Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:49:09 (3285)

2003-12-12 12:49:09# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:49]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri ráð að menn reyndu þá að skilgreina betur hvað þeir eiga við með meiri háttar aflabresti því það skiptir mjög miklu máli. Það er nefnilega svo að ef menn ætla sér að nota stóran hluta, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er búinn að vera að lýsa hér, af þeim heimildum sem eru í 12. gr. til þess að styrkja byggðarlög, þá er ekki hægt að gera það með þeim hætti að það sveiflist eitthvað verulega til milli ára, það verður að vera mögulegt að horfa til lengri tíma. Og þess vegna er það sem þessir byggðapottar hafa verið ákveðnir til tiltekins árafjölda að menn hafa ekki séð að það gengi öðruvísi ef ætti á annað borð að ganga í lið með þessum byggðarlögum. Og þess vegna hljóta menn að þurfa að fá þessa skilgreiningu á hreint. Ég er reyndar á þeirri skoðun að það þurfi bókstaflega að skoða það vandlega, ef þetta á að virka með þeim hætti sem menn hafa talað hér um þetta, að skipta þessum 12.000 tonnum með einhverjum hætti þannig að það sé ljóst hvert lágmarkið sé vegna byggðarlaganna og að menn verði hreinlega að horfast í augu við það að skerðingar vegna aflabrests sem fara yfir ákveðin heildarmörk verði að bæta með öðrum hætti.

Ég held að menn verði að fara yfir þetta því það svigrúm sem nú er til staðar getur fokið á auga lifandi bragði. Það voru, eins og hv. þm. hélt fram í sinni ræðu áðan, ekki eftir nema 1.500 tonn til viðbótar við það sem var áður í byggðapottunum ef þannig er reiknað. Og hvað þarf að gerast til þess? Við erum áfram með skerðinguna á aflaheimildum vegna hörpudisks og gætum við ekki fengið á okkur einhverjar álíka skerðingar í einhverri annarri tegund?