Breyting á ýmsum lögum á orkusviði

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:08:41 (3224)

2003-12-11 23:08:41# 130. lþ. 48.15 fundur 306. mál: #A breyting á ýmsum lögum á orkusviði# frv. 135/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni þá stöndum við þingmenn Samf. sem sátum fundi iðnn. þar sem þetta mál var til umræðu að þessu nál., enda fullkomlega eðlilegt að hafa samræmi í þessum lögum, að notað verði orðið ,,fasteign`` í staðinn fyrir ,,húseign`` þegar um skattgreiðslur orkufyrirtækja er að ræða.

Ég taldi að það hefði einnig átt að breyta lögum um Landsvirkjun og hafa sambærilegt orðalag og hér á að vera. Lögin um Landsvirkjun ættu að vera skýr og í takt við þá framkvæmd sem er varðandi greiðslur Landsvirkjunar af fasteignum sínum. Það varð reyndar niðurstaðan í nefndinni að svo yrði ekki en ég hefði talið það eðlilegt. Það er mjög mikilvægt að lög séu skýr og segi nákvæmlega fyrir um hvernig þessum málum skuli háttað. Ég hefði talið eðlilegt að einnig þeim yrði breytt. Ég tel að menn verði að huga að því, ef lög um Landsvirkjun verða skoðuð á næstunni eða á næstu árum, að færa þau til sama vegar, þ.e. að orðalagið verði einnig samræmt í þeim lögum.