Tollalög

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:26:54 (3261)

2003-12-12 11:26:54# 130. lþ. 49.22 fundur 460. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 134/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Ég kem hér eingöngu til þess að lýsa yfir stuðningi og ánægju minni með það að hv. landbn. og flm. landbn., hv. þm. Drífa Hjartardóttir, skuli flytja þetta frv. til laga sem er, eins og hér hefur komið fram, til þess að tryggja eða skjóta frekari stoðum undir reglugerðarákvæði gagnvart því að flytja inn landbúnaðarvörur til úrvinnslu, að öllum þeim skilyrðum sem sett eru fyrir innflutningi, til þess að vinna úr því og flytja aftur úr landi og skapa þar með vinnu og skjóta frekari stoðum undir þau fyrirtæki sem hafa með þetta að gera.

Það hefur komið fram, virðulegur forseti, að það sé verið að tala um hreindýrakjötið sem við töluðum um fyrir ári síðan sem verið er að flytja inn frá Grænlandi til þess að vinna það á Húsavík og flytja út aftur. Ég styð því þetta frv., með þeim fyrirvörum sem venja er að hafa fyrir máli sem flutt eru í fyrsta skipti. Ég á ekki sæti í landbn. en er áhugamaður um þetta og studdi frv. fyrir ári síðan og er áfram áhugamaður um að þetta sé hægt, að við skjótum frekari stoðum undir það og gefum fyrirtækjum á þessu sviði, eins og á Húsavík, kost á því að flytja inn vöru, í þessu tilviki hreindýrakjöt frá Grænlandi eins og ég sagði áðan, og vinna úr því til útflutnings. Þess vegna styð ég þetta frv. með þeim fyrirvörum sem ég áskil mér en þakka landbn. fyrir að hafa tekið málið upp og flutt það hingað inn.