Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:39:23 (3334)

2003-12-13 10:39:23# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dæmalaus laugardagsmorgunn. Hér á að keyra í gegn með meirihlutavaldi stórkostlegar úrbætur. Fyrir utan breytingarnar á lífeyrisrétti sem er að finna í frv. var í frv. kauphækkun til 22 af 63 þingmönnum. Það urðu gífurleg viðbrögð í þjóðfélaginu og við minnumst þess að viðbrögð hafa orðið við ýmsu í þjóðfélaginu á liðnum vikum. Við erum almannavaldið. Við höfum a.m.k., þótt ekki væri annað, átt að hlusta á það en við höfum líka fengið að heyra viðbrögð ráðamanna við þeim viðbrögðum. Við höfum fengið að heyra það í fjölmiðlum að á viðbrögðunum í þjóðfélaginu tekur maður ekki mark núna af því að núna hentar það ekki. Það væri gaman að rifja upp á þessari stundu ýmis önnur viðbrögð þegar þjóðinni var illa við það sem aðrir ráðamenn voru að gera á peningamarkaði.

Í upphafi þings á þessum laugardagsmorgni hlustum við á að það eru stórmál í uppnámi í þjóðfélaginu, uppsagnir á spítölum og annars staðar, en það sem liggur á á þessum laugardagsmorgni, daginn eftir áætluð þinglok, er að keyra í gegn mál sem engin ástæða er til að flýta sér með og sem við hefðum átt eins og fólk að setjast yfir, vinna með og skoða hvað er hægt og ásættanlegt að gera saman. Þess vegna er þessi laugardagsmorgunn alveg dæmalaus, hann undirstrikar það sem hefur auðvitað verið ljóst í langan tíma, að menn eru gjörsamlega búnir að glata því að hafa skilning á því við hvaða aðstæður maður vinnur saman og hvenær maður setur fram frv. stjórnarflokkanna og keyrir það í gegn með valdi sínu. Þetta var ekki þannig frv. Þetta var ekki stjórnarfrv. sem maður setur fram og hlustar á sjónarmið hinna og ákveður svo hvort maður afgreiðir eða ekki. Nei, þetta mál var öðruvísi vaxið og ég ætla, herra forseti, að fara aðeins yfir það.

Á miðvikudegi kl. 4 þar sem til umfjöllunar á þingflokksfundum eru síðustu mál fyrir jól, afstaða þingmanna til þingmála og atkvæðagreiðslu, kemur til þingflokkanna frv. um breytingu á lífeyrisrétti. Enginn hefur komið að undirbúningi málsins, enginn hefur tekið þátt í því að skoða hvaða mál ættu að fara inn í þetta frv. Eiga það að vera þau sem þarna er að finna? Hefðu önnur átt að koma þar til?

Sumt er ágætt í þessu máli ef það væri skoðað, jafnvel lagfært, annað óásættanlegt. Formenn hafa fallist á að þessi mál komi til skoðunar þingflokka og þess vegna tökum við málið til skoðunar, að sjálfsögðu. Það eru strax sterk viðbrögð í okkar þingflokki. Menn skilja ekki að svona mál komi inn á miðvikudegi þegar þinginu á að ljúka á föstudegi og það sé ætlast til að því verði lokið fyrir jól. Það er fráleitt. Það er vilji til að vinna með svona frv. á komandi vikum og skoða hvaða samstaða gæti náðst um frv. og það sem þar er að finna, að fá almennileg vinnubrögð og meta hlutina saman. Það er gróf yfirferð yfir málin við þessar aðstæður og það eru strax sterk viðbrögð um að þarna verði kostnaður að koma fram. Það eru líka strax viðbrögð um að málið sé mikið álitamál.

Samt næst sú niðurstaða að skoða málið og ég var ein þeirra sem töldu rétt að hittast, skoða málið og kanna hvort unnt væri að ná samstöðu um að nota lengri tíma í málið eins og ég hef átt að venjast þegar um er að ræða umbætur í þinghaldinu eða aðrar breytingar sem þingið hefur farið í varðandi umhverfi, stöðu eða kjör þingmanna.

