástæðunum og líklegast eina ástæðan, fyrir utan það hversu misheppnað þetta reyndist vera, fyrir því að hæstv. núv. viðskrh. kemur og leggur fram frv. um að afnema þessi viðskiptafélög liggur líka fyrir. Það sem ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson sögðum í umræðum ár eftir ár hefur reynst vera rétt. Komið hefur á daginn að skattanefnd OECD telur að glufur í skattalögum af þessu tagi séu ákaflega óæskilegar og fyrir lá að ef þessi lagabálkur hefði ekki verið felldur niður hefði Ísland að öllum líkindum verið sett á svartan lista yfir hinar svokölluðu skattaparadísir. Víðs vegar um heim hafa ríkisstjórnir verið að setja upp einhvers konar leiðir fyrir fyrirtæki til þess að geta sniðgengið skatta. Þetta eru yfirleitt ríkisstjórnir landa eins og Cayman-eyja, Jómfrúreyja, og einhverra ríkja sem eru á allt öðru þróunarstigi en við að því er viðskiptalífið áhrærir. Það kom auðvitað í ljós að þetta gekk ekki upp. Ísland var við það að komast á svartan lista hjá OECD yfir þessu óskabarni Verslunarráðsins.

[17:30]

Það er óhjákvæmilegt að rifja upp hvað það er sem Verslunarráðið fékk til þess að sinna þessu. Á árunum 1999--2002 reiknast mér til að Verslunarráðið hafi samtals fengið 36,3 millj. kr. til þess að kynna þetta. Og hver er afraksturinn, frú forseti?

Það kemur fram í grg. með frv. að vegna rekstrarársins 2002 voru fimm félög í starfsemi. Með öðrum orðum: Verslunarráðið fékk í ríkisstyrk fyrir hvert félag sem nú er í starfsemi ríflega 7 millj. kr. Eða er það ekki svo, frú forseti, að það megi líta svo á að með þessum sérkennilegu lögum og þeim ákvæðum sem samþykkt voru í fjárlögum ár hvert frá árinu 1999 hafi hið opinbera í reynd verið að samþykkja niðurgreiðslu á rekstri Verslunarráðsins? Má ekki líta svo á að með því að afnema þessi lög og með því að hætta þar með fjárstyrk til Verslunarráðsins sé loksins verið að gera það sem við töldum vera kominn tíma á fyrir lifandis löngu, að afnema ríkisstyrk til Verslunarráðsins?

Ég lít á mig sem nokkuð góðan vin Verslunarráðsins. Ég tel að sá frjálslyndisandi sem þar svífur yfir vötnum hafi að ýmsu leyti haft jákvæð áhrif. Ég taldi hins vegar alltaf að þarna væru menn á röngum brautum og mér blæðir í augum þegar ég horfi til baka, frú forseti, og sé það að Verslunarráðið hefur fengið 36 millj. kr. til þess að annast kynningu á þessum félögum, sem reyndist einskis nýt. Og það sem verst var er að það hefur legið fyrir um allnokkurra ára skeið að þetta bar ekki nokkurn árangur. Það voru engin fyrirtæki að koma til Íslands til þess að notfæra sé þessa glufu í íslenskum skattalögum. Samt gerðist það ár eftir ár að verið var að afhenda Verslunarráðinu töluvert magn af peningum til þess að annast kynningu á þessu.

Nú ætla ég ekki að elta ólar við framkvæmdarvaldið í þessu máli og spyrjast fyrir um með hvaða hætti Verslunarráðið eyddi þessu fé, en ég vil þó fyrir þingtíðindin a.m.k. lesa hér upp þær upplýsingar sem okkur í efh.- og viðskn. bárust. Þær bera það með sér að árið 1999 voru veittar samtals 15 milljónir til að kosta kynningu alþjóðlegra viðskiptafélaga. Þar af fékk Verslunarráð Íslands 12 milljónir. Árið 2000 fékk Verslunarráðið líka 12 milljónir. Árið 2001 var aðeins byrjað að draga úr þessu, þá fékk Verslunarráðið 7,3 millj. kr.

