Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:33:38 (3314)

2003-12-12 17:33:38# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:33]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem lýtur að ákvæðum annars vegar um svokallaða línuívilnun og hins vegar um svokallaða byggðakvóta. Ég vil leyfa mér í upphafi að vitna til orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar frá því í dag í andsvari við mig þar sem hann viðurkenndi að að hans mati væri núverandi fiskveiðistjórnarkerfi meingallað, á því væru miklir annmarkar þó svo að á því fyndust reyndar líka nokkrir kostir, og viðurkenndi að frv. sem hér er verið að fjalla um mætti líta á sem bót á göt þessara meingölluðu laga um stjórn fiskveiða. Ég held að þessi staðfesting hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar segi kannski meira en margt annað um það sem hér er verið að gera.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram mjög skýra stefnu í sjávarútvegsmálum. Hún leggur til að í grundvallaratriðum sé breytt frá því kerfi sem nú er. Það gengur ekki og skapar stöðugt ósætti að setja bót ofan á bót á kerfi sem er vitlaust í grunninn eins og það kerfi sem við búum við. Það er ranglátt í grunninn og tekur ekki á þeim grundvallaratriðum sem það á að taka.

Þess vegna höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lagt fram tillögur um stjórn fiskveiða. Þær kveða í fyrsta lagi á um að tryggja í verki sameign þjóðarinnar á fiskstofnunum og réttláta skiptingu afrakstursins og að gera grundvallarbreytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sem komi til framkvæmda í áföngum á næstu 20 árum t.d. til að hafa sem viðmiðun. Aðalatriðið er að taka ákvörðun um kerfisbreytinguna og koma henni af stað. Við viljum bæta umgengni og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og efla vistvænar veiðar. Við viljum skapa forsendur til að treysta búsetu við sjávarsíðuna, tryggja atvinnuöryggi og kjör fiskverkafólks og sjómanna og stuðla að betra jafnvægi og réttlátari leikreglum í samskiptum við helstu aðila innan sjávarútvegsins, þ.e. útgerðar, fiskvinnslu, verkafólks, sjómanna, sjávarbyggða og samfélagsins alls. Það er, virðulegi forseti, ekki hægt að taka út einn aðila úr þessum hópi og láta hann hafa vald til þess að véla um atvinnuöryggi fólks og þessa auðlind okkar. Við viljum standa að nauðsynlegum kerfisbreytingum og aðgerðum þannig að stöðugleiki verði tryggður og hæfilegur aðlögunartími gefist. Þetta eru okkar markmið til að vinna út frá.

Því leggjum við til að veiðiheimildunum verði deilt út í áföngum. Þriðjungur komi til byggðanna og verði tengdur byggðunum og ráðstafað þaðan, þriðjungur geti farið á almennt uppboð til þess að tryggja endurnýjun og tryggja aðgang markaðarins að því að koma að nýtingu þessarar auðlindar, hluti veiðiheimildanna er líka á hafsvæðum sem ekki er heldur hægt að binda beint við ákveðna byggð, og þriðjungur verði tengdur þeim flota sem nú hefur þær og fyrir þær komi hóflegt gjald. Þetta gerist í áföngum, hægt en ákveðið, þannig að allir fái haldið sínum hlut og aðlagi sig þeim breytingum til að tryggja bæði stöðugleika, öryggi og hagkvæmni í greininni.

Virðulegi forseti. Í umræðum um stefnu okkar hefur það einmitt komið fram, ekki síst í kosningabaráttunni í vor, í umræðunni sem þá var um sjávarútvegsmál, að menn voru ekki allir hlynntir þessu, sumir vildu fá að halda þeim heimildum sem þeir hafa núna og halda óbreyttu kerfi og færðu fyrir því rök, öðrum fannst þessar tillögur okkar ganga of hægt, en einróma var samt sagt að þetta væri framkvæmanlegt og þetta mundi ekki valda neinum kollsteypum, þetta væri kerfi sem hefði sínar forsendur og væri alveg fullkomlega framkvæmanlegt.

Það er út frá þessum sjónarmiðum, út frá þessum stefnumiðum okkar sem við metum þær tillögur sem fram koma í fiskveiðistjórnarmálum.

Ég vil líka benda á það, virðulegi forseti, að í umræðunni um vistvænar veiðar og um sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar, um bætta umgengni við hráefnið og hvernig það berst að landi sem ferskast, höfum við lagt áherslu á að efla strandveiðiflotann. Við leggjum til í okkar tillögum að tekið sé tillit til veiðarfæra í útdeilingu á aflaheimildum, þannig að hæst standi afli tekinn á handfæri, næst komi afli á línu og þá afli í önnur kyrrstæð veiðarfæri og svo afli í veiðarfæri sem dregin eru eftir botninum. Þannig er eðlilegt að okkar mati að veiðiaðferðir fái sinn veiðistuðul. Við teljum að að því eigi að stefna. Þetta er í okkar stefnuskrá og hefur verið, virðulegi forseti.