Ég verð að lýsa því, virðulegi forseti, að ég er mjög ósátt við þau viðbrögð sem urðu um leið og við komum með þessi mál inn í nefndina. Ég er mjög ósátt við það hvaða vinnubrögð er verið að taka upp, núna, um það hvernig við vinnum að málefnum þingmanna.

Þegar ljóst varð að það væri of mikill ágreiningur til að hægt væri að vinna með þetta mál og ná niðurstöðu um að fara með það fram á þessum dögum, að við gætum engan veginn stutt það í þeim búningi sem það var sett fram, er bara ákveðið að fara fram með það sem meirihlutamál. Þá breytist málið eins og hendi sé veifað úr því að eiga að vera sameiginlegt mál allra flokka í það að vera meirihlutamál. Auðvitað kunnu þessir stjórnarflokkar ekkert að vinna saman að máli eða skoða hvort mál gæti verið sameiginlegt. Það kom alveg í ljós um leið og við hittumst í annað sinn. Þá sögðu menn: Nú ætlum við að kynna brtt. meiri hlutans. Hvaða meiri hluta? spurðum við sem höfðum fallist á að skoða mál sem átti að kanna hvort gæti verið samstaða um eða hægt að ná niðurstöðu um á milli flokka. Hvaða meiri hluta?

[10:45]

Virðulegi forseti. Það er ekki ásættanlegt að haldið sé eins á málum og búið er að gera í þessu máli. Samstaða sem menn vildu ná náðist ekki og þá er brotið blað í þingsögunni með því að fara fram með svona mál með meirihlutavaldi. Ekkert minna. Ég ætla að fara aðeins yfir það hvernig áður hefur verið unnið með svipuð mál. Ég er búin að taka oft þátt í því sem þingflokksformaður til margra ára á Alþingi Íslendinga.

Það var frábært að vinna undir leiðsögn Ólafs G. Einarssonar að ýmsu því sem horft hefur til framfara á Alþingi á liðnum árum. Þar var einmitt unnið saman, einn frá hverjum flokki, allt tekið upp á borðið þar sem sjónarmið allra naut sín og skoðað hvað væri hægt að gera, hvað væri ásættanlegt, og sameiginlegri niðurstöðu náð. Þetta voru góð vinnubrögð sem oft hafa leitt til þess að við höfum náð árangri í vinnubrögðum á þinginu, skapað nýtt umhverfi á ýmsan hátt og jafnvel einhverjar úrbætur í því sem hefur snúið að þingmönnum.

Á kjörtímabilinu 1995--1999 átti að reyna að fara í breytingar á starfsumhverfi þingmanna og breyta t.d. þingsköpunum og öðru sem hefði mátt betur fara og til framtíðar horfði. Þá var líka búið að ná allgóðum árangri með umtalsverðar breytingar á því sem skipti máli laust fyrir kosningarnar 1999 og ánægja í flestum þingflokkum með það sem þar átti að breytast í starfsumhverfi okkar. Nei, þá var því máli sópað út af borðinu. Af hverju? Það var ekki hægt að ná samstöðu um allt. Það mátti ekki taka það sem var samstaða um og gera þær áfangabreytingar. Nei, þá var ágreiningurinn meiri á milli stjórnarflokkanna sjálfra og engin leið að ná því fram að við sameinuðumst um þær úrbætur sem samstaða væri um og tækjum það skref. Nei, öllu var sópað út af borðinu og hefur ekki sést síðan. Sópað út af borðinu eftir allmikla vinnu og hefur ekki sést síðan. Þó eru liðin rúm fjögur ár.

