Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:26:40 (3328)

2003-12-13 10:26:40# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:26]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að sitja á sér vegna þess að hér er ekki um stórar stefnumarkandi ákvarðanir að ræða. Hér er um að ræða hagræðingaraðgerðir á stærstu stofnun landsins sem telur 5.000 manna starfslið og er með um 25 milljarða króna útgjöld. Ef það væri um slíkar ákvarðanir að ræða að loka, hætta starfsemi eða taka upp innritunargjöld fer sú stefnumörkun auðvitað fram í ráðuneytinu en hér er ekki um slíkt að ræða. Hér er verið að tala um hagræðingaraðgerðir sem lúta að því að laga sig að þeim fjárveitingum sem spítalinn hefur.

Mér finnst undarlegt að heyra í sömu þingmönnunum og voru á landsfundi Samf. og hlýddu á ræður um að það væru nógir peningar í heilbrigðiskerfinu, það þyrfti bara að ráðstafa þeim öðruvísi. Nógir peningar, sögðu þeir. Hvar eru þeir þingmenn núna (Gripið fram í.) sem kalla á meiri útgjöld, hvar eru þeir þingmenn núna? (EMS: Hvar er stefnan?) (Gripið fram í: Í heilbrigðismálunum?) (Gripið fram í: Hvar er stefnan?) (Gripið fram í.) Stefnan er mótuð í ráðuneytinu, stefnan er að mótast varðandi Landspítala -- háskólasjúkrahús í nefnd sem hv. 1. þm. Suðurk. á aðild að. (Gripið fram í: Akkúrat.) (Gripið fram í: Það veitir ekki af.) Hvar eru þeir þingmenn núna sem segja að það séu nógir peningar í þessu kerfi? (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Það séu nógir peningar og þurfi bara að ráðstafa þeim öðruvísi?

Þessir sömu þingmenn bregðast með þessum hætti hér við hagræðingaraðgerðum sem geta vissulega verið sársaukafullar (ÖJ: Á bráðamóttökunni?) en þær eru nauðsynlegar. (ÖJ: Hagræðing á bráðamóttöku?) Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram að það eigi að leggja niður þjónustu á bráðamóttöku. (ÖJ: ... að segja það.) (Gripið fram í.)

(Forseti (HBl): Mér þykir sjálfsagt að leyfa það að hv. þingmenn láti geðbrigði sín í ljósi.)