Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:22:25 (3326)

2003-12-13 10:22:25# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), EKG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:22]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið talað um niðurskurð til spítalans. Þó liggur það fyrir, eins og fram kom í máli hæstv. heilbrrh., að fjárveitingar til spítalans hafa á undanförnum árum verið að aukast. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að þær hafa aukist ár frá ári og búið er að bæta inn í fjárveitingar til spítalanna verulegum upphæðum á hverju einasta ári, varanlega. Hér er ekki bara um það að ræða að menn hafi brugðist við aðsteðjandi vanda og sett fram peninga í fjáraukalögum heldur er búið að stækka rammann, það er búið að leggja fram meiri peninga í þennan rekstur.

Það hefur m.a. komið fram í skýrslum alþjóðlegra stofnana á borð við OECD að framlög okkar til heilbrigðismála eru með því hæsta sem þekkist í heiminum hvernig sem á þau mál er litið. Þá verða menn að svara einfaldri spurningu, virðulegi forseti, ekki síst stjórnarandstaðan: Er það krafa stjórnarandstöðunnar hérna að það eigi að auka enn framlög til heilbrigðismála almennt? Eða er það skoðun stjórnarandstöðunnar að það eigi að fara í stefnumótunarvinnu til þess að tryggja að við getum nýtt þessa peninga innan þess ramma sem við höfum? Þessari spurningu var alls ekki svarað hér áðan. Stjórnarandstaðan talaði út og suður. Einn hv. þm. talaði áðan um að stefnumótunin þyrfti að fara fram einhvers staðar annars staðar. Hvað var hv. þm. þá að segja? Að það ætti að laga starfsemi spítalans að fjárveitingunum en það ætti ekki hins vegar að gera það á vettvangi stjórnarnefndarinnar heldur einhvern veginn öðruvísi? Ég held að hv. þingmenn verði að svara þessum spurningum skýrt. (Gripið fram í.) Það þýðir ekki einfaldlega að koma hér ár eftir ár í öllum málum af hálfu stjórnarandstöðunnar og heimta meiri pening en taka aldrei á hinni pólitísku stefnumótun. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það þýðir ekki af hálfu stjórnarandstöðunnar að vera alltaf stikkfrí í allri pólitískri umræðu og krefjast bara aukinna útgjalda. (Gripið fram í.) Það er billegur málflutningur. (ÖJ: Þetta er ábyrgðarlaust hjal.)