Núna er komið inn með mál sem snýr að kjörum þingmanna og má jafna við nákvæmlega þessi vinnubrögð. Þá er það kannað á rúmlega hálfum sólarhring hvort hægt sé að ná samstöðu um málið og þegar það er ljóst að svo er ekki er það afgreitt sem meirihlutamál. Ég gagnrýni þetta harðlega. Svona á ekki að vinna og við eigum ekki að senda skilaboð frá Alþingi um að svona ætlum við að gera núna fyrir okkur. Göngum við í kringum einiberjarunn. Nú eru jól hjá okkur og við ætlum að gera þetta fyrir suma okkar þingmenn, aðallega helst ráðherra okkar, og okkur er alveg sama hvað þið þarna fyrir utan hafið um það að segja þó að þið hafið sjálf verið í einhverri réttindabaráttu.

Svona eigum við ekki að haga okkur. Nei, við eigum að taka lengri tíma í málið. Auðvitað átti kostnaður að liggja fyrir og hann var það fyrsta sem við spurðum um. Er hægt að fá að vita hvaða kostnaður fylgir þessu máli? Fulltrúi fjmrn. sagði nei, það er ekki hægt. Það tekur marga daga. Það er hugsanlega hægt í næstu viku. Hægt er að slá kannski á það hvað þetta þýðir fyrir þá sem eru núna á þingi ef hægt er að áætla hvað þeir sitji lengi. Það er ekki hægt varðandi þá sem eiga eftir að taka sæti á Alþingi.

Það er grundvallaratriðið. Auðvitað má spá í það hvernig hlutirnir hafa verið fram að þessu en það var alveg ljóst þar sem við sátum á fundi að ekki er hægt að koma með svör við þessu. Fyrst og fremst lögðum við áherslu á hvort hægt væri að ná samstöðu um að vinna með frv. í janúar og afgreiða það í febrúar. Nei, það var ekki hægt eins og hér hefur komið fram. Þá fórum við þrátt fyrir það í yfirferð á málinu til að skoða hvað í því fælist vegna þess að það var alls ekki ljóst fyrr en við settumst yfir málið í nefnd. Engan veginn var þekking á því þegar það kom til þingflokkanna, eingöngu gróf yfirferð á því hver meginatriði frv. væru.

Eftir að við vorum búin að fara yfir málið, skoða hvað í því fælist og taka það fyrir á nokkrum fundum í þingflokknum var alveg ljóst að við þær aðstæður með svona vinnubrögðum og varðandi þær megináherslur sem stjórnarliðið lagði og prinsippin sem þar var að finna mundum við ekki ná samstöðu um málið.

Er þetta sem ég er hér að segja þá nöldur í stjórnarandstöðu? Er það sem ég er að segja bara eitthvað ómerkilegt af því að við höfum ekki fengið eitthvað í gegn sem við vildum? Svarið er nei. Það sem ég er að segja er að viðhafa á vinnubrögð á Alþingi sem eru ásættanleg. Við erum nefnilega hér að skoða það, á Alþingi Íslendinga, að færa okkur í eftirlaunagreiðslum og ýmsum hlunnindum inn á það sem þekkist í nágrannalöndunum. Þegar við skoðum hvernig þessi mál eru vaxin í nágrannalöndunum er líka ljóst að í frv. felst betri réttur, virðulegi forseti --- það væri ágætt ef þeir sem ætla að vera í hliðarsal halli hurðinni þannig að þeir sem sitja í sal og vilja hlýða á ræðu mína geti gert það. Þessi réttur sem hér um ræðir er fyrst og fremst sambærilegur við það sem gerist í Þýskalandi. Í öllum hinum tilfellunum er rétturinn meiri en full ástæða er til að skoða þetta. Það er full ástæða til þess að nefnd sem vill úrbætur í þessu máli taki það upp á borðið. Hvernig er þetta í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og allri Evrópu ef því er að skipta? Þess vegna óskaði ég eftir því áður en við byrjuðum með málið með hringingu til nefndarritara að það yrði kannað gróflega hvernig þetta væri annars staðar. Það var aldrei tekið fyrir í nefndinni. Að sjálfsögðu ekki. Það var ekki tími til þess. Það átti að afgreiða málið á tveimur dögum.

