Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:45:34 (3283)

2003-12-12 12:45:34# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:45]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég sagði um þetta mál og stendur í greinargerðinni er það að þetta er nýjung í starfi sjútvn. Ég man ekki eftir því að þessum aðilum hafi verið steypt saman. Og ég segi líka og sagði að þessi nýjung féll í fremur grýttan jarðveg hjá fulltrúunum og þeir gengu af fundinum. Er eitthvað um það að þræta? Þetta tókst sem sagt ekki vel, varð til þess að sjútvn. gat ekki rætt við þessa aðila. Það stendur eftir. Ég er ekkert að halda því fram að þetta hafi ekki verið gert hér í þinginu í öðrum nefndum, en ég hafði hins vegar fyrir mitt leyti efasemdir strax og ég sá hvernig hópurinn var samansettur sem kom inn að það yrði svona sæmilegur friður til að fara yfir málið með þessum hætti. Það fór eins og það fór. Það er búið að prófa það og ég tel að það sé engin ástæða til þess að reyna það neitt aftur, en ég harma það að menn skyldu ekki fá betra tækifæri til að tala við þá aðila sem þarna voru mættir. En svona fór sem sagt um sjóferð þá.