Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:20:15 (3325)

2003-12-13 10:20:15# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), MS
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:20]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Það er aldeilis stuð á félaga mínum, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, í morgunsárið (JBjarn: ... líka í stuð.) en ég hvet fólk til þess, hv. þingmenn og aðra, að spara stóru orðin í þessari umræðu þar til endanlegar tillögur liggja fyrir um það hvernig Landspítalinn ætlar að haga starfsemi sinni á næsta ári. Ég ítreka hér að það er rangt að verið sé að skerða fjárheimildir Landspítalans. Það er rangt. (Gripið fram í.) Ég vísa í orð hæstv. heilbrrh. hér áðan um það mál. Það er allt annað mál að tala um fjárþörf en fjárheimildir. Það er allt annað mál og ég bið menn að hafa það í huga.

Það er ljóst að illa hefur gengið að halda utan um reksturinn á Landspítalanum á síðustu árum. Rekstraráætlun sem sjúkrahúsið lagði upp með á þessu ári gerði ráð fyrir tæplega 400 millj. kr. halla. Hvernig endaði árið, eða hvernig útlit er fyrir það? Það er útlit fyrir að það verði tæpir tveir milljarðar. Það sýnir okkur að illa hefur gengið að halda utan um þennan rekstur. Það er nauðsynlegt að gera þar betur svo að takist að halda utan um reksturinn þannig að við lendum ekki í sömu sporum og t.d. Svíar eru að lenda í núna á sínum stóru sjúkrahúsum, að ráðast í stórfelldan niðurskurð á starfseminni. Hér er um stórt mál að ræða og ég er fullviss um að allir aðilar málsins munu taka á því af fullri ábyrgð.

Hvað það varðar að kalla saman fund fjárln. til að fjalla um málið minni ég á að fjárln. hélt fund í gær þar sem við fjölluðum um málefni Landspítalans. Nefndin hefur látið þessi mál til sín taka og við munum að sjálfsögðu fara yfir þau eftir áramót þegar þing kemur aftur saman. Ég vildi bara minna á að nefndin fundaði um málefni spítalans í gær þannig að ég sé enga þörf á því að kalla nefndina saman núna í bláenda (JBjarn: Ekki ...) lokastarfa þingsins að þessu sinni. Ég ítreka að það er ekki um það að ræða að fjárlög ársins 2004 geri ráð fyrir skerðingu á fjárheimildum Landspítalans frá því sem verið hefur.