Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 16:41:17 (3309)

2003-12-12 16:41:17# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KLM
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[16:41]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Frv. sem við ræðum hér við 2. umr. hefur fengið nafnið línuívilnunarfrumvarpið þó að það taki til annarra óskyldra mála eins og tegundatilfærslu. En línuívilnun og byggðakvótar eru hins vegar skyld málefni og hægt að ræða þau saman í þessu samhengi. Það er einmitt það sem ég hyggst gera í þessari umferð og rifja upp málið eins og það kom upp í einum spreng núna á síðustu dögum þingsins fyrir jól.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði fram brtt. við frv. í meðförum hv. sjútvn. og sýndi þar ákveðnar tillögur í þessa átt. Það varð til þess, að manni virðist, að hæstv. sjútvrh. lyfti litla putta, svo notuð séu orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem sagði í blaðaviðtali að sjútvrh. hefði ekki gert svo lítið sem lyfta litla putta til að vinna að undirbúningi þessa máls.

Það er auðvitað mjög skrýtið en athyglisvert og jafnframt dálítið skemmtilegt að ég lagði fyrir fulltrúa sjútvrn. á nefndarfundi --- sem ég ætla að gera að umtalsefni á eftir --- spurningu um hvenær undirbúningur að því frv. sem hér er hafi hafist í sjútvrn. Svarið við þessari spurningu þótti ástæða til að setja feitletrað á blað, í mars árið 2003.

Virðulegi forseti. Vafalaust geta verið skiptar skoðanir um hvenær vinna hefst við frumvarp. Vinna getur að sjálfsögðu hafa hafist við frv. á landsfundi Sjálfstfl., þegar Guðmundur Halldórsson frá Bolungarvík var búinn að flytja tillögu um línuívilnun á landsfundi Sjálfstfl., tillögu sem var flutt í sjávarútvegsnefnd landsfundarins og felld þar, að því er sagt er eftir töluvert langan umþóttunartíma fram að atkvæðagreiðslu vegna þess að það þurfti að safna saman landsfundarfulltrúum inn í nefndina til að greiða atkvæði. En þá endurflutti þessi mikli baráttujaxl frá Bolungarvík tillöguna á landsfundinum sjálfum. Þar var tillaga um þetta samþykkt.

[16:45]

Sumir landsfundarfulltrúar Sjálfstfl. hafa sagt að tillagan hafi hlotið samþykki kvenfólksins á landsfundinum og nokkrum landsfundarfulltrúum úr sjávarbyggðum Vestfjarða. En, virðulegi forseti, sá sem hér stendur getur ekki útlistað það sem gerist á landsfundi Sjálfstfl. nema það sem landsfundarfulltrúar hafa sagt frá og maður hefur lesið um í blöðum. Það var mjög skrýtið að fylgjast með þeirri umræðu og hvernig þurfti að endurflytja málið á landsfundinum sjálfum til að koma því í gegn. Að mér skilst var mikill ágreiningur í Sjálfstfl. um þetta mál.

Þetta var einn af þáttunum í sjávarútvegsumræðu kosningabaráttunnar í apríl og maí. Þessi tillaga var notuð í ákveðnu kjördæmi, veifað fyrir framan menn að það ætti að taka upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta þar sem línu væri beitt í landi o.s.frv. Þessu var aðallega veifað í umræddu kjördæmi og viti menn. Töluvert margir bitu á þá línu, þó að hún væri handbeitt á landsfundi Sjálfstfl. og þar á undan á landsfundi B-deildarinnar, eða Framsfl., var víst búið að samþykkja þetta líka. (Gripið fram í: Fór hún í trektina?) Þetta fór ekki í gegnum trektina, það var nefnilega málið. Þarna var þetta samþykkt og málinu veifað og það sett inn í stjórnarsáttmálann, að taka skyldi upp línuívilnun. Það er kannski það eina sem stendur eftir í frv. sem hér er til umræðu. Þar er einu sinni, tvisvar eða þrisvar nefnt orðið línuívilnun. En það er ekki mikið annað sem stendur eftir, virðulegi forseti.

