Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:35:43 (3264)

2003-12-12 11:35:43# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Hv. sjútvn. hefur haft til umfjöllunar frv. til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem er að finna á þskj. 598. Í frv. eru aðallega þrjú efnisatriði. Í fyrsta lagi er lagt til að taka upp svonefnda línuívilnun með þeim hætti sem þar er kveðið á um. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi byggðakvóta. Í þriðja lagi eru breytingar á ákvæðum gildandi laga um tegundatilfærslu.

Nefndin hefur farið ofan í öll þessi atriði og skilað af sér áliti og verður gerð grein fyrir því af hálfu meiri hluta og væntanlega einnig af hálfu minni hluta nefndarinnar.

Ég vil taka fram áður en lengra er haldið að umrædd línuívilnun er breyting sem gerir þeim kleift sem róa með línu beitta úr landi að veiða þá viðbót til veiða umfram þær heimildir sem þeir hafa um 16%. Áætla má áhrifin af þessari breytingu þannig að í þorski séu þau um 3.375 tonn á ári sem veiðin muni aukast, í steinbít um 1.000 tonn og í ýsu um 1.500 tonn. Þetta eru því tæplega 6.000 tonn af fiski eða liðlega 5.000 þorskígildi. Þetta er rétt liðlega 1% af þeim aflaheimildum sem úthlutað er til veiða á tegundum á Íslandsmiðum, en það munu vera liðlega 400.000 þorskígildi sem eru til ráðstöfunar að jafnaði á ári hverju. Breytingin er því ákaflega lítil mæld sem hlutfall af heildinni þannig að ljóst er að hún raskar í engu því fyrirkomulagi sem er með aflamarkskerfinu.

Í öðru lagi er rétt að taka fram að árlegar breytingar á því magni sem veiða má úr hverri tegund sem er kvótabundin eru margfalt meiri en umrædd línuívilnun, þannig að þeir sem velta því fyrir sér hvaða áhrif það kunni að hafa að taka upp línuívilnun á þá sem hafa starfað í kerfinu sjá með þessu að þau eru ákaflega lítil. Áhrifin sem skapa óvissu um rekstrarforsendur fyrirtækja í aflamarkskerfinu eru fyrst og fremst hinar árlegu breytingar á því magni sem veiða má úr hverri tegund. Þannig má segja t.d. að þegar ákveðið var að draga saman veiðar á þorski um 30.000 tonn þá hafi það verið sex sinnum meiri breyting á afkomu og stöðu þeirra fyrirtækja sem studdust mjög við veiðar á þorski heldur en sú breyting sem hér er lögð til.

Það sama má segja þegar ákveðið var að auka við veiðar á þorski á þessu fiskveiðiári um 30.000 tonn þá fólst í því mikill ávinningur fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga. Ávinningurinn nemur því miklu hærri fjárhæðum en því sem kann að hafa áhrif með línuívilnun, eða a.m.k. sex sinnum meira.

Síðan má nefna breytingar á öðrum botnfisktegundum eins og ýsu. Búið er að auka veiðiheimildir á ýsu mjög mikið og efnahagslegur ávinningur af þeirri breytingu er margfaldur á við þann ávinning sem á sér stað með línuívilnun gagnvart þeim sem hennar njóta.

Ég vil því leggja áherslu á að breytingin sem slík er smávægileg í heildarkerfinu og ávinningurinn er mjög hóflegur í samanburði við það sem gerist þegar menn breyta árlega því magni sem veiða má samkvæmt bestu upplýsingum hverju sinni.

Þetta vildi ég taka fram, herra forseti, þannig að menn gætu sett þessar breytingar í rétt samhengi. Mönnum hættir stundum til í umræðu um sjávarútvegsmál að gera meira úr hlutum en efni standa til og ég neita því ekki að mér hafa fundist ýmsar yfirlýsingar sem gengið hafa á opinberum vettvangi um þetta mál af hálfu þeirra sem eru andsnúnir breytingunni bera það með sér að þeir eru að gera þýðingu hennar miklu meiri en nokkur efni standa til.

Á hinn bóginn er engin ástæða til að draga fjöður yfir það eða gera lítið úr því að öll breytingin hefur töluverð áhrif til góðs fyrir þá sem njóta hennar og til þess er tillagan auðvitað lögð fram. Menn vilja styrkja þetta form, menn vilja beina útgerð í ríkari mæli en verið hefur með þessum tiltekna hætti af því að fyrir því eru rök eins og ég gat um í ræðu minni við 1. umr. málsins og óþarfi að endurtaka þau nú.

