Tímabundin ráðning starfsmanna

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 23:43:00 (3235)

2003-12-11 23:43:00# 130. lþ. 48.18 fundur 410. mál: #A tímabundin ráðning starfsmanna# (EES-reglur) frv. 139/2003, Frsm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[23:43]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. félmn. um frv. til laga um tímabundna ráðningu starfsmanna á þskj. 639.

Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Gylfi Kristinsson, Hermann Sæmundsson og Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir frá félagsmálaráðuneyti, Þórhallur Vilhjálmsson frá fjármálaráðuneyti, Birgir Björn Sigurjónsson og Friðrik Friðriksson frá Reykjavíkurborg, Hrafnhildur Stefánsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús M. Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Gísli Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna, Erna Guðmundsdóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ingólfur Sverrisson frá Samtökum iðnaðarins, Sigurður Óli Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eiríkur Jónsson frá Kennarasambandi Íslands. Einnig bárust nefndinni umsagnir um málið frá Birgi Birni Sigurjónssyni, Reykjavíkurborg og Samtökum atvinnulífsins.

Frumvarpið er lagt fram til innleiðingar á tilskipun 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem Evrópusamband verkalýðsfélaga, Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild hafa gert og sameiginlega EES-nefndin samþykkti að fella undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Markmið frumvarpsins koma fram í 2. gr. og byggjast á ákvæðum rammasamningsins.

Samningar hafa ekki tekist á vinnumarkaðnum um innleiðingu á þessu efni rammasamningsins, þótt samningaumleitanir hafi staðið í nokkurn tíma, og verður vart hjá því komist lengur að innleiða það með lögum.

Nefndarmönnum virðist komið til móts við helstu sjónarmið aðila vinnumarkaðarins í frumvarpinu og þess gætt svo sem kostur er að raska ekki jafnvægi á vinnumarkaðnum.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að félagsmálaráðherra muni beita sér fyrir skipun samstarfshóps sem athugi hvernig tímabundnum ráðningarsamningum er háttað á íslenskum vinnumarkaði áður en frekari reglur verði settar um þá í lögum. Nefndin telur þetta mjög jákvætt og mun leggja áherslu á að þessu verði fylgt vel eftir.

Nefndin telur að frumvarpið geti tryggt betur en nú er gert hag þeirra sem ráðnir eru tímabundið. Í d-lið 2. mgr. 1. gr. kemur fram að frumvarpið gildi ekki um embættismenn. Nefndin mælir því með að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem koma fram í nál. á þskj. 639.

Undir álitið rita hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðjón Hjörleifsson, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Helgi Hjörvar, Jóhanna Sigurðardóttir, Margrét Frímannsdóttir og Gunnar Örlygsson.

Við afgreiðslu málsins sat hv. þm. Ögmundur Jónasson á fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.