Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:06:04 (3273)

2003-12-12 12:06:04# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:06]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frv. eins og það kemur úr nefnd af hálfu meiri hlutans staðfestir það sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum sagt, að vandinn er ranglátt fiskveiðistjórnarkerfi og það þarf að vinna upp frá grunni. Við höfum lagt fram tillögur um hvernig það megi gera þannig að það treysti bæði atvinnuveginn, atvinnuöryggi fólks og gæði vinnslunnar og efli trausta útgerð. Þetta er hreinn bótasaumur á gallað kerfi.

Ég vil spyrja hv. þm. Kristin H. Gunnarsson: Er það ekki rétt skilið hjá mér að heildarbyggðakvótinn eða kvótinn samanlagður sem bæði ráðherra og Byggðastofnun hafa til úthlutunar til að grípa inn í, þ.e. annars vegar sértækar aðgerðir gagnvart veiðum eða vinnslu eða þá vegna náttúruhamfara sem slíkra, sé í dag 12 þús. plús 1.500 plús 1.500 tonn, eða samtals 15 þús. tonn? Er það ekki rétt skilið hjá mér að það sé þannig í dag að þetta sé til úthlutunar, að heimildin hljóði upp á það? Og er það ekki líka rétt skilið hjá mér að að tveimur árum liðnum verða þessar heildaraflaheimildir sem eru núna 15 þús. tonn komnar niður í 12 þús. tonn? Er það ekki rétt skilið hjá mér að þessar heimildir sem við erum þarna að tala um, 12 þús. plús 1.500 plús 1.500, samtals 15 þús. tonn í byggðakvóta, verði komnar niður í 12 þús. tonn til úthlutunar eftir tvö ár samkvæmt frv.?