Maður skyldi ætla, frú forseti, að þegar hér var komið sögu hefðu menn séð það að þessi starfsemi bar ekki nokkurn árangur og það var hrein peningaeyðsla að kasta fjármagni til kynningar á einhverju sem engan árangur bar. Þó gerðist það að í fyrra, árið 2002, fékk Verslunarráðið 5 millj. kr. Mér er ekki kunnugt um að á þessu ári hafi nokkuð runnið til Verslunarráðsins, en ég læt þess getið að það var sérstök starfsleyfisnefnd sem vann í tengslum við þessi alþjóðlegu viðskiptafélög. Og afraksturinn, fimm félög, ja, það voru einhver fleiri sem hún fjallaði um, en það eru fimm félög starfandi og þessi nefnd fékk 5,7 millj. kr. til rekstrar síns, þannig að það má segja að það hafi kostað milljónkall á hvert félag sem nú er í rekstri. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, frú forseti, en mér finnst þetta vera gott dæmi um það hvernig ekki á að fara með peninga skattborgaranna.

Hv. formaður efh.- og viðskn., Pétur H. Blöndal, eins og reyndar svo margir í þeirri ágætu nefnd, hefur farið fjálgum orðum um nauðsyn þess að sýna aga í ríkisrekstri. Hv. þm. Pétur Blöndal hélt nokkrar ræður í dag þar sem hann lýsti því yfir að tiltekin umdeilanleg aðgerð ríkisstjórnarinnar, sem tengist vaxtabótum, væri vegna þess að menn vildu halda uppi aga. Er það til marks um aga þegar menn fleygja næstum því 50 millj. kr. í svona fullkomlega vonlaust fyrirbæri? (Gripið fram í.)

Það má auðvitað segja, frú forseti, að þetta hefði verið tilraunarinnar virði í upphafi. Auðvitað er eðlilegt að gera því skóna að menn hafi talið að þetta væri unnt, þarna væri unnt að ná einhverjum viðskiptum til landsins. En það kom í ljós strax á fyrstu missirum eftir gildistöku þessara laga að þarna var ekki eftir neinu að slægjast. Þarna var um að ræða starfsemi sem ríkisstjórnir litu heldur svona hornauga, og auðvitað sást það fyrir lifandis löngu að þetta væri hít. Samt sem áður héldu menn áfram að kosta starfsmann hjá Verslunarráði Íslands til þess að kynna það sem ekkert var og engu skilaði. Þetta er ekki til marks um að vel sé farið með peninga hins opinbera.

Þetta ætti hv. þm. Pétur H. Blöndal einmitt að skoða og hafa í huga þegar hann er að tala um aga í ríkisrekstri (Gripið fram í.) og með látæði sínu og bendingum gefur hv. þm. til kynna að hann hafi gert það, en herra minn trúr, það tók hann fjögur ár að sjá ljósið. Það tók Sál miklu skemmri tíma að sjá ljósið. Kannski var það bara elding sem hann varð fyrir á veginum til Damaskus, en það var sannarlega ekki elding sem kom niður í höfuð þeirra í meiri hlutanum í efh.- og viðskn., ja, hún hefur þá verið æðilengi á leiðinni eða fjögur ár, því að það hefur komið í ljós á líftíma þessara laga að þau hafa engu skilað. Þetta hefur verið hrein peningaeyðsla.

En ég vil óska hv. þingmönnum stjórnarliðsins til hamingju með það að hafa loksins farið að ráðum mínum og hv. þm. Ögmundar Jónassonar og annarra í stjórnarandstöðunni sem bentu á þetta árum saman. Þarna, frú forseti, hefði Pétur H. Blöndal --- ef hann hefði hlustað -- getað sparað u.þ.b. 50 millj. kr. En við skulum samt sem áður vona að þeim hafi ekki verið eytt algerlega til einskis og það má alla vega hugga sig við það að þær hafa styrkt Verslunarráð Íslands í göfugum leiðangri sínum til þess að koma á auknu frjálslyndi í viðskiptum Íslands. En ég er hræddur um að þetta sé ekki nægilega gott fordæmi, frú forseti.