Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:58:50 (3269)

2003-12-12 11:58:50# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:58]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði hér fyrir nál. meiri hluta sjútvn. og lagði til í sinni ræðu að frv. yrði lögfest í þeirri mynd sem það hefur nú verið lagt fram. Það eru ekki ýkja margir dagar síðan sami hv. þm. lagði fram tillögur í sjútvn. um sama mál sem voru allt öðruvísi en þær tillögur sem sjútvrh. leggur fram í frv. sínu hér. Tillögur hv. þm. gengu mun lengra en fram kemur í frv. í flestum greinum og því verð ég að spyrja þingmanninn: Er það virkilega svo að hann sé ánægður með það frv. sem hér liggur fyrir? Ég leyfi mér að kalla það drullumall. Hér er verið að malla saman byggðakvóta, tegundatilfærslu og línuívilnun og með þeim hætti að það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir hver verða örlög byggðakvótans, hvernig verður þessi línuívilnun, en allir sjá hver tilgangurinn er með tegundatilfærslunni.

Því verð ég að spyrja hv. þm.: Er það virkilega svo að hann sé ánægður með frv. eins og það liggur fyrir? Og telur hann að lengra verði ekki gengið?