Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:59:25 (3289)

2003-12-12 12:59:25# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara láta það koma fram að mér er mjög annt um dagabátakerfið. Á sínum tíma þegar Valdimarsdómurinn féll í desember 1998 var ég formaður sjútvn. og þing var kallað saman í janúarbyrjun 1999 til þess að bregðast við dóminum. Þá var lagt fram frv. frá ríkisstjórninni sem gerði það að verkum að allar veiðar færu undir aflamarkskerfi. Við eyddum miklum tíma í janúarmánuði 1999 að ná samstöðu um aðra útfærslu fyrir handfærakerfið og það tókst að ná samkomulagi um það og útkoman varð það dagabátakerfi sem menn þekkja síðan. Reyndar voru fyrstu tillögur um að árleg fækkun daga ætti að vera 25%, en það tókst að fá því breytt þannig að það er aðeins 10%.

Mér finnst ástæða til þess að halda þessu til haga til þess að draga það fram að stjórnarflokkarnir komust að þeirri niðurstöðu að þeir vildu frekar hafa handfæraveiðarnar í þessu kerfi en undir aflamarkskerfi. Og það er mikill vilji til þess innan stjórnarflokkanna að reyna að ná samkomulagi um breytingar á kerfinu sem geti gert það að verkum að menn geti búið við það í því formi sem menn hafa unnið á undanförnum árum.