Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:43:32 (3282)

2003-12-12 12:43:32# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:43]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við það sem fram kemur í nál. minni hluta og kom fram í ræðu hv. þm. varðandi nýjung í starfi sjútvn. sem er talin vera sú að nokkrir aðilar voru boðaðir saman inn á fund sjútvn. til að gefa álit sitt á málinu. Þarna var um að ræða sex aðila í útgerð sem voru boðaðir saman og síðan var ákveðið að boða saman þá aðila sem eru í vinnslu og tengjast henni. Þetta er ekki nýjung. Ég vil bara árétta það. Það hafa oft áður verið boðaðir saman á fund sjútvn. fleiri en einn aðili. Ég skal ekki segja hvort þeir hafi verið sex saman, ég hef ekki gáð að því, en þetta er ekki nýjung.

Í öðru lagi get ég bent á reynslu annarra nefnda, t.d. efh.- og viðskn., þar sem margir umsagnaraðilar hafa verið boðaðir saman til að gefa sína umsögn og ræða um tiltekin umdeild mál. Þessu hefur verið beitt sérstaklega þegar um er að ræða umdeild mál, umsagnaraðilar gefa sitt álit og aðrir umsagnaraðilar geta brugðist við því. Mér finnst einkennilegt að finna að því, því þeir umsagnaraðilar sem þarna eru sérstaklega tilgreindir hafa ekki verið feimnir við að segja sína skoðun á frv. opinberlega. Það getur því ekki verið að þeir hafi ekki viljað að einhverjir væru inni meðan þeir segðu sitt álit. Það er bara fráleitt, enda geta umsagnaraðilar ekki ráðið því hvort þeir fá að hitta sjútvn. saman eða hver í sínu lagi. Það er ekki þeirra að ákveða það. Þeim gefst kostur á að koma fyrir nefndina og gera grein fyrir áliti sínu og auðvitað verða þeir að standa fyrir því og rökstyðja það.