Meiri hluti sjútvn. gerir ekki breytingar á efnisatriðum frv. sem lúta að línuívilnun og leggur til að þau verði lögfest í þeim búningi eins og sést í frv.

Þá vil ég víkja að byggðakvótunum. Í frv. er gerð breyting á fyrirkomulagi þeirra frá því sem er í gildandi lögum. Það eru þrjú lagaákvæði sem hafa að geyma ákvæði um byggðakvóta. Í fyrsta lagi 1.500 tonna ákvæði í bráðabirgðaákvæði í lögunum sem færir Byggðastofnun heimild til að úthluta 1.500 tonnum árlega í sjö ár og af þeim eru fjögur ár liðin og fimmta yfirstandandi. Í öðru lagi eru ákvæði í 9. gr. laganna um 2.300 tonna heimildir til krókaaflamarksbáta í ýsu, ufsa og steinbít. Í þriðja lagi er einnig að finna í 9. gr. laganna 1.500 tonna ákvæði til sjútvrh. Ef við leggjum þetta saman eru þetta samtals 5.300 tonn í þremur mismunandi fiskveiðitegundum, nokkru minna í þorskígildum mælt.

Lagt er til í frv. að allar þessar heimildir fari inn í 9. gr. laganna og reiknist af þeim en ákvæði 9. gr. hafa að geyma í fyrsta lagi fyrirmæli um að sjútvrh. sé heimilt til að mæta aflabresti í einstökum tegundum að ráðstafa af þeim 12.000 tonnum sem þar er greint frá til að jafna þær sveiflur. Í frv. er síðan lagt til að til viðbótar hafi ráðherra heimild til að verja eftirstöðvum til minni byggðarlaga og til byggðarlaga sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu.

Meiri hluti sjútvn. gerir tillögu um að breyta þessu ákvæði frv. þannig að þegar 9. gr. er skoðuð í samhengi eru okkar tillögur þannig að í 9. gr. verði kveðið á um það að hæstv. sjútvrh. verji þessum 12.000 þorskígildum sem þar eru til tveggja atriða. Í fyrsta lagi til að mæta áföllum sem fyrirsjáanleg eru vegna verulegra breytinga á aflamarki einstakra tegunda og í öðru lagi til stuðnings byggðarlögum í samráði við Byggðastofnun, annars vegar til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á bolfiski og hins vegar til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.

Efnisatriði 9. gr. verða tvíþætt og jafnrétthá þannig að ljóst er að þýðing byggðaúthlutunar hefur verið styrkt í 9. gr. með brtt. meiri hluta sjútvn.

[11:45]

Ef við skoðum málið í samhengi að teknu tilliti til þessara tillagna, má segja að þær aflaheimildir sem menn hafa til umráða til þess að mæta áföllum í byggðarlögum, munu ekki verða minni en eru í gildandi lögum heldur meiri. Miðað við að undanfarin ár hefur liðlega 5.000 þorskígildum verið varið árlega til þess að mæta aflabresti, þá verða tæplega 7.000 tonn eftir í 9. gr. til þess að ráðstafa til byggðarlaga sem eru um 1.500 tonnum meiri heimildir í þorskígildum talið en í þeim heimildum sem verið er að leggja til að verði lagðar niður.

Mögulegt er að því gefnu að engu þurfi að verja til aflabrests, ef við horfum til framtíðar er ekki hægt að útiloka að það ástand geti komið upp þó að við vitum það ekki, en gerist það einhvern tímann að ekki þurfi að verja neinu til þess að mæta aflabresti í einstökum tegundum, þá eru til ráðstöfunar til byggðarlaga 12.000 tonnin öll, sem eru þá aukning frá gildandi ákvæðum 9. gr. um 10.500 tonn, en er í gildandi lögum takmörkuð við 1.500 tonn af þessum heimildum 9. gr. Þannig gæti mesta mögulega ráðstöfun til byggðarlaga verið um liðlega 5.000 þorskígildum meiri en við höfum í dag í gildandi ákvæðum laga.

Það er því alveg augljóst mál að eftir þessar breytingar sem meiri hluti sjútvn. gerir á frv. þá er verið að auka það magn sem er til ráðstöfunar til að verja til byggðarlaga, a.m.k. 1.500 tonnum og allt upp í 5.000 tonn við þau skilyrði sem ég gat um að gætu komið upp þó að það sé auðvitað ekki fast í hendi.

En niðurstaðan er sú að breytingin hvað varðar byggðakvótana er jákvæð, það er ekki verið að draga saman seglin í þeim efnum, heldur þvert á móti skapa svigrúm til þess að geta aukið við þær úthlutanir.

