Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:02:44 (3339)

2003-12-13 11:02:44# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi verður það að vera alveg skýrt í þessari umræðu að tillögur til breytinga á frv. sem voru til umræðu í nefndinni voru mínar tillögur. Þetta frv. fékk mjög vandlega yfirferð í nefndinni, mun vandaðri og ítarlegri en oft gerist með frv. í nefndum. Þegar upp var staðið og í ljós kom að ekki náðist saman með öllum nefndarmönnum voru það einungis örfá atriði sem stóðu út af borðinu. Búið var að leggja mikla vinnu í að ná nefndinni saman um öll atriði frv. þannig að ég hafna öllum yfirlýsingum um að þetta mál hafi verið unnið með einhverjum meirihlutabrag. Það er fjarri sanni. Samanburður við önnur ríki lá fyrir nefndinni. Hann var ekki tekinn til sérstakrar umræðu en blasti við öllum nefndarmönnum sem kynntu sér þær niðurstöður að með frv. erum við ekki að gera annað en færast nær framkvæmdinni eins og hún þekkist í þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við.