Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:56:19 (3287)

2003-12-12 12:56:19# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:56]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. að menn eru með þrjú atriði í frv. sem öll að vísu tengjast saman gegnum löggjöfina um stjórn fiskveiða en eru hvert af sínu tagi. Og tillaga hans bætir hinu fjórða við. Það er ekkert að því, herra forseti. Mér finnst það bara eðlilegt og sjálfsagt að menn taki þau atriði upp til umræðu sem tengjast þeim lögum sem eru undir hverju sinni. Þannig að það er engin ástæða til að gera athugasemdir við það.

Ég vil bara aðeins geta þess að málefni dagabátasjómanna hafa verið mikið til umræðu innan sjútvn. og innan meiri hluta hennar og það var niðurstaða okkar núna í tengslum við umræðu um þetta frv. því það mál var til umræðu síðustu daga að ekki væri unnt að þessu sinni að leggja fram tillögu frá meiri hluta sjútvn. um framtíðarskipan í málefnum dagabátaeigenda. Þannig að það verður ekki tekið upp af okkar hálfu að þessu sinni en unnið áfram að því og við leggjum áherslu á að því máli verði hraðað þannig að niðurstaða megi liggja fyrir sem allra fyrst í þeim efnum.

Ég vil svo nota þetta tækifæri og þakka hv. þingmönnum og öðrum þingmönnum í stjórnarandstöðunni fyrir samvinnu í sjútvn. á þessu hausti. Vinnan hefur gengið vel og þó að við höfum fengið stórt mál eins og línuívilnun og unnið það á stuttum tíma, þá gekk það ákaflega vel og ég hygg að það sé mjög vel unnið af nefndinni. Ég vil þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar fyrir þeirra framlag í því.