Í öðru lagi leggur meiri hluti sjútvn. til við ráðherra að stofnaður verði sérstakur starfshópur, með aðild m.a. Byggðastofnunar og fulltrúa úr þeim byggðarlögum sem hafa treyst mjög á byggðakvóta, sem muni undirbúa málið fyrir hæstv. sjútvrh. og gera tillögur um fyrirkomulag úthlutunar á byggðakvótum. Þannig að það á að vera alveg ljóst að menn koma að þessu máli og það er einbeittur ásetningur meiri hlutans að þessi kerfisbreyting leiði ekki til neinna breytinga á því sem verið hefur að öðru leyti en því að þegar almennar aðstæður breytast geta úthlutanir auðvitað breyst eins og alltaf hefur legið fyrir. Það er því ekkert nýtt í því.

Þannig að þegar allt er lagt saman held ég að menn geti verið nokkuð vissir um að þær breytingar sem verða muni verða til aukningar og leiða til þess að styrkja stöðu byggðarlaga.

Í þriðja lagi er ákvæði um tegundatilfærslur. Lagt er til í frv. að rýmka þær í einstökum tegundum, úr 2% og gætu farið upp í 5% eins og er almenna hámarkið í gildandi lögum, og meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til breytingar á þessu ákvæði frv. og leggur til að það verði samþykkt. Þó er nauðsynlegt að taka fram að okkur þykir rétt að fylgjast með framvindu á því hvernig þetta ákvæði verður notað. Hugsanlega kann að verða nauðsynlegt að grípa í taumana og reisa skorður við því hversu miklu verður breytt í einstakar tegundir, því það er augljóst mál að gefið er út heildaraflamark í hverri og einni tegund út frá því hvað talið er að heimilt sé eða skynsamlegt að veiða úr viðkomandi stofni og þá er ekki gott að hafa svigrúm til þess að menn geti veitt umtalsvert magn umfram það því það gengur þá auðvitað á forsendur þeirrar ákvörðunar. Því áskiljum við okkur rétt til þess að fylgjast með þessu og að leggja til að gripið verði inn í þessa heimild til takmörkunar ef okkur sýnist að tegundatilfærslan ætli að leiða til þess að veiðar í einstakri tegund verði verulega umfram það sem lagt er til eða ákveðið á hverju ári.

Herra forseti. Ég hef þá farið yfir helstu atriðin í áliti meiri hluta sjútvn. og það er að öðru leyti að finna á þskj. 663.

Til viðbótar við þá brtt. á 9. gr. laganna eða 2. gr. frv. sem ég hef kynnt eru tvær aðrar brtt. sem ég tel rétt að geta um og gerð er grein fyrir í nál. Þær eru meira til þess að skýra ákvæðin frekar og koma í veg fyrir misskilning. Sú fyrri varðar 2. gr. frv., staflið a, þar sem segir:

,,Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum á bolfiski.``

Þar leggur meiri hlutinn til að skjóta inn orðunum ,,eða vinnslu`` þannig að ákvæðið hljóði þá svo:

,,Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum eða vinnslu á bolfiski.``

Okkur þykir þetta rétt til þess að taka af öll tvímæli um skilning á ákvæðinu svo ekki komi til þess að einstök byggðarlög, þar sem vinnsla á bolfiski er ríkur þáttur í atvinnulífinu en veiðar eru kannski ekki fyrir hendi eða ákaflega lítill þáttur, verði undanskilin við ákvörðun byggðakvóta, sem auðvitað er ekki meiningin og því er þessi tillaga flutt svo ekki komi til misskilnings hvað það varðar.

Í öðru lagi leggjum til að fella brott úr 3. gr. frv., staflið b, sem fjallar um línuívilnunina sjálfa, þrjú orð sem er að finna í næstsíðasta málslið stafliðar b, en þar segir með leyfi forseta: ,,Þá getur ráðherra með sama hætti ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar ...`` Við leggjum til að orðin ,,með sama hætti`` falli niður, þannig að það orðist þá svona, með leyfi forseta: ,,Þá getur ráðherra ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar ...`` Því það er ekki gert ráð fyrir því að þetta fyrirkomulag verði með nákvæmlega sama hætti og því ekki eðlilegt að vísa til þess með þessu orðalagi.

Herra forseti. Ég held ég fjölyrði ekki meira um þetta nál. Undir það rita auk mín Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Kjartan Ólafsson og Guðjón Ólafur Jónsson.