Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:37:57 (3279)

2003-12-12 12:37:57# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er út af fyrir sig ágætt að hæstv. ráðherra skuli staðfesta að skilningur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á því sem stendur í frv. sé réttur. Það segir mér það að þeir hljóti að hafa talað saman um þetta mál og ég vonast til þess að eitthvað annað komi ekki í ljós. Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. skuli finna til ábyrgðar sinnar með nýjum hætti. Hann er farinn að tala allt öðruvísi um byggðakvóta og úthlutanir á aflaheimildum vegna vanda í byggðarlögum en hann hefur gert og gerir sér greinilega grein fyrir því að hann hefur tekið að sér vandasamt og mikilsvert hlutverk, að reyna að bjarga byggðarlögum sem þetta kerfi sem hann styður með öllum ráðum er að leggja í rúst. Það er auðvitað umhugsunarefni að það skuli vera þannig og ætti a.m.k. að vera fleirum umhugsunarefni en það virðist vera og hefur verið í gegnum tíðina í sölum hv. Alþingis.