Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:35:52 (3306)

2003-12-12 16:35:52# 130. lþ. 49.96 fundur 241#B sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjart
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunni. Síðast en ekki síst þakka ég hæstv. ráðherra fyrir góð svör.

Það er alveg ljóst að þau sóknarfæri sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar verða ekki nýtt nema með atbeina Alþingis og stuðningi þingsins við þær leiðir sem skýrslan bendir á til að fullkomna þetta, þ.e. gera Landspítala -- háskólasjúkrahús að þeirri stofnun sem stefnt var að.

Þessi skýrsla er að mínu mati betri grundvöllur fyrir málefnalega umræðu um heilbrigðismál en oftast er til staðar. Ég tel að þeirri vinnu sem í hana var lögð, tvö heil ársverk eða svo, verði að stærstum hluta kastað á glæ ef menn ætla alltaf að láta við það sitja í umræðunni að kasta því fram að fjárhagslegan ávinning af sameiningunni skorti.

Hvað varðar fjárhagslegan ávinning af sameiningunni megum við ekki gleyma því að meginmarkmiðin með henni á sínum tíma voru að stemma stigu við þeim kostnaðarhækkunum umfram fjárheimildir sem voru árvissar hjá sjúkrahúsunum tveimur, Sjúkrahúsi Reykjavíkur og Ríkisspítölunum. Ástæður þeirrar hækkunar á sínum tíma hafa ekkert breyst, þ.e. fjölgun sjúklinga, aukin eftirspurn, stöðug fjölgun fólks á höfuðborgarsvæðinu, hærri meðalaldur, hærra lyfjaverð, ný tækni og framfarir í læknavísindum. Margt af þessu var, er og verður áfram viðfangsefni í heilbrigðiskerfinu.

Að viðbættum þeim vanda sem þá var við að etja fóru launahækkanir langt umfram það sem stjórnvöld gerðu ráð fyrir að yrðu áhrif kjarasamninga. Svo ég taki dæmi þá var gert ráð fyrir því að laun lækna mundu hækka um 30% en raunin varð sú að laun þeirra hækkuðu um 43% samkvæmt skýrslunni. Gert var ráð fyrir því að laun hjúkrunarkvenna mundu hækka um 18% en þau hækkuðu, hvert ársverk í hjúkrun, upp í 33%.

Það er náttúrlega ljóst að launahækkanir umfram mat á kostnaðaráhrifum kjarasamninga hljóta að leiða af sér vandamál við rekstur stofnunar eins og Landspítalans.