Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:31:07 (3352)

2003-12-13 11:31:07# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Í þjóðfélaginu eru uppi háværar kröfur um hagræðingu og það er ljóst að Alþingi hefur brugðist vel við þeim kröfum því að nú eru það flutningsmennirnir sem rífa niður frv. Þetta mun örugglega spara heilmikla vinnu í framtíðinni.

Vegna þeirra spurninga sem hv. þm. spurði mig um þær tölur sem ég nefndi er talnagrundvöllurinn tvíþættur. Annars vegar eru þau fjárútlát sem menn geta séð fyrir að ríkissjóði verði beitt fyrir á næsta ári eða allra næstu árum og hins vegar þær skuldbindingar sem geta fallið á ríkissjóð á löngu árabili. Síðari þátturinn er flóknari að reikna út eins og eftirlaunaskuldir líka yfirleitt eru.

Hinn þátturinn, eftir þær breytingar ef samþykktar verða frá meiri hluta allshn., liggur núna á bilinu frá núll upp í 2--3 millj. kr. á ári.