Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:58:02 (3288)

2003-12-12 12:58:02# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GMJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Grétar Mar Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að það hefði verið og er lítið mál að bæta inn og ég vona það að stjórnarþingmenn sjái að sér og styðji breytingartillögu mína við frv. Þetta er floti sem hefur verið afskiptur og hefur mest átt undir högg að sækja í fiskveiðistjórnarkerfinu. Maður hefur alltaf haft það á tilfinningunni að þetta sé sá floti sem stjórnvöld vilji helst losna við. Þarna eru menn á sókn eins og allir aðrir ættu að vera við íslenskar fiskveiðar, með sama móti og Færeyingar gera sem eru að ná góðum árangri í sinni fiskveiðistjórn, sennilega þeirri bestu í heiminum í dag. Við erum alltaf að minnka okkar hlut í svona sóknardagakerfi. En það væri betur að við tækjum það upp í fiskveiðistjórnarkerfinu okkar.