Því miður liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar eða rannsóknir um áhrif hinna mismunandi veiðarfæra á lífríkið, meðferð fisksins og umgengnina við náttúruauðlindina. Það verður bara að segjast hér að ég harma það hve lítið hefur verð unnið að veiðarfærarannsóknum. Það hafa komið fram tillögur um það á Alþingi. Ég minnist mjög ítarlegrar tillögu sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson flutti á sínum tíma varðandi veiðarfærarannsóknir, en allt of lítið hefur verið gert af því að rannsaka þetta. Þegar við í sjútvn. fengum til okkar forstöðumann Hafrannsóknastofnunar í gær og spurðum hvað lægi fyrir innan stofnunarinnar sem mætti byggja á, tölulega séð, varðandi áhrif hinna mismunandi veiðarfæra, varð hann að upplýsa að það lægi ekkert tölulega fyrir, menn væru með mat og sæju ýmislegt og skynsemin segði og reynslan segði að við hinar og þessar aðstæður skemmdu veiðarfærin hitt og þetta, bæði fisk og umhverfi. En tölulegt mat, sem þyrfti að vera til grundvallar til þess að taka vísindalegar og vel grundaðar ákvarðanir, lægi því miður ekki fyrir.

Þetta tel ég vera mikinn veikleika á okkar stærsta atvinnuvegi, sjávarútveginum, okkar stærstu auðlind, að þessar rannsóknir skuli ekki vera komnar lengra á veg.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er að mínu mati eitt af forgangsatriðum, að rannsaka áhrif veiðarfæra á lífríkið, á auðlindina, á hráefnið, nýtingu þess og meðferð, alla þætti sem að þessu lúta og þær veiðiaðstæður sem þar gætu verið á hverjum stað, við gætum því í raun beitt veiðiaðferðum til skýringar í þá veru ef þetta lægi fyrir.

Frv. sem hér liggur fyrir um að taka upp línuívilnun og skerða á móti og breyta þeirri umgjörð sem hefur verið í kringum úthlutun á byggðakvótum, er svo sem ekki mikið að segja um. Þetta er ekkert gríðarlegt stórmál í sjálfu sér. Þarna eru eitthvað um 3.375 tonn, mjög nákvæmt lagt til, sem má færa yfir í þessa línuívilnun. Það er ekki stór aflahluti ef maður lítur annars vegar á heildarveiðiheimildir upp á liðlega 200 þúsund tonn í þorski, ellegar ef maður lítur á þá ónákvæmni sem er varðandi mat og mælingu á þeim afla sem berst að landi. Við heyrum um bolfisk sem berst í stór troll á kolmunnaveiðunum, þar eru menn að nefna hærri tölu en hér er um að ræða, það er annað mál, virðulegi forseti, við höfum engar tölulegar upplýsingar eða rannsóknir um það hvað er að berast í gegnum þessi troll. Menn giska á að það sé ekki undir 3.000--4.000 tonnum á ári, en þar liggja heldur engar óyggjandi tölur fyrir.

Svona má áfram telja. Óöryggið sem liggur að baki þessum aflatölum eða mælingum á þeim afla sem berst að landi er gríðarlega mikill. Þess vegna er þessi tonnafjöldi stórmál í heildinni hvað það varðar. Hins vegar þegar farið er að grípa inn í stjórn fiskveiða með þessum hætti að hreyfa til innan flotans, eins og hér er verið að gera, og hreyfa til byggðakvóta, fer ekki hjá því að það hljóti að geta snert einstök byggðarlög, bæði breytingar á reglum um úthlutun á byggðakvótanum og lækkun á heildarheimildum byggðakvóta og einnig hvar þessi línuívilnun kæmi niður, hvar hún mundi nýtast og hvar hún mundi valda skerðingu á móti.

[17:45]

Ég gagnrýndi það í sjútvn. að það væri allt of lítið athugað og allt of illa unnið hvernig þessi breyting kæmi niður því þótt hún sé ekki stór í heildina skiptir það minni byggðarlögin vítt og breitt um landið gríðarlegu máli hvernig hvert og eitt þeirra kemur út úr þessu. Og það fannst mér einmitt, virðulegur forseti, að hefði átt að skoðast í nefndinni og að nefndinni hefði borið skylda til þess að kanna það mjög ítarlega áður en hún legði fram þessar breytingar sem hér er verið að tala um. Þetta gagnrýndi ég og tel þetta einn af stórum veikleikum þessa frv. að menn vita ekki og hafa ekki reynt að leggja neitt sérstakt mat á hverjar afleiðingarnar eru eða hvernig þetta kemur út.

