Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:04:56 (3341)

2003-12-13 11:04:56# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hefur í þessari umræðu fyrst og fremst vikið máli sínu að vinnubrögðum nefndarinnar. Nú síðast þegar hún kom hér upp vék hún máli sínu að því að það væru ákveðin atriði sem steytt hefði á þannig að ég sakna þess auðvitað þegar hún kemur hér upp og ræðir frv. eins og það liggur fyrir þinginu að hún skuli þá ekki taka til umfjöllunar þau efnisatriði frv. sem hún er svona ósátt við.

Öll áherslan er á vinnubrögð nefndarinnar og ég stend hér upp og segi: Vinnubrögð nefndarinnar voru eins góð og þau máttu vera. Það lá fyrir frá upphafi þegar frv. kom fram að það naut stuðnings formanna allra flokka og stuðnings þingmanna úr öllum flokkum. Það lá fyrir og var síðast staðfest af einum flm. frv. sem situr með hv. þm. í flokki að þetta mál yrði unnið með miklu hraði í nefndinni og hér á þinginu. Þetta lá fyrir og það var vitneskja um þetta hjá formönnum allra flokka og hjá þingmönnum þeirra flokka sem studdu frv., þingmönnum allra flokka.