Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:16:20 (3351)

2003-12-13 11:16:20# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:16]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Það mátti ráða af svörum hv. þm. Bjarna Benediktssonar að ég væri að spyrja rangan mann, ég ætti frekar að spyrja hæstv. forsrh. út í útreikninga hans sem komu fram ítrekað í sjónvarpinu. Ég leyfi mér þá að bera upp spurninguna á ný við hæstv. forsrh. Liggja þessir útreikningar fyrir um 1--2 millj. sem kostnað af frv. og þessar 6 millj. sem voru nefndar í fyrrakvöld? Mér finnst rétt að hæstv. forsrh. greini frá þessu og upplýsi okkur sem erum að fjalla um frv. um þessa útreikninga. Ef þeir eru ekki til, og mann grunar að þessu hafi verið slegið fram, er það mjög óábyrgt af valdamesta manni þjóðarinnar að koma fram í fjölmiðlum og slá fram svona tölum til að villa fólki sýn þegar verið er að ræða mál sem varðar kjör æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Hvað sem því líður erum við að ræða þetta frv. Það er oft talað um að æðstu stjórnmálamenn og embættismenn þjóðarinnar eigi að vera vel launaðir vegna mikilvægra starfa sinna. Auðvitað má færa góð og gild rök fyrir því að æðstu embættismenn þjóðarinnar þurfi há og góð laun, sérstaklega alþingismenn og ráðherrar sem setja lög og reglur fyrir þjóðfélagið. Einnig má halda því fram með góðum rökum að það eigi að tryggja þingmönnum, ráðherrum og æðstu embættismönnum góðan og öruggan lífeyri. Ég er því fylgjandi enda var ég á þessu frv. en vildi fá að sjá ákveðnar breytingar á því.

Ýmis rök hafa verið notuð fyrir því hvers vegna valdamenn skuli hafa há laun. Þau sem hafa verið einna mest áberandi í gegnum tíðina eru að til þess að fá gott og hæft fólk í ábyrgðarstörf þurfi að vera eftirsóknarvert að sækja í slík störf. Jafnvel hafa heyrst þau rök að þetta séu of lág laun til þess að besta fólkið sækist eftir þingmennsku.

Ég er þeim sjónarmiðum ekki fyllilega sammála þar sem laun okkar alþingismanna eru ágæt og starfskjör einnig. Ég tel að annar þáttur sé mikilvægari fyrir mann sem sækist eftir því að verða alþingismaður. Það er miklu mikilvægara að fólk hafi einhverjar hugsjónir og vilji breyta þjóðfélaginu til hins betra. Ég er ekki endilega viss um að við fengjum helmingi betri alþingismenn ef við tvöfölduðum kaupið eða fengjum fjórfalt betri alþingismenn ef við fjórfölduðum kaupið. Ég tel aðalatriðið vera að fá fólk til starfa á Alþingi sem er sanngjarnt og hefur hugsjónir.

Í því máli sem við erum að fjalla um hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum með einstaka alþingismenn og tel þá alls ekki hafa staðið með eðlilegum hætti að framgangi frv. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með hv. þm. Bjarna Benediktsson, formann allshn., og mér finnst hann ekki hafa unnið af fullri sanngirni í málinu, sanngirni sem má ætla að góður alþingismaður reyni að tileinka sér í málflutningi og verkum á þinginu. Forsenda þess að málið um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra og hæstaréttardómara var flutt var sú að það væri flutt af öllum þingflokkum til að sátt næðist um það meðal þingflokka og það var samþykkt af öllum þingflokkum, Framsfl., Frjálsl., Sjálfstfl., Samf. og Vinstri grænum.

Ég tel að formaður allshn. hafi starfað af heilindum og sanngirni í málinu framan af en þegar það var útséð um að eining næðist um málið sýndi hann af sér fádæma óbilgirni og flaustur við að ætla að keyra málið í gegnum nefndina. Með öðrum orðum tel ég að hv. formaður allshn. hafi sett verulega niður með framgöngu sinni í þessu máli.

Hv. formaður allshn. má ekki gleyma þeirri forsendu að frv. var lagt fram af öllum þingflokkum með því fororði að sátt væri um málið. Ég vil árétta að kjör okkar sem vinnum í þágu almennings eiga að vera öllum kunn. Það á ekki að vera launungarmál hver launin eru. Sama á við um ýmsa aðra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir almenning, svo sem forsvarsmenn launafólks sem hafa látið í ljósi óánægju sína með það frv. sem við erum hér að fjalla um.