Einnig er vert að minnast á að þarna er ekki tekið heildstætt á bátaflotanum sem nánast hefði átt að vera skylda nefndarinnar að gera þegar verið er að taka þetta atriði fyrir, að taka þennan bátaflota heildstætt sem við erum að fjalla um og stundar strandveiðar. En því miður eru dagabátar, bátar sem eru á sóknarmarki, skildir út undan í þessum aðgerðum, og verra en það því eins og nú horfir með reglur um þá er verið að skera þá niður við trog. Þeir eru að fara úr 23 dögum og eiga að vera komnir niður í 18 daga næsta haust ef þær reglur gilda áfram sem nú eru og sá afli sem þar tapast eða það sem rýrnar er kannski nokkuð jafnt á við það sem nú er að færast inn í línutvöföldunina eða línuívilnunina.

Þessi bátafloti stendur því frammi fyrir því að hann sé að þurrkast út, því framtíðin er ótrygg, veðhæfni þessarar útgerðar minnkar þegar dögunum fækkar þannig að staða hennar er mjög ótrygg. Ég tel það styrk í fiskveiðum okkar að vera með sem fjölbreyttastan flota, svo fremi sem það er hagkvæmt og hentugt að sækja þessa auðlind. Fjölbreytni í flotanum og margbreytileiki og að sem flestir eigi þar aðgang að til þess að veiða tel ég að sé styrkur. Eftir því sem veiðiheimildirnar færast á færri hendur á einsleitnari flota, þeim mun viðkvæmari verðum við fyrir sveiflum og öryggi byggða og atvinnuvegarins minnkar. Mér finnst þetta vera annar aðalljóður á því frv. sem hér er verið að flytja.

Það er einmitt ágætt að vitna til umsagnar Landssambands smábátaeigenda sem maður gæti haldið að frv. hefði fyrst og fremst átt að höfða til, að þeir gagnrýna hvernig að því er staðið. Þeir telja reyndar að ekki eigi að bæta þeim afla sem settur er í línuívilnun ofan á heildaraflaheimildirnar, heldur eigi hann að koma til frádráttar sem er alveg eins og tillaga eða mjög lík þeirri sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og formaður sjútvn. lagði fram sem sína tillögu inn í sjútvn. Ég skil það sjónarmið sem þar liggur til grundvallar og þeir gagnrýna að þetta skuli ekki vera gert og einnig þessar sérkennilegu reglur sem lúta að beitningu. Ef menn eru að taka upp vistvænni veiðar og telja að veiðarnar sjálfar stuðli að betri umgengni við auðlindina og menn komi með betra hráefni að landi, eru það í sjálfu sér ekki rök að vera að takmarka hvað varðar beitninguna. Þetta gagnrýna þeir hjá Landssambandi smábátaeigenda og skilja ekki beint rökin á bak við það.

Þá gagnrýna þeir afar harðlega að ekki skuli vera tekið á dagabátunum í þessum aðgerðum og þeir gjörsamlega skildir eftir nánast í verri stöðu en áður.

Síðast en ekki síst er líka gagnrýnt að línuívilnun sé að koma í staðinn fyrir byggðakvótann og ráðstöfun hans. Að vísu er verið að færa og rýmka heimildir á þeim 12.000 tonna byggðakvóta eða ráðstöfunarkvóta sem var hjá sjútvrh. en þeir kvótar sem annars voru og ætlaðir til byggðaaðgerða eru skornir niður í áföngum þannig að heildarheimildin minnkar.

Þetta er þvert á kosningaloforðin sem þessir flokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., gáfu fyrir kosningar. Sjálfstfl. lýsti því yfir að línuívilnunin ætti ekki að koma á móti og ætti ekki að verða á kostnað byggðakvótanna og í kosningaloforðum Framsfl. og í stjórnarsáttmálanum stendur að þær breytingar sem gerðar verði á fiskveiðistjórnarkerfinu eigi að auka byggðakvóta.