Á næsta fundi hæstv. forsrh., formanns Sjálfstfl., var sjávarútvegsumræðan töluvert mikil. Sá fundur var haldinn í Vestmannaeyjum. ,,Á ferð um landið`` minnir mig að fundaherferðin hafi verið kölluð. Þar var hæstv. forsrh. og lofaði að það yrði tekið til endurskoðunar að festa í sessi forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga á kvóta. Það var líka sett í stjórnarsáttmálann. En það er ekkert verið að ræða um það núna. Hins vegar hafa fulltrúar nokkurra sveitarfélaga rætt við ýmsa ráðherra í ríkisstjórn Íslands um þetta forkaupsréttarákvæði. Eins og áður hefur komið fram eru nokkur sveitarfélög í mikilli vörn við það að halda meirihlutavaldi á hlutabréfum í viðkomandi fyrirtækjum heima í héraði, vernda störfin, vernda fyrirtækin og halda þeim áfram gangandi í viðkomandi byggðarlagi.

Í þessu sambandi nægir að nefna hetjulega baráttu sveitarstjórnarmanna í Vopnafirði. Það sveitarfélag hefur staðið í því upp á síðkastið að kaupa til baka ákveðinn fjölda af hlutabréfum fyrir rúmar 1.000 millj. kr., fyrir rúman 1 milljarð kr. Það er ekki lítið mál, virðulegi forseti, fyrir lítið sveitarfélag sem þarf að búa við þá tekjustofna sem sveitarfélögum í landinu eru skammtaðir í dag og nægja engan veginn fyrir venjubundnum rekstri, hvað þá að taka þátt í sjávarútvegsspilinu.

Þetta vildi ég aðeins rifja upp í upphafi, virðulegi forseti, enda er þetta aðdragandinn að því að nokkrir stjórnarþingmenn ganga fram af miklum krafti og fá ríkisstjórnina til að standa við gefin loforð og stjórnarsáttmála. Auðvitað ber að taka ofan af fyrir hv. þingmönnum sem það gera. (Gripið fram í: Ofan af?) Taka ofan hattinn fyrir þeim mönnum. Ég ætla ekki að taka af það sem þar er undir. Auðvitað ber að fagna því að til séu aðilar í stjórnarflokkunum, hv. þingmenn, sem berjast fyrir því að loforð skuli standa. Þar með er ekki endilega sagt að það sem kemur út úr því, moðsuðan í þessu frv., sé það besta.

Virðulegi forseti. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að málum skuli þannig háttað. En þetta sýnir náttúrlega í hnotskurn hvernig menn þurfa að umgangast þennan mikilvæga lagabálk um stjórn fiskveiða. Það er erfiðleikum bundið og ljóst að deilur eru í þjóðfélaginu um þennan málaflokk. Það er auðvitað mjög slæmt mál, að í höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar skuli alltaf vera svo miklar deilur um þetta. Það hvernig þetta kom út í hv. sjútvn. í gær endurspeglaði vel hvað hér er um að vera. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara í það.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að þetta frv. væri mikil vonbrigði og því ekki hægt að styðja það á neinn hátt, eins og fram kemur í nál. minni hlutans sem ég skrifa upp á ásamt öðrum. Fyrir því eru margar ástæður. Ein ástæðan er sú að hér hefur hæstv. sjútvrh. tekist að koma byggðakvótunum, sem þarna voru inni, fyrir kattarnef, þ.e. með því að þeir leggist niður og fari inn í 9. gr. eins og hér er gert ráð fyrir. Krókaaflamarkspotturinn verður líka lagður niður og eftir stendur 9. gr. með þau 12 þús. tonn sem þar voru áður. Þau tonn í hinum ýmsu fisktegundum sem verið hafa í þessum tveimur byggðapottum og krókaaflamarkspottinum falla niður. Einmitt þar held ég að hæstv. sjútvrh. fagni sigri.

Virðulegi forseti. Það hefur allt of oft komið í ljós að Sjálfstfl. hefur ekki viljað neina byggðakvóta eða byggðapotta. Sjálfstæðismenn hafa margir hverjir, með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar, ekki verið óánægðir með að í nokkrum sveitarfélögum hafa orðið miklar deilur um úthlutun á byggðakvóta. Þannig hefur það verið, en það er lítið rætt um þá staði þar sem mikil og góð sátt hefur verið um úthlutun á byggðakvótum, þessum fáu tonnum sem þar eru inni. Nægir t.d. að nefna Breiðdalsvík, Ólafsfjörð og Þingeyri þar sem sátt hefur verið um úthlutun á byggðatengdum kvóta. Sá kvóti hefur verið notaður til að tvöfalda og jafnvel meira en tvöfalda það aflamark sem kemur að landi frá aðilum sem þar fiska og vinna á viðkomandi svæðum. Það hefur auðvitað verið mikil lyftistöng fyrir þessi litlu byggðarlög.

