Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:02:30 (3271)

2003-12-12 12:02:30# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:02]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að það kemur fram með skýrum hætti hjá hv. þm. að hann sætti sig við frv. eins og það er núna og ekki sé von á neinum breytingartillögum við það milli 2. og 3. umr. og hér séum við því í umræðunni á eftir að ræða um endanlega mynd frv., þá endanlegu mynd sem menn leggja til að Alþingi samþykki og verði að lögum.

Þingmaðurinn talaði um að þetta mundi gagnast vel þeim útgerðum og stöðum þar sem línuívilnunin yrði notuð. Ég verð að spyrja hv. þm.: Veit hann í raun miðað við efni frv. og þau tök sem eru á línuívilnun í frv. hvar þessi afli mun lenda? Miðað við að opnað er á allar stærðir báta og að í raun geta allir farið í þetta kapphlaup um línuívilnunina, hefur þingmaðurinn þá í raun nokkra hugmynd um hvort þessi línuívilnunarkvóti muni lenda á Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðurnesjum, eða einhvers staðar annars staðar? Eins og þetta er lagt upp í frv. get ég ekki séð hvernig í ósköpunum þeim markmiðum verður náð með þessu frv. sem hv. þm. hefur lýst og talað fjálglega fyrir, þ.e. að styrkja byggð á Vestfjörðum og hjálpa þar smábátaflotanum og ég lýsi undrun minni á því að menn leggi fram svona frv. sem sagt er að eigi að ná ákveðnum markmiðum, en það er engin trygging í frv. sjálfu að það geti náð markmiðunum.