Það eru önnur atriði sem voru líka í viðkomandi stjórnarsáttmála og væri fróðlegt að vita hvað líður en það var hvernig ætti að tryggja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila að aflaheimildum til að styrkja stöðu sveitarfélaganna, því ef eitthvað er í þessu frv. þá er verið að færa það vald eða þau verkefni sem bæði Byggðastofnun hafði í byggðalegu tilliti og eins sveitarfélögin í gegnum byggðakvótana, þ.e. ráðstöfun á þeim kvótum. Það er verið að færa þetta algjörlega undir ráðherra þó svo að í breytingartillögum sé gert ráð fyrir að Byggðastofnun komi þar að sem umsagnaraðili. En þarna er í rauninni verið að færa þær byggðaheimildir sem voru annars vegar til ráðherra og hins vegar yfir á línubátana. Og þetta er í rauninni þvert gegn þeirri stefnu sem þeir hafa haft í frammi sem hafa verið að halda fram hlut byggðakvóta.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð leggur áherslu á að þær aðgerðir sem komi í fiskveiðistjórn verði til að treysta byggð og að tengja eigi við byggðina hluta af þeim aflaheimildum sem hægt er að losa úr fiskveiðistjórnarkerfinu. Við höfum útfærðar tillögur en við getum líka fallist á að hafa skilning og sjónarmið fyrir áföngum í þessum efnum.

Það sem við leggjum áherslu á er að fiskveiðistjórn sé beitt til styrkingar búsetu og hún verði að fela í sér byggðatengingu auðlindarinnar og kröfu um að aflinn fari til vinnslu í byggðunum sem njóta þessara réttinda. Með því að efla strandveiðiflotann og auka fiskvinnslu og bæta nýtingu þess hráefnis sem veitt er og kemur að landi, treystum við búsetu í sjávarbyggðunum og þannig getum við einnig stuðlað að bættri umgengni við auðlindina og notkun vistvænni veiða.

Línuívilnun getur verið einn liður í endurskoðun til vistvænni veiða, eins og kemur fram í okkar stefnuskrá, sem ég hef kynnt áður, en það er mikilægt að sú aukning veiðiheimilda verði byggðatengd og verði til að skapa aukið öryggi hjá íbúunum í landi, fiskvinnslufólkinu og íbúunum sem eiga allt sitt undir þessari auðlind, en sé ekki falin bara í hendur eiganda viðkomandi útgerðar eins og hér er einmitt lagt til. Það er ekki byggðavænleg aðgerð. Aðgerðirnar verða að stuðla að auknu atvinnuöryggi sjómanna, beitningamanna og annars landverkafólks, og svo fiskvinnslunnar í viðkomandi byggðarlögum.

Virðulegi forseti. Ég hef vitnað til umsagnar Landssambands smábátaeigenda. Allar umsagnir sem bárust til nefndarinnar voru á þann veg að mál þetta væri of illa unnið til þess að fara út úr nefndinni, á því væru miklir meinbugir í útfærslu, það væri hroðvirknislega unnið og ýmis önnur atriði sem menn gátu ekki fallist á eins og að þarna væri verið að skipta á línuívilnun og byggðakvótum og útfærslan á línuívilnuninni væri líka óásættanleg.

Vissulega mun þessi útfærsla sem hér er verið að leggja til af hálfu meiri hlutans koma einhverjum bátum til góða og það liggur alveg fyrir. En það er ófyrirsjáanlegt enn þá hvernig þetta kemur út í heild sinni. Það sem mér sýnist vera mjög mikilvægt í framhaldinu, verði frv. samþykkt á Alþingi, er að fylgjast með hvaða afleiðingar þetta hefur. Það er augljóst að það eru miklar deilur um málið þótt það sé ekki stórt í sniðum hvað varðar heildarveiðiheimildir á þorski. Engu að síður hefur það valdið miklum deilum og má nánast líkja því við að menn séu að setja á svið leikrit í þeim efnum, því það er fjarri því að þetta frv. sé að steypa einhverjum stórútgerðum. Það er fjarri því, þannig að leiksvið stórútgerðanna í þessu máli er mjög ósannfærandi og hefði verið skynsamlegra að mínu mati hjá þeim að draga eitthvað úr hástemmdum leikrænum tilburðum í þessum efnum. Það passar ekki, þetta er ekki af þeirri stærðargráðu að það gefi tilefni til þess. Þeir leikrænu tilburðir sem þeir hafa haft í frammi passa því engan veginn inn í þessa umræðu og sýnir kannski bara á hvaða plani umræðan er af þeirra hálfu.

En útfærslan á þessu skiptir hin einstöku litlu byggðarlög máli. Breyting á byggðakvótum og ráðstöfun þeirra og einnig tilfærsla innan flotans, skerðing á krókaaflamarksbátunum og staða dagabátanna, hvaða áhrif þetta hefur á strandveiðiflotann og veiðar og vinnslu og atvinnuöryggi hinna einstöku byggða. Það er það sem skiptir mestu máli í því sem við erum að fjalla um og ég tel að málið hefði átt að vinnast miklu betur og sjá hvert menn væru að stefna til þess að það væri tækt til áframhaldandi umræðu í þinginu.