Mér er ákaflega minnisstætt, virðulegi forseti, þegar sveitarstjóri og oddviti sveitarstjórnar Breiðdalsvíkur komu á fund þingmanna Norðaust. í kjördæmavikunni. Þeir lýstu því þá hvernig byggðakvótinn, sem verður lagður niður núna samkvæmt þessu frv., var algjör guðsgjöf fyrir sjávarútveginn sem þar er stundaður. Mér er líka mjög minnisstæð, og nefni til stuðnings máli mínu andstöðu sjálfstæðismanna við byggðakvóta og að þeir vilji helst sjá hann fara, óánægja hv. þm. Halldórs Blöndals á þeim fundi þar sem fulltrúar Breiðdalsvíkur lýstu því hve mikil sátt var um þetta og hvað þetta hefði gengið vel. Hv. þm. spurði strax út í byggðarlög þar sem deilur voru um úthlutun á byggðakvóta.

Því miður er byggðakvótinn farinn úr þessum lagatextum, þau ákvæði sem um hann giltu, hvort sem það voru bráðabirgðaákvæði eða önnur ákvæði. Hæstv. sjútvrh. er ekki skyldugur til að úthluta þessu eins og gert hefur verið undanfarin ár heldur er þetta í 9. gr. Eins og komið hefur fram á fundum sjútvn. er búið að úthluta öllum kvóta skv. 9. gr. fyrir þetta fiskveiðistjórnarár. Það er ekkert eftir til að bregðast við atvikum á hinum ýmsu smærri stöðum við sjávarsíðuna. Það er ekkert eftir af honum. Það er búið að deila honum öllum út.

Ef þetta verður framtíðin, þrátt fyrir fögur orð í nál. meiri hlutans, þá óttast ég hana. Ég treysti ekki Sjálfstfl. og hæstv. sjútvrh. til að meðhöndla þennan kvóta gagnvart hinum minni byggðum sem treysta á byggðakvóta. Það er aumt að þetta frv. hafi komið fram til þess að stúta þeim möguleikum sem ég hef gert að umtalsefni og ætla að fara aðeins betur yfir.

Virðulegi forseti. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. fiskveiðistjórnarlaganna er ákveðin heimild í reglugerð um ráðstöfun til krókaaflamarksbáta, þ.e. allt að 1.000 lestum af ýsu, 1.000 lestum af steinbít og 300 lestum af ufsa. Hvað verður um þennan pott, virðulegi forseti, eftir samþykkt frv.? Þessi pottur verður lagður niður. Hverjir tapa, hverjir hafa haft úr þeim potti á því fiskveiðistjórnarári sem nú er hafið? Við skulum fara yfir það lið fyrir lið.

Ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir fulltrúa sjútvrn. var um þennan pott. Það var beðið um útlistingu á þessu. Virðulegi forseti. Vegna flýtimeðferðar, kapphlaupsins um þetta kappróðrafrumvarp, gafst sjútvrn. ekki tími til að svara þessu eins vel og ég býst við að þeir hefðu viljað gera. Hvað þetta varðar höfum við t.d. ekki sundurliðun á þeim tegundum sem ég nefndi áðan. En við höfum heildarúthlutunina í þorskígildum. Förum yfir þau byggðarlög sem munu tapa þessum heimildum:

Bakkafjörður fékk úthlutun fiskveiðiárin 2001/2002 og 2002/2003 en hefur einhverra hluta vegna ekkert árið 2003/2004.

Bolungarvík, sá góði staður. Krókaaflamarksbátar þar fá tæp 360 tonn á þessu fiskveiðiári. Hafa haft 400 tonn undanfarin tvö. Bolvíkingar munu missa þessi 360 tonn.

Breiðdalsvík mun missa 3,3 tonn úr þessum potti. Það er ekki mjög mikið en Breiðdalsvík missir 181 tonn úr byggðastofnunarpottinum.

