Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:18:06 (3298)

2003-12-12 16:18:06# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), EMS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að við skulum ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landspítala -- háskólasjúkrahús. Það er einnig fagnaðarefni að hæstv. heilbrrh. skuli hafa skipað nefnd til að fara yfir þessi mál og skilgreina hlutverk spítalans í heilbrigðiskerfinu. Segja mætti að tími hafi verið til kominn og hefði mátt gera fyrir löngu.

Herra forseti. Fæst af því sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er nýtt. Það hefur blasað við mörgum mjög lengi. Hæstv. ráðherra minntist á að algengt væri og regla við afgreiðslu fjáraukalaga að afgreiddir væru fjármunir til þessarar stofnunar. Herra forseti. Það lá ljóst fyrir þegar við afgreiddum fjárlög fyrir næsta ár að þannig yrði það. Það kemur þess vegna engum á óvart að nú skuli boðaður niðurskurður á spítalanum. Það mun að sjálfsögðu skerða þjónustu stofnunarinnar. Þess vegna má vænta þess að fjáraukalög fyrir næsta ár fari að sjá dagsins ljós á fyrstu dögum næsta árs, þ.e. hvað í þeim verður. Því verður ekki trúað að allar þær tillögur sem fram hafa verið lagðar verði látnar fram ganga.

Það er einnig ljóst, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. hafði skýrslu Ríkisendurskoðunar undir höndum þegar hann fór í lokaslaginn vegna fjárlaganna fyrir árið 2004. Því miður var ekki hljómgrunnur fyrir því í ríkisstjórnarmeirihlutanum að bregðast við því sem allir sáu og allir vissu að þyrfti að gera.

Herra forseti. Það er auðvitað fagnaðarefni að nú sé komin enn ein nefndin til að skoða þetta mál. Við skulum vona að sú nefnd starfi stutt en skili árangri sem duga muni lengur en flestar tillögur sem komið hafa frá öðrum nefndum um þetta mál.