Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 10:33:24 (3252)

2003-12-12 10:33:24# 130. lþ. 49.11 fundur 454. mál: #A rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma# skýrsl, SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta.

,,Að lokið verði við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma þannig að heildstætt yfirlit fáist yfir nýtingarmöguleika landsmanna á þeim miklu verðmætum sem felast í beislun orku. Orkulindir hvers landsvæðis verði nýttar af skynsemi til að byggja upp atvinnu og efla mannlíf. Áhersla verði lögð á að saman fari nýting orkulindanna og náttúruvernd. Stefnt skal að frekari áföngum í vetnisvæðingu þjóðarinnar og að í framtíðinni byggist orkunotkun landsmanna á endurnýtanlegum orkugjöfum og verði þannig sjálfbær.``

Í dag ræðum við niðurstöður 1. áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, en sú vinna hófst í apríl 1999. Markmiðið með þessari áætlun er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti til raforkuframleiðslu, bæði á sviði vatnsafls og háhita með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru og menningarminjar, svo og hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.

Á undanförnum árum hafa orku- og virkjanamál verði í brennidepli í íslenskri þjóðmálaumræðu og nú standa yfir við Kárahnjúka mestu framkvæmdir í sögu þjóðarinnar. Nýting orkulinda landsins veitir heimilunum yl og rafmagn og er grunnurinn að verulegum vaxandi útflutningsiðnaði. Íslensk náttúra verður líka sífellt mikilvægari í efnahagslegum skilningi þar sem hún er helsta aðdráttarafl erlendra ferðamanna sem sækja landið heim. Blómlegt efnahagslíf á grunni þessara auðlinda ásamt skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins hefur gert okkur kleift að byggja upp hér á landi öflugt nútímavelferðarþjóðfélag sem stenst fyllilega samanburð við það besta sem þekkist í veröldinni í dag.

Okkur Íslendingum þykir vænt um landið okkar. Við erum meðvituð um hve viðkvæmt það er fyrir hvers kyns áhrifum sem fylgja þeim umsvifum sem landsmenn standa fyrir á hverjum tíma. Íslenska þjóðin hefur í gegnum aldirnar verið mjög háð náttúru landsins, veðurfari, hitastigi, hafstraumum, fallvötnum og vindum. Segja má að það sé fyrst á síðustu öld sem við höfum eignast tækni og verkþekkingu til að beisla þá orku sem býr í náttúru landsins og þá um leið gert það að verkum að okkur finnst við ekki eins háð henni eins og áður var. Þegar grannt er skoðað ber þó allt að sama brunni, áfram verðum við háð duttlungum náttúruaflanna. Jarðskjálftar, eldgos, snjóflóð og ástand fiskstofnana minnir á þetta. Okkur er trúað til þess að nýta landið, gögn þess og gæði, og skila því til komandi kynslóða í ekki verra ástandi og helst betra en þegar okkar kynslóð tók við.

Sjálfbær þróun er og verður eitt aðalmarkmið í umhverfismálum hér á Íslandi og um víða veröld. Við þurfum að hafa í huga að umhverfismál í veröldinni allri hafa áhrif á okkur hér á Íslandi. Nægir í því sambandi að nefna loftslagsbreytingar sem mikið hafa verið til umræðu að undanförnu. En sýnt er að áhrifa þeirra mun fyrst gæta á norðlægum slóðum. Við eigum því mikið undir því hér á landi að aðrar þjóðir sinni umhverfismálum af kostgæfni. Við erum hluti af hinu alþjóðlega umhverfi hvað þetta snertir og þurfum þess vegna að vanda okkur líka.

Nýting auðlinda og umhverfismál hafa orðið eitt helsta viðfangsefni ríkja heimsins á undanförnum áratugum. Maðurinn hefur nú víðtæk áhrif á helstu undirstöður lífríkisins og efna- og orkuhringrás jarðarinnar. Röskun veðurfars og vistkerfa kann að hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar og skapa erfiðan vanda fyrir komandi kynslóðir. Við Íslendingar erum lítill hluti af stórri heild og það skiptir okkur óendanlega miklu máli hvernig aðrar þjóðir standa að verki í þessum efnum. Það sem gerist annars staðar á jörðinni hefur svo sannarlega áhrif á náttúru og veðurfar hér hjá okkur.

Náttúruverndaráætlun 2004--2008 hefur verið lengi í undirbúningi. Hún verður væntanlega lögð fram á Alþingi áður en þingstörfum lýkur núna fyrir jólin. Það er mikilvægt að skoða saman hvernig staðið skuli að náttúruvernd og nýtingu auðlinda landsins. Þess er að vænta að mat og samanburður rammaáætlunar á náttúrufarsverðmætum tiltekinna svæða geti gagnast við gerð næstu náttúruverndaráætlunar. Samspil umhverfislegra, félagslegra og hagrænna þátta gera það að verkum að mikilvægt er að staðarvals- og umhverfisrannsóknir og skipulagsmál á líklegum iðjusvæðum verði unnin í samræmi við áform um orkunýtingu.

Í skýrslunni um rammaáætlun kemur skýrt fram að upplýsingar um virkjunarsvæði og tilhögun virkjunar sem byggt var á við mat í 1. áfanga, voru mjög mismunandi og þekking á virkjunarkostum sem teknir voru til skoðunar eru í ýmsum tilvikum ekki fullnægjandi. Þetta verður að hafa í huga og jafnframt að efla rannsóknir til þess að á hverjum tíma sé byggt á bestu fáanlegum upplýsingum þegar teknar eru ákvarðanir um næstu skref í virkjanamálum.

Það er mikið fagnaðarefni að vinnu við 1. áfanga rammaáætlunar er lokið og niðurstöður þeirra liggja fyrir í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Þessi vinna mun nýtast á margvíslegan hátt sem grunnur fyrir mat á umhverfisáhrifum í frumáætlun virkjana, bæði hvað snertir helstu umhverfisáhrif þeirra og hagkvæmni. Stjórnvöld geta nýtt niðurstöðurnar sem grundvöll í áframhaldandi stefnumótunarvinnu og forgangsröðun verkefna.

Ég nefndi fyrr í ræðu minni að þessi vinna nýtist einnig við mat á náttúrufarsverðmætum tiltekinna svæða við gerð næstu náttúruverndaráætlunar. Niðurstöðurnar nýtast líka stjórnvöldum við mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana og margs konar skipulagsvinnu ríkis og sveitarfélaga. Áætlunin gefur vísbendingar um hagkvæma virkjunarkosti og náttúruverðmæti sem gagnast munu sveitarfélögunum við ákvarðanir um nýtingu lands. Aðferðir Náttúrufræðistofnunar sem hún hefur þróað í þessu vinnuferli nýtast við rannsóknir á umhverfi og náttúru landsins til framtíðar. Orkufyrirtækin og Orkustofnun munu nýta sér upplýsingarnar með margvíslegum hætti.

Að lokum, herra forseti, legg ég áherslu á að rannsóknir verði auknar með það í huga að aukin þekking skili sér í þá veru að staðið verði að orkunýtingu á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Rammaáætlun er tímamóta- og undirstöðugagn í þeirri vinnu sem fram undan er.