Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:33:22 (3305)

2003-12-12 16:33:22# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:33]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík sýnir að það er ekki endilega stærðin sem skapar rekstrarhagkvæmni heldur getur hún verið háð öðrum atriðum. En þarna er unnið vandað og gott starf.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz spurði hæstv. heilbrrh. hvernig hann hygðist fylgja eftir þeirri skýrslu sem nú liggur fyrir. Það er von að hv. þm. spyrji. Einmitt þessa dagana, jafnvel þessa stundina, eru haldnir neyðarfundir, bráðafundir á Landspítalanum um hvernig megi bregðast við fjárvöntun starfseminnar. Þar er skoðað hvaða þætti er hægt að skera burt af þessari góðu starfsemi og hvað er hægt að hafa áfram.

Þegar málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss voru til umræðu og umfjöllunar í fjárln. lagði ég ríka áherslu á að fjárveitingar til Landspítalans yrðu auknar miðað við það fé sem forstjórinn kvað þurfa til að halda óbreyttri starfsemi. Þá var nefnt að 1.400 millj. kr. þyrfti til að halda óbreyttri starfsemi á næsta ári. Þegar fjárlög voru afgreidd úr fjárln. taldi ég fullkomlega óábyrgt að afgreiða fjárlög með þeim hætti að skilinn yrði eftir óafgreiddur pakki sem lægi fyrir og allir vissu um. Ég mótmælti því og greiddi atkvæði gegn því að fjárlög væru afgreidd af nefndinni af því ábyrgðarleysi sem meiri hluti nefndarinnar sýndi undir stjórn framsóknarmannsins, hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, og sjálfstæðismannsins, varaformanns fjárln., hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar.

Það er mjög eðlilegt að framsóknarmaðurinn, hv. þm. Jónína Bjartmarz, spyrji: Hvernig á að fylgja málinu eftir? Hún hefði getað spurt mig strax í fjárln. og stutt þá tillögu sem ég lagði þar fram. Þá stæðum við ekki frammi fyrir þessum vanda, neyðarfundum á spítalanum þessa dagana.