Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:07:18 (3343)

2003-12-13 11:07:18# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, PM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:07]

Páll Magnússon (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur var merkileg. Þetta mál var kynnt sem þverpólitískt mál, var kynnt þannig í fjölmiðlum og á þingi og við 1. umr. gerði Samf. enga athugasemd við það.

Gagnrýni hv. þingmanns á málsmeðferð er auðvitað gagnrýni á Össur Skarphéðinsson, formann Samf. og hv. þm. Það lýsir vel ástandinu innan Samf. Það gerðist síðan að fólk úti í bæ sem telur sig hafa meira vit á þingstörfum Samf. en kjörnir þingfulltrúar hennar tók völdin í þingflokki Samf. og sneri hverjum þingmanninum við á fætur öðrum. Hingað kom kona í húsið og rassskellti þingmenn fram eftir nóttu. Það má auðvitað lesa í orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur þegar hún talar um að annars staðar fái stjórnmálaflokkarnir greiðslur sem þeir geti síðan greitt formanni sínum hvort sem hann situr innan þings eða utan. Um það snýst þetta mál.