Því hefur verið haldið fram að ýmsir þessir forustumenn launþegahreyfingarinnar sem hafa látið hvað ófriðlegast í þeirri umræðu í þjóðfélaginu sem hefur farið fram hafi talsvert hærri laun en þingmenn. Ég veit í sjálfu sér ekki hver sannleikurinn er í þeim efnum en mér finnst að við ættum ekki að fara í neinar grafgötur með það og ég leiði að því getum að ýmsir aðrir hv. þm., svo sem hv. þm. Ögmundur Jónasson, séu mér sammála í þessu máli.

Auðvitað á almenningur fullan rétt á upplýsingum um kjör þeirra, rétt eins og upplýsingum um kjör okkar sem störfum á hinu háa Alþingi. Okkur í allshn. þingsins væri einnig fengur að því að fá beina tillögu um hvernig þessum lífeyrisréttindum væri best fyrir komið frá ýmsum forustumönnum launþegahreyfingarinnar sem margir hverjir sitja í stjórnum lífeyrissjóða og eru sérfræðingar á þessu sviði. Ég gæti trúað því að þeir hefðu ýmislegt gagnlegt fram að færa í þessu máli. Hverjum þeim sem kynnir sér núverandi kerfi er fullljóst að ýmislegt má betur fara í því.

Herra forseti. Hvað sem því líður tel ég að þessi umræða um laun og kjör alþingismanna sé ágætisumræða og mér finnst að það þurfi ekki að drífa hana af í einhverjum hvelli og afgreiða málið. Við sem störfum í þágu almennings ættum að gefa okkur góðan tíma í að hlusta á hvað þjóðin hefur að segja um kjör okkar. Við ættum að taka mið af því og einnig að færa sanngirnisrök fyrir ákvörðun okkar. Það sem fólk hefur á tilfinningunni við flýtiafgreiðslu á hinu háa Alþingi er að verið sé að fela þessa umræðu og koma í veg fyrir hana. Ég tel hollt fyrir þjóðfélagið og Alþingi Íslendinga að taka góðan tíma í slíka umræðu, taka góðan tíma í að ræða hver launin og eftirlaunin ættu að vera. Ég tel að alþingismenn eigi ekki að vera hræddir við að ræða kjör sín í þinginu frammi fyrir alþjóð sem við störfum fyrir.

Herra forseti. Það er ýmislegt sem horfir til bóta í því frv. sem við erum að fjalla um og á það sérstaklega við um lífeyrisrétt þingmanna en samkvæmt frv. ávinna þingmenn sér jafnar lífeyrisgreiðslur fyrir hvert ár sem þeir eru þingmenn, þ.e. 3% á ári. Í gildandi lögum myndast rétturinn til eftirlauna í stökkum, minnst fyrst, eykst síðan og minnkar aftur. Ég tel að þessar breytingar og ýmsar aðrar breytingar í frv. séu til mikilla bóta.

Ég tel einnig að það sé til mikilla bóta að stjórnmálamenn sem eru í eldlínunni geti hætt snemma og með nokkurri sæmd. Í gegnum tíðina hefur gömlum stjórnmálamönnum verið komið í ýmis embætti í stjórnsýslunni og jafnvel eru dæmi um að ný störf hafi verið búin til fyrir uppgjafastjórnmálamenn. Stundum hefur þetta hreinlega orðið baggi á ýmsum stofnunum. Ekki er það endilega vegna þess að uppgjafastjórnmálamenn hafi ekki skilað góðu dagsverki á nýjum starfsvettvangi, síður en svo. Sannleikurinn er sá að persónur hafa verið orðnar umdeildar vegna þess að þær hafa lagt sig af heilum hug í átök á sviði stjórnmála og þau hafa fylgt þeim inn á nýjan vinnustað. Í sambandi við Seðlabankann hefur oft heyrst að þessi eða hinn bankastjórinn sé ekki þar vegna eigin verðleika heldur eingöngu vegna flokkstengsla.

Með þessari umræðu er ég ekki að kasta rýrð á stjórnmálamenn sem hætta á vettvangi stjórnmálanna eða gefa í skyn að þeir geti ekki tekið til hendinni á nýjum vettvangi. Ég hef þess vegna verið því mjög fylgjandi að t.d. hæstv. forsrh., sveitungi minn úr Skerjafirðinum, Davíð Oddsson, geti komist á öruggan lífeyri þó að hann hverfi af vettvangi stjórnmálanna, ekki eldri en hann er nú. Ég er því fylgjandi. Og ég þori alveg að rökstyðja það.