Hvernig er þetta þá gert annars staðar þar sem eru orðnar talsvert miklar umbætur og breytingar í umhverfi þingsins? Tökum Noreg fyrir. Þar voru gerðar viðamiklar breytingar í síðasta júnímánuði og mestu breytingarnar, ef ég hef skilið málið rétt, lutu að stöðu hæstv. forseta. Ráðherrarnir voru ekki aðalmálið heldur forseti þingsins, enda hefur forseti þingsins þar þá stöðu sem forseti á Alþingi Íslendinga ætti líka að hafa. Hann er æðsta valdið vegna þess að þingið er æðsta valdið í þeim demókratísku löndum sem við berum okkur saman við.

Hvernig gerðu þeir þetta í Noregi? Þeir settu starfshóp allra flokka á laggir í janúar árið 2000. Hver var settur sem formaður? Forseti eins þingsins, Uvdalsþingsins, fulltrúi frá stjórnarandstöðunni, og leiddi starfið til enda. Þar er tekið á öllum þáttum. Það er ekki verið að velja út úr það sem er hentugt að breyta núna fyrir mig eða þig. Tekið er á öllum þáttum. Það er tekið á laununum. Það er tekið á réttindunum, eftirlaunaréttinum, starfsgreiðslunum, álagsgreiðslunum og þar þekkjast líka greiðslur til formanna þingflokka. En hvernig gera þeir það? Jú, þeir segja: Stjórnarandstöðuflokkar eru ekki með sömu aðstöðu og stjórnarflokkar. Stjórnarflokkar hafa alla sérfræðiþekkingu inni í ráðuneytum sem þeir þurfa. Stjórnarflokkar hafa aðstöðu sem er gjörólík stjórnarandstöðunni og þess vegna segja þeir: Við hækkum grunnframlag til stjórnmálaflokkanna um 50--100%, til stjórnarandstöðuflokkanna. Og þar greiða flokkarnir sjálfir formönnum sínum. Hægri flokkurinn greiðir sínum formanni sem er í stjórnarandstöðu ráðherralaun. Verkamannaflokkurinn greiðir sínum formanni 70 þús. norskar kr. á ári. Ekkert af þessu eigum við möguleika á að skoða. Vinnubrögð eins og þau gerast best eigum við ekki möguleika á að viðhafa hér á Alþingi Íslendinga. Nei, hér er það einhver annar og við vitum ekki enn þá, virðulegi forseti, hver samdi frv. Það hefur ekki fengist svar við því. Fyrir okkur var lagt fullbúið frv., við féllumst á að skoða það sem við hefðum e.t.v. ekki átt að gera og sem ég var þó talsmaður fyrir í mínum flokki af því að ég var þvílíkt barn að trúa því að það væri hægt að ná samstöðu um að skoða þessi mál áfram. Við erum ekki að ljúka þingi og þaðan af síður kjörtímabili. Það er bara að koma jólahlé og við gætum unnið með þetta mál til vors, meira að segja á næsta þingi, a.m.k. til vors ef við erum að hugsa um hagsmuni einhvers sérstaks.

Virðulegi forseti. Ég hef greint frá því hvernig þetta mál blasir við mér, hvernig þetta mál blasir við Samf. Við hefðum alveg viljað fara í að skoða alhliða stöðu þingmanna. Við höfum lengi viljað skoða breytingar á þingsköpunum og þorað að taka á þeim. Það er enginn vilji fyrir því. Þetta eru vond vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð þeirra sem kunna ekkert annað en að vera í meiri hluta og beita valdinu. Ég harma það að svona skyldi vera farið með annars ágætan möguleika á því að setjast saman yfir mál, ná einhverjum framförum og úrbótum því margt þyrfti að gera, jafnvel annað en það sem er í þessu frv.