Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:55:15 (3213)

2003-12-11 17:55:15# 130. lþ. 48.12 fundur 11. mál: #A virðisaukaskattur# (hljóðbækur) frv. 145/2003, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:55]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Líkt og sá þingmaður sem talaði hér á undan, hv. þm. Steinunn K. Pétursdóttir, vil ég lýsa ánægju minni með afgreiðslu efh.- og viðskn. á frv. hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, Helga Hjörvars og Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Ég held að þetta sé ákaflega mikið réttlætismál. Hér er verið að flytja hljóðbækur úr efra þrepi virðisaukaskatts niður í lægra þrepið. Að þessu frv. samþykktu verður einungis greiddur 14% virðisaukaskattur af hljóðbókum og það er framfaraspor.

Útgáfa hljóðbóka er að aukast í löndunum í kringum okkur, í Bretlandi og á Norðurlöndunum. Þær eru ekki einungis notaðar af blindum, sjóndöprum og öldruðu fólki heldur eru hljóðbækur í vaxandi mæli aðferð til að hlýða á og njóta góðra ritverka. Hljóðbækurnar hafa það umfram hið ritaða orð að listamaður sem les bókina upp getur stundum bætt nýrri vídd við verk sem þó er ákaflega gott fyrir. Það má ætla, ef miðað er við notkun hljóðbóka í löndum eins og Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi, ef notkun hér á landi er álíka og þar, að fast að 1.500 manns mundu notfæra sér þennan möguleika.

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim ágætu hv. þingmönnum sem afgreiddu þetta mál í efh.- og viðskn. Sjálfur á ég þar sæti en var annars staðar á vegum þingsins þegar það var afgreitt. Hér er um að ræða framfaramál og ég vildi óska að það yrði til þess að þeir hv. þingmenn sem samþykktu málið í nefndinni mundu innan tíðar stíga enn lengra skref. Nú er það svo að það er á stefnuskrá tveggja stjórnmálaflokka, Samf. og Sjálfstfl., að lækka virðisaukaskatt af bókum enn frekar. Ég tel því að það væri heillaspor að í framhaldi af þessu mundu menn, þegar vindur fram kjörtímabilinu, ráðast í að fella niður virðisaukaskatt af bókum, jafnt þeim sem hafa að geyma ritað orð sem talað.