Hvaða álit sem fólk hefur á persónunni, því sem hæstv. forsrh. hefur gert og hvernig stjórnmálaferill hans hefur verið, finnst mér --- og ég stend við það --- að valdamesti maður þjóðarinnar eigi rétt á góðum eftirlaunum og geti hætt snemma í sínu pólitíska starfi. Það stend ég við. Mér finnst að mörgu leyti ósanngjarnt að tala um þetta frv. sem eitthvert starfslokafrv. Davíðs Oddssonar. Ég er fylgjandi þessu ákvæði. Engu að síður tel ég að þjóðfélagið hafi hag af því að hæstv. forsrh. hætti störfum sem allra fyrst en það er þó óvíst að betra taki við fyrst um sinn. Það er mál margra --- og ég er sammála því --- að hæstv. forsrh. sé búinn að vera of lengi í starfi og ég er reiðubúinn að leggja mitt litla lóð á vogarskálina til þess að tryggja að hann geti hætt sem fyrst með sæmd og öruggar lífeyrisgreiðslur. Ég sé ekki eftir þeim peningum úr ríkissjóði. Ég held að fjármunum hafi verið varið í annað eins. Ég teldi það vera mjög til framdráttar fyrir þjóðina þar sem menn sjá ýmis merki um að löng stjórnarseta sé farin að hafa óholl áhrif á þjóðlífið. Og það má sjá ýmis merki þess í frv. að við alþingismenn erum farnir að missa sjónar á hlutverki stjórnvalda. Það ákvæði sem ég hef verið hvað harðastur gegn í þessu frv. og lýsi mig þess vegna mótfallinn frv. sem ég flyt sjálfur er það að ég tel það algjörlega óásættanlegt að stjórnvöld séu að hafa með beinum hætti afskipti af innri störfum stjórnmálaflokka. Ég tel það algjörlega óásættanlegt að launa formenn stjórnmálaflokka, það ákvæði er óásættanlegt. Það á ekki rétt á sér. Og ég held að aðrir alþingismenn hér inni ættu að vera þessu sammála.

Ég mun leggja fram brtt. við frv. vegna þess að það samrýmist ekki hlutverki stjórnvalda að hafa bein afskipti inn í störf stjórnmálaflokka. Við umfjöllun um frv. í allshn. kristallaðist það æ skýrara í huga mínum að þetta ákvæði gengur ekki upp og það verður að fella það brott. Fleiri eru mér sammála. Það má lesa um það á heimasíðu Heimdallar að þeir eru mjög ósáttir við þetta ákvæði. Ég held að þeir sem eru eldri í Sjálfstfl. ættu að hlusta á ungliðana einu sinni. Ég legg ekki til að það verði gert í hvert skipti sem þeir setja eitthvað á heimasíðuna því að þá væri voðinn vís. En þetta ákvæði í frv. er með ólíkindum.

Formaður nefndarinnar féllst ekki á þá ósk mína að þessu ákvæði yrði breytt og sagði að eina leiðin til þess að álagsgreiðslur til formanna stjórnmálaflokka færu út úr frv. væri sú að allir nefndarmenn styddu frv. Það væri leiðin til þess að þetta ákvæði færi út. Svo undarlega sem það hljómar átti þetta ákvæði um greiðslu til formanna stjórnmálaflokkanna að vera svipa á fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna til að styðja frv. Ef allir hefðu sagst styðja frv. hefði þetta ákvæði fallið út, greiðslur til formanna stjórnmálaflokkanna. Og ég óska eftir því að formaður allshn. útskýri eilítið þessa afstöðu sína. Mér er hún algjörlega óskiljanleg.

Í lokin, herra forseti, vil ég taka fram enn á ný að okkur liggur ekkert á að ljúka þessari umræðu nú og gera frv. að lögum. Við eigum að vanda til verksins. Ég botna ekkert í því hvers vegna ekki má ræða svo umdeilt mál í þaula og skapa betri frið um það í þjóðfélaginu. Sem flm. frv. taldi ég mjög eðlilegt að vinnubrögð og kostnaður vegna þess lægi fyrir áður en það yrði að lögum en slíkar tölur liggja ekki fyrir nú og ófyrirséð að slíkt liggi fyrir áður en frv. verður að lögum. Slík afgreiðsla er óásættanleg.

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli alþingismanna á því að það má búast við atkvæðagreiðslu hvenær sem er þar sem hv. þm. hefur lýst því yfir að hann muni leggja fram brtt. við frv. og þá þarf að leita afbrigða til þess að brtt. megi koma fram.)