Alþjóðleg viðskiptafélög

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:37:42 (3205)

2003-12-11 17:37:42# 130. lþ. 48.9 fundur 312. mál: #A alþjóðleg viðskiptafélög# (brottfall laga o.fl.) frv. 133/2003, BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi í tilefni af nokkrum ummælum hv. 1. þm. Reykv. n. gera nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi held ég að rétt sé að hafa í huga að kynningarstarf fyrir Íslands hönd á einstökum möguleikum hér, hvort sem er í ferðaþjónustu, á fjárfestingu hér eða útflutningsstarfsemi héðan, er langtímaverkefni og kostar mikið. Það lá fyrir þegar lögin um alþjóðlegu viðskiptafélögin höfðu verið samþykkt að það þyrfti með einhverjum hætti að vekja athygli erlendis á þessu félagaformi hér og það var mat þeirra aðila sem að þessu komu, málið var fyrst og fremst á forræði viðskrh., að það væri heppilegt að semja við Verslunarráð Íslands um að taka að sér verulegan þátt kynningarstarfsins þó að aðrir þættir, eins og t.d. stjórnsýsluþátturinn, væri að sjálfsögðu hjá ráðuneytinu.

Þetta byggði auðvitað á því að Verslunarráð, vegna eðlis síns og starfsemi, hafði ýmis þau tengsl og aðgang að sambærilegum samtökum erlendis, sem m.a. fást við verkefni af þessu tagi. Það þótti einfaldlega hagkvæmara og skynsamlegra að Verslunarráð sæi um þetta heldur en að kynningarstarfsemin væri rekin úr ráðuneytinu. Það hefði auðvitað verið hægt að ráða starfsmenn í ráðuneytið til þess að sinna þessu en það var hins vegar ákveðið að útvista verkefnið, ef svo má segja.

Síðan varðandi þær upphæðir sem þarna er um að ræða þá var Verslunarráðinu auðvitað skylt að gera ráðuneytinu á hverjum tíma nákvæma grein fyrir því hvernig þeim fjármunum var ráðstafað. Og ég get fullyrt (Forseti hringir.) að þeir fjármunir sem runnu til Verslunarráðsins til þessa verkefnis voru allir nýttir og meira til í þessa kynningarstarfsemi, þannig að ekki var um styrk að ræða.