Tollalög

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:23:01 (3259)

2003-12-12 11:23:01# 130. lþ. 49.22 fundur 460. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 134/2003, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Til glöggvunar á þessu máli, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, varðandi atriðið um innflutning og útflutning og að reglugerð væri í þá veru að ekki væri að rugla hér saman reytum annars vegar innanlandsmarkaður og það sem er flutt út aftur, segir í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Það er mælt fyrir um að landbúnaðarráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um skilyrði [er] lúta m.a. að aðgreiningu innflutts hráefnis fyrir innanlandsmarkað og hráefnis til útflutnings. [...] Þessi skilyrði miða að því að unnt verði að staðreyna það magn landbúnaðarhráefna sem flutt er inn tímabundið til aðvinnslu og það magn sem flutt er úr landi aftur. Það er einungis útflutt magn sem nýtur undanþágu að teknu tilliti til eðlilegs úrgangs sem fellur til við framleiðsluna.``

Það liggur því alveg ljóst fyrir að ef þetta er ekki flutt út aftur er lagður tollur á heildarþunga vörunnar án þess að hún hafi verið úrbeinuð eða unnin, sem er líklega rúmlega 50% sem fellur til. Hv. þm. Jón Bjarnason er því hér með þankagang um að þetta haldi ekki nógu vel, en það er hins vegar alveg skýrt tekið fram í greinargerðinni að tollar eru það miklir á þessa vöru og leggjast á þunga hennar svo að það svarar ekki kostnaði að vinna þetta innan lands með þeim hætti sem hér er skýrt kveðið á um.