Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:57:13 (3268)

2003-12-12 11:57:13# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:57]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ákvæðin eru bæði jafnrétthá. Þannig að þegar talin er þörf á að nýta þau bæði verður það gert og það verður ekki gengið á úthlutun byggðakvóta umfram þörf. Við höfum tilteknar forsendur fyrir okkur. Menn hafa verið að ráðstafa 5.300 tonnum í þessa veru og menn munu úthluta því magni meðan aðstæður eru með þeim hætti sem rökstuddi úthlutunina í upphafi. Auðvitað úthluta menn ekki byggðakvótum til byggðarlaga þegar þær forsendur eru fallnar brott sem gera það að verkum að menn telja nauðsynlegt að úthluta þangað kvótum. En meðan þær standa verður farið í meginatriðum eftir því sem við höfum stuðst við. Þannig að það er engin ástæða til að ætla að gengið verði á þessa úthlutun. Hv. þm. er kannski að velta fyrir sér hvað gerist ef eitthvað óvænt verður um einstakar fisktegundir þannig að þörfin fyrir úthlutun til bóta vegna aflabrests eykst skyndilega mikið, en þá er því til að svara að við því verður að bregðast sérstaklega, menn verða þá að taka sérstaka ákvörðun í þeim tilvikum til þess að bregðast við þeim nýja vanda.