Tollalög

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:28:35 (3262)

2003-12-12 11:28:35# 130. lþ. 49.22 fundur 460. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 134/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er verið að leggja fram frv. um breytingu á tollalögum sem snýr að því að gera fyrirtækjum í matvælavinnslu möguleika á því að fullvinna matvæli úr hráefni sem kemur erlendis frá og senda það svo unnið úr landi aftur. Það er gengið út frá því að þetta sé gert til þess að auðvelda fyrirtækjum eins og fyrirtækinu á Húsavík sem er byrjað að fullvinna hreindýrakjöt sem veidd eru í Grænlandi, flutt til Húsavíkur, unnið þar og flutt úr landi. Þetta tel ég af hinu góða.

Til þess að auðvelda þessa vinnu og koma upp þessari atvinnustarfsemi er það kjöt sem flutt er inn og út aftur ekki tollað. Það er vinnslan sem við erum að horfa til og sem virðisauka hér á landi.

Hér er líka gert ráð fyrir því að öll vara skuli vera flutt úr landi innan sex mánaða, en verði hún ekki flutt úr landi eigi að tolla hana og auk þess að leggja á hana ákveðið gjald. Það kemur ekki skýrt fram í þessum lögum, það heyrir undir önnur lög hversu mikið magn af ákveðnum vörutegundum, landbúnaðarvörum, megi flytja inn undir ákveðnum tollnúmerum. Þetta á við um m.a. villidýrakjöt og hreindýrakjöt í ákveðnu magni. Það kemur ekki fram í þessu frv., en þar sem það er talað opið um þetta hér vil ég benda á það að á Austurlandi hefur verið að byggjast upp töluverð atvinna og það mikilvæg atvinna á svæðinu sem snýr að hreindýraveiðum, það þarf leiðsögumenn, það þarf bílsjóra og það þarf töluverða þjónustu í kringum þessar veiðar. Veiðarnar sem eru stundaðar hérna, villtar veiðar, er ekki hægt að líkja saman við slátrun á þeim dýrum í Grænlandi sem hér er verið að flytja inn, þar sem eru ræktuð dýr og raunar farið með þau eins og sauðfé. Því hlýtur íslenska hreindýrakjötið alltaf að vera dýrt kjöt.

Ég vil koma því inn í þessa umræðu að það sé skoðað mjög vandlega og alltaf haft í huga að við séum ekki að hleypa inn í landið hreindýrakjöti í harðri samkeppni við þann markað sem við búum við í dag og muna eftir því að við viljum stunda vandaðar veiðar, við viljum hafa leiðsögumenn, við viljum að það sé farið eftir þeim lögum og reglum sem hafa verið settar um veiðarnar. Það er hætta á því, tel ég, að ef það verður samkeppni á markaðnum við ódýrara innflutt kjöt, fari menn að fara fram hjá núgildandi reglum og reyna að gera veiðarnar ódýrari. Það kemur þá niður á þeirri fagmennsku sem nú er viðhöfð við veiðarnar.