[17:00]

Förum á Drangsnes sem mun tapa úr pottinum rúmum 88 tonnum, Flateyri mun tapa 361 tonni vegna þessa, Ísafjörður mun tapa 62 tonnum, Ólafsvík 200 tonnum, Sandgerði 4,8 tonnum, Stöðvarfjörður mun tapa tæpum 30 tonnum, Suðureyri hefur ekki fengið úthlutun þetta ár en Tálknafjörður er með 400 tonn.

Förum næst, virðulegi forseti, yfir þá spurningu sem ég lagði fyrir ráðuneytið. Hún var um úthlutun aflaheimilda samkvæmt bráðabirgðaákvæði XXVII laga um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, þ.e. um byggðastofnunarúthlutunina ef svo má að orði komast. Við reynum að skilgreina þetta svona, seinna kem ég að svokölluðum ráðherrakvóta.

Bakkafjörður mun tapa af 72 tonnum vegna þess að greinin mun falla niður og þetta mun fara í 9. gr. Og áfram, virðulegi forseti, er ég að tala í þorskígildum.

Borgarfjörður eystri tapar 112 tonnum, Breiðdalsvík 181 tonni, eins og ég sagði áðan, Fáskrúðsfjörður mun tapa 113 tonnum, Grímsey 92 tonnum, Hofsós 114 tonnum, Kaldrananeshreppur 63 tonnum, Seyðisfjörður 67 tonnum, Stöðvarfjörður 94 tonnum, Vesturbyggð 205 tonnum og á Þingeyri munu 387 tonn hverfa af byggðastofnunarkvótanum vegna þess að menn eru, ja ég vil segja að fikta í þessu öllu og út úr því verður sá óskapnaður sem þetta frv. er orðið.

Þetta er mikill ókostur við frv. að mínu mati en ekki sá eini. Ef við förum aðeins yfir þetta, virðulegi forseti, og tökum dæmi þá tapar Bolungarvík eins og ég sagði áður 360 tonnum frá krókaaflamarksbátunum og Bolungarvíkurkaupstaður mun tapa 66 tonnum úr svokölluðum ráðherrakvóta, byggðakvótanum sem tengdur er við ráðherrann og við köllum stundum ráðherrakvóta, þar eru 66 tonn. Ef við förum yfir það, virðulegi forseti, hvað Bolvíkingar veiddu á síðasta ári á línu, ég held ég fari örugglega rétt með ef ég verð ekki lengi að finna þau blöð að Bolvíkingar hafi veitt á línu á síðasta fiskveiðistjórnarári 1.739 tonn af þorski. Þeir munu með öðrum orðum, virðulegi forseti, tapa þeim afla og hafa rétt til þess að fara í kappróðurinn til að ná í 16 prósentin. Upp á móti því sem þarna hverfur verða þeir að hefja þá kappróðra sem verða leyfðir með 16% hámarkinu í þorski, sem ég ætla að koma að síðar hvernig sett verður niður, hvernig það kapphlaup verður sett niður og skipt eftir ársfjórðungum.

Þingeyri og Ísafjörður tekin saman munu tapa í byggðastofnunarpottinum 387 tonnum. Það er sem sagt úthlutað úr byggðastofnunarpottinum til Þingeyrar.

Ráðherrakvótinn á Ísafjörð og Þingeyri er 118 tonn. Krókaaflamarkshlutinn er 62 tonn eins og áður hefur komið fram gagnvart Ísafirði. Þarna eru samtals 570 tonn sem hverfa burt úr umræddu sveitarfélagi vegna þess að byggðastofnunarpottarnir tveir, krókaaflamarkspotturinn einn, eru lagðir niður í þessu dæmi.

Á Tálknafirði verða þetta 415 tonn, í Grímsey 96 tonn. Ef við förum aftur yfir í Norðvest., þýðir þetta að í Vesturbyggð munu tapast 281 tonn. Á Breiðdalsvík tapast 210 tonn, Borgarfirði eystri samtals 131 tonn, Stöðvarfirði 123 tonn samtals og svona má lengi halda áfram.

Þetta er sem sagt það sem menn þurfa að fórna til að koma frv. í gegn og línuívilnunarhugtakinu, að festa það í fiskveiðistjórnarlögin.

Ég sagði áðan, virðulegi forseti, að í svörum við nokkrum spurningum sem ég beindi til ráðuneytisins er því miður ekki að hafa þá sundurliðun sem óskað var eftir og geri ég í raun og veru ekki athugasemdir við það vegna þess hve tíminn var skammur, en ein af þeim spurningum sem ég lagði fyrir var svohljóðandi:

Hver verður skipting á þeim 3.375 tonnum sem er þakið í þorskkvótanum eftir ársfjórðungum, þ.e. vegna þess að í frv. segir: ,,Línuívilnun í þorski skal á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski og skal það magn skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002.``

Svar ráðuneytisins er eftirfarandi:

Í september til nóvember verða veidd 27,7% af þessum afla, eða 936 tonn. Í desember, janúar og febrúar verður hlutfallið 34,1%, eða 1.151 tonn. Í mars, apríl og maí verða veidd 24,7%, eða 835 lestir. Og í júní, júlí og ágúst 13,4%, eða 453 tonn.

Þetta er ansi athyglisvert, virðulegi forseti, miðað við það sem ég hef áður sagt og nefnt byggðarlög á Vestfjörðum, Norðurlandi og fyrir austan og það borið saman við þessi tímabil þegar við höfum það í huga að ekki gefur alltaf á þessum stöðum yfir vetrarmánuðina til að fara á sjó. Hverjir verða þá möguleikarnir í kapphlaupinu um 16 prósentin á hverjum ársfjórðungi? Hverjir verða möguleikar hinna ýmsu útgerðarstaða til að ná í ,,sinn hluta`` af 16 prósentunum? Í desember, janúar og febrúar verður stærsti hlutinn veiddur eða 1.151 tonn. Það mun þá væntanlega verða þannig að 1. desember mun sjútvrh. ræsa þessa kappróðra með því að slá niður flaggi eða flauta til leiks eins og á sjómannadaginn þegar kappróður hefst og síðan munu menn fara að róa og róa og eflaust mun veðrið spila þar inn í og hamla sjósókn hjá mjög mörgum aðilum.

Segjum sem svo, virðulegi forseti, að veður verði vond fyrir vestan og fyrir norðan en gott fyrir sunnan sem oft gerist nú í desember, janúar og febrúar, og það hamli sjósókn á þessum svæðum en áfram verði hægt að róa annars staðar frá landi þar sem veður er gott, þá verður það frekar ójafnt hlutskipti eftir landsfjórðungum að ná sér í þessa 16% ívilnun. Það mun með öðrum orðum, virðulegi forseti, vera þannig að veðurguðirnir munu stjórna töluvert miklu um þá sjósókn og hverjir eigi möguleika á að njóta ávaxtanna ef svo má að orði komast.

Það er því, virðulegi forseti, ákveðin hætta á að sjómenn í Bolungarvík, Þingeyri og Ísafirði, Tálknafirði, Grímsey og Vesturbyggð geti ekki stundað sjóinn vegna veðurs á við aðra sjómenn annars staðar á landinu. Það gæti orðið þannig að þegar sjútvrh. flautaði næst og segði að hámarkinu væri náð á tímabilinu, hefðu sjómenn á þessum svæðum jafnvel ekkert komist á sjó og þessi pottur verði bara búinn. Þá gætu menn bara sagt: Sorrý, sorrý. Hæstv. sjútvrh. getur sagt að hann stjórni ekki veðurfarinu, sem betur fer náttúrlega, og hann geti ekki stjórnað því hvenær menn fari á sjó. Þannig mun þetta spilast út.

Með öðrum orðum, virðulegi forseti, er verið að taka upp ákveðið sóknardagakerfi og þetta mun líka geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir hinar ýmsu stærðir af bátum þar sem þeir stærri geta farið á sjó þegar þeir minni þurfa að vera eftir í höfn og komast ekki vegna veðurs. Og það getur líka verið, virðulegi forseti, að ýmsir sjómenn á minni bátum muni hefja róður og fara í róður til að taka þátt í kapphlaupinu um 16 prósentin, taka því kapphlaupi að ná í sinn hluta úr pottinum, og þá ætla ég rétt að vona, virðulegi forseti, að þeir komi allir aftur. Nægir í þessu sambandi, virðulegi forseti, að nefna dæmi um dagabátana áður en sú ágæta breyting var gerð sem ég studdi, að breyta yfir í klukkustundir, að það gerðist að bátar sem voru farnir á sjó og voru komnir fram yfir þrjár klukkustundir og gátu ekki meldað sig til baka, að veður breyttist en menn héldu áfram að reyna að nýta daginn, róa og fiska. Sumir bátar, a.m.k. man ég eftir einu tilviki, komu ekki aftur í höfn. Sem betur fer varð mannbjörg.

Það er ákaflega mikilvægt að rifja þetta upp, virðulegur forseti, vegna þess að ég tel að sú breyting sem var gerð á þessu dagakerfi, sama hvaða skoðun menn hafa á því, hafi verið réttlát aðgerð, að breyta því yfir í klukkutíma eins og gert var, þó ekki væri nema bara út af umræddu atviki.

Ég sé ekki ástæðu til að fara í gegnum önnur atriði, virðulegi forseti, í þeim spurningum sem við fulltrúar Samf. lögðum fram á fundinum vegna þess að sum svörin voru þannig að ekki er hægt að lesa þau upp. Það þarf að reikna þau svolítið út, eins og t.d. um leiguverð og söluverð á þessum 3.375 tonnum, af þessari 16% ívilnun, vegna þess að auðvitað er það ákveðin hætta eða möguleiki, betra að kalla það bara möguleika, að vegna þessara 16% muni aðilar taka sig til og taka þátt í lotteríinu, í þessu lottóspili, sjávarútvegsspili. Það gefur mönnum auðvitað möguleika á að selja burt frá sér kannski 10%, 15%, jafnvel 16% af kvóta sínum og treysta á að þeir geti aflað jafnmargra tonna með því að taka þátt í því sjávarútvegsspili.

[17:15]

Virðulegi forseti. Ég held að farið hafi verið yfir allar umsagnir og heimsóknir á fundi sjávarútvegsnefndar og það verður að segjast alveg eins og er að þetta frv. fékk mjög slæmar móttökur. Allir sem komu á fund nefndarinnar lögðust gegn frv. Og mér er það ákaflega minnisstætt þegar fulltrúar frá Landssambandi smábátaeigenda komu á fundinn og formaður félagsins las upp úr tölvu sinni bréf það sem hann hafði skrifað til nefndarinnar. Það er mjög eftirminnilegt, ég ætla ekki að lesa það bréf upp hér. Og af því ég heyrði áðan að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, formaður sjútvn., talaði um að ASÍ hefði ekki lagst gegn frv., það getur vel verið að það megi túlka það þannig, en ASÍ lýsti því svo að þeir tækju ekki slíka afstöðu en vissu að það væru deildar meiningar innan sambandsins. Það er heldur ekki hægt að segja að þeir hafi lýst yfir stuðningi en það má kannski segja að það sé rétt, virðulegur forseti, að þeir hafi ekki verið jafnharðir í afstöðu sinni og aðrir sem komu á fund nefndarinnar. Svo er líka með umsagnir frá öðrum aðilum eins og Byggðastofnun og fleirum að það verður bara að segjast alveg eins og er, virðulegur forseti, að það var alveg með ólíkindum hvað þetta frv. fékk slæma einkunn.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem gerði grein fyrir nál. minni hluta sjútvn., að mér þótti það mjög miður, og það er náttúrlega dæmi um hvernig málið var unnið og hve tíminn var lítill, að því skuli hafa verið hagað þannig í sjútvn. að fjölmargir fulltrúar ólíkra hagsmunasamtaka, skulum við segja, áttu að koma á fundinn á sama tíma. Og það er bara svo, virðulegi forseti, þó að það takist vafalaust í mörgum öðrum nefndum að menn vilji vinna sér í haginn og taka marga umsagnaraðila inn á einum og sama fundinum, þá var það ekki hægt á þessum fundi, enda kom það á daginn að fulltrúar Landssambands íslenskra útvegsmanna gengu af fundi án þess að sjútvn. gæti heyrt álit þeirra á frv. Sama var um fulltrúa frá Sjómannasambandinu og Farmanna- og fiskimannasambandinu, að vísu fór sá ágæti formaður síðastur, og frá Vélstjórafélagi Íslands en Helgi Laxdal lét þau orð falla að þarna ættu þeir allir samleið.

Ég hefði mjög gjarnan viljað fá að eiga viðræður og heyra álit fulltrúa Landssambands íslenskra útvegsmanna á þessu frv. og á ýmsu öðru sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi í dag. Á ég þá auðvitað sérstaklega við markaðsmál og það sem er að gerast á markaðnum úti í heimi gagnvart íslenskum sjávarútvegi í samkeppni við margumræddan Kínafisk eða önnur lönd sem sum hver eru með, eins og fram hefur komið, ríkisstyrktan sjávarútveg. Ég vil segja það enn einu sinni, ég sagði það við 1. umr., virðulegi forseti, að sú vá sem í raun og veru steðjar að íslenskum sjávarútvegi er töluvert mikil frá mörkuðum erlendis, frá Kínafiskinum sem er jafnvel veiddur á Íslandsmiðum, seldur heill til Kína, unninn þar og fluttur aftur inn á Evrópumarkað í samkeppni við okkar afurðir í nákvæmlega eins umbúðum og verið er að selja okkar íslenska fisk, en aftan á pökkunum er sex punkta letur eða eitthvað svoleiðis sem aðgreinir hvort hann kemur frá Íslandi eða annars staðar frá.

Og ég sagði það líka hér, virðulegi forseti, að ef svo fer að Rússar og Evrópusambandið gera nýjan tollasamning þá er ég mjög hræddur fyrir hönd íslenskra fiskútflytjenda í þeirri samkeppni, vegna þess að þessi Rússafiskur sem fer til Kína og er unninn þar kemur þó með tollum þar inn en er samt miklu ódýrari.

Þetta segi ég vegna þess að þetta hefur verið á fleygiferð og mikið að breytast síðustu misseri og er stöðugt mikið að breytast. Þetta atriði hefði sjútvn. auðvitað þurft að ræða á formlegan hátt við og fá lýsingu á frá þeim sem standa í þeirri grein, sama hvort það er Landssamband íslenskra útvegsmanna þar sem félagsmenn þeirra, margir hverjir, eru farnir að selja fisk sinn beint sjálfir, eða fiskútflytjendur, eins og við fengum reyndar að heyra í nefndinni frá minni fiskútflytjendum, þeirra sem eru án útgerðar, hvernig þeir lýstu því hve þar væri margt að breytast, þá er það auðvitað mjög alvarlegt mál og full þörf á því að á hinu háa Alþingi, í sal Alþingis eða í sjútvn., verði tekin upp umræða sem allra fyrst um þetta mál og það kynnt og komið á fundi með þeim aðilum sem það varðar.

Ég vil segja það í lokin, virðulegi forseti, að ég vil hvetja hv. þm., formann sjútvn., Kristin H. Gunnarsson, til þess að stuðla að því að slíkur fundur verði haldinn í sjútvn. þar sem við gefum þessum aðilum kost á að koma til fundar og kynna fyrir okkur þau atriði sem þeir eru að fjalla um og þau atriði sem þeir hafa verið að ræða um á sínum fundum sem ég hlustaði á með athygli, m.a. á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna þar sem ég var eini þingmaðurinn sem mætti, eða á fundi sem útgerðarmenn á Norðurlandi héldu á Akureyri sem var mjög fjölmennur, sem var líka ákaflega fróðlegur. Ég segi þetta aðeins, virðulegi forseti, vegna þess að ég hef gert í því að sækja þessa fundi sem nýr maður í sjútvn. og til að kynna mér þessa hluti frá öllum hliðum. Ég hvet hv. formann sjútvn. vegna þess að hann situr hér, sem ég auðvitað þakka fyrir, að hv. þm. skuli sitja yfir þessari umræðu allri, að fylgja sínu máli eftir, ég hvet hann til þess að efna til slíks fundar vegna þess að ég hygg að sjávarútvegsnefndarfólk allt hafi mjög gott af því að fá fyrirlestur og fá lýsingu á þessu eins og það er, vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að vera vel meðvitaður um það sem þar er að gerast og fá að fylgjast með þeim hlutum sem eru að breytast mjög hratt og eru á fleygiferð, sem getur kannski verið mesta ógnin fyrir íslenskan sjávarútveg, fyrir utan ýmislegt annað sem steðjar að eins og heitur sjór fyrir norðan og hræðsla um að loðnuveiðar muni ganga illa o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nokkrum atriðum, kannski í töluvert löngu máli, fyrir því að ég get ekki stutt það frv. sem hér er lagt fram. Á því eru miklir vankantar sem ég treysti mér ekki til að styðja og gerð hefur verið grein fyrir hér